Ummæli félagsmálaráðherra um EES-samninginn

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 13:50:00 (312)


[13:50]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst að þetta mál snúist kannski ekki eingöngu um framkvæmdarvaldshafann, hæstv. félmrh., ég tel að málið snúist ekki síður um þingmanninn, hv. 1. þm. Norðurl. v. Alþingismaður er bundinn af samvisku sinni einni og samkvæmt þeirri niðurstöðu sem samviska þessa þingmanns komst að er hann þeirrar skoðunar að samningurinn um EES sé enn þá stjórnarskrárbrot. Hann hafi verið það og hann hafi ekki skipt um skoðun. Samviskan segir honum það. Þess vegna tel ég að hv. þm. og hæstv. ráðherra þurfi að taka ákvörðun á þessum grundvelli. Sitji hann hins vegar áfram sem félmrh. hlýtur það að vera til marks um tvennt: Annaðhvort að hann hafi skipt um skoðun í raun og sé þar með ekki lengur þeirrar skoðunar að samningurinn sé stjórnarskrárbrot. Eða hitt, sem er líka möguleiki og hv. þm. geta giskað á hver fyrir sig hvor skýringin er rétt, að hv. þm. og hæstv. ráðherra sé samviskulaus. Báðir möguleikarnir eru til í stöðunni.