Ummæli félagsmálaráðherra um EES-samninginn

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 13:44:46 (310)


[13:44]
     Jón Baldvin Hannibalsson :
    Virðulegi forseti. Á einföldu mannamáli sýnist mér að þetta mál snúist fyrst og fremst um hæstv. félmrh. sjálfan sem stjórnmálamann. Stjórnmálamaðurinn Páll Pétursson, þá í stjórnarandstöðu og alþm., lýsti

yfir þeirri skoðun sinni að EES-samningurinn bryti í bága við stjórnarskrá. Meiri hluti Alþingis komst að annarri niðurstöðu. En í gær gerðist það að stjórnmálamaðurinn Páll Pétursson, nú hæstv. félmrh., lýsti því yfir að skoðun hans væri óbreytt. Hann teldi þennan samning vera stjórnarskrárbrot. Sú spurning sem snýr þess vegna að honum er þessi: Hverra kosta á hann völ gagnvart eiðstaf sínum að stjórnarskránni? Að berjast gegn þessum samningi, að beita sér fyrir því að þessu stjórnarskrárbroti verði aflétt og samningnum sagt upp samkvæmt nánari ákvæðum hans; ella að segja af sér í ríkisstjórn sem m.a. hefur falið þessum hinum sama manni að flytja mál, stjórnvaldsathafnir, á grundvelli samningsins sem er stjórnarskrárbrot. Þetta snýr auðvitað fyrst og fremst að hæstv. félmrh. sjálfum.
    Álitamál kann það að vera hver ætti að vera hlutur hæstv. forsrh. þegar ráðherra í ríkisstjórn hans lýsir því yfir að hann telji þennan mikilvæga milliríkjasamning vera stjórnarskrárbrot. Hann er reyndar þess eðlis að hann kveður á um ekki bara breytingar á löggjöf í eitt skipti fyrir öll, heldur er sífellt verið að flytja mál sem byggja á honum og breyta íslenskri löggjöf. Hvert er viðhorf hæstv. forsrh. til þess að einn af ráðherrum í ríkisstjórn hans telur svo vera? Það kann að vera álitamál. En að minnsta kosti snýr þetta mál að þinginu í þeim skilningi að allir erum við eiðsvarnir að því að hlíta stjórnarskránni. Ég fyrir mitt leyti fæ ekki séð hvernig það kemur heim og saman, ef ég væri sömu skoðunar og hæstv. ráðherra, hvernig ég gæti haldið áfram setu í ríkisstjórninni.