Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

8. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 17:27:10 (297)


[17:27]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir umræður þær sem hér hafa átt sér stað og tek undir það að hér er um mjög brýnt mál að ræða. Ég tek það fram að nú þegar hafa líklega sex dómarar af dómurum Hæstaréttar tjáð sig um þetta mál í þremur dómum sem hafa fallið, þ.e. 18. maí, 24. maí og 26. maí, og mér skilst að stefnan sé sú að öllum dómum dómarafulltrúa verði vísað frá þannig að það er ljóst að þetta er brýnt mál.
    Varðandi brtt. þá ítreka ég þá skoðun nefndarinnar að við teljum það ekki vafalaust að breytingarnar sem frv. óbreytt fól í sér mundi duga til. Ég ítreka að þeir sem komu á fund nefndarinnar og formaður réttarfarsnefndar lögðu mjög mikla áherslu á þetta atriði. Þar að auki formaður Dómarafélagsins og fleiri aðilar.
    Varðandi þetta atriði um gæsluvarðhaldsúrskurðina hef ég áður bent á að hér er aðeins um heimild að ræða sem vonandi verður ekki almennt nýtt. En ég vil láta það koma skýrt fram líka að þetta er millibilsástand þar sem við bíðum eftir frv. frá réttarfarsnefnd um nýja skipun dómstóla.
    Í lokin vitna ég til dóms Hæstaréttar frá 18. maí sl. vegna þessarar brtt., sem hefur komið fram frá nefndinni, og með leyfi virðulegs forseta vil ég fá að lesa hér upp kafla sem er á undan þeim kafla sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir las upp og þar segir:
    ,,Í greinargerð með frv. að lögum nr. 92/1989 kemur fram að nauðsynlegt var talið að viðhalda stöðu dómarafulltrúa í því skyni að þjálfa lögfræðinga í dómaraverkum. Ráðningarkjör dómarafulltrúans eins og sér geta ekki skorið úr um það að hann verði talinn svo háður framkvæmdarvaldinu að hann geti ekki farið með dómsathafnir í umsjón á ábyrgð og í nafni embættisdómara. Að framan er því hins vegar lýst hvernig þetta hefur orðið í framkvæmd og að ekki verði á það fallist að umfangsmikil dómstörf dómarafulltrúa geti verið á ábyrgð héraðsdómara. Í raun starfa þeir á sama hátt og embættisdómarar og oft að eins þýðingarmiklum dómstörfum. Þeir hafa þó sjaldnar sambærilega reynslu og hafa ekki þurft að gangast við ábyrgð á dómstörfum sínum í upphafi starfs með heiti um að virða stjórnarskrá lýðveldisins.``
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu frekar en legg áherslu á að þetta mál fái góðar móttökur og að allir fulltrúar allshn. skrifuðu undir nál. þótt einn sé með fyrirvara.