Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 14:24:41 (315)


[14:24]
     Jón Baldvin Hannibalsson :
    Herra forseti. Að lokinni stjórnarmyndun lýsti hæstv. forsrh. því yfir að hann ætlaði vorþinginu tíu daga til að afgreiða tvö stórmál. Nú eru liðnir 14 dagar af starfsemi þingsins og það er í dag sem svarið fæst við því hvað dvalið hefur orminn langa í líkingu þessa bandorms sem hæstv. forsrh. var að leggja hér fram. Bandormurinn er um það hvernig við hyggjumst standa við skuldbindingar okkar í framhaldi af aðildinni að viðskiptastofnuninni. Síðan mun væntanlega verða lagt fram í dag málamiðlun stjórnarflokkanna að því er varðar breytingar á fiskveiðistjórnuninni sem lofað var.
    Aðildin að Alþjóðaviðskiptastofnuninni var að sjálfsögðu tímamótamál. Hvað fólst í því? Í því fólst að við skuldbindum okkur með alþjóðasamningi til þess að hverfa af braut ríkjandi landbúnaðarstefnu. Við skuldbindum okkur til þess að aflétta banni af innflutningi á landbúnaðarafurðum, til þess að tryggja á aðlögunartímabili tiltekinn ofurlítinn lágmarksaðgang. Við skuldbindum okkur til þess að halda áfram tollfrjálsum innflutningi á þeim vörum sem ekki höfðu áður verið undir bönnum, þ.e. að halda óbreyttum markaðsaðgangi. Af þessum meginatriðum var síðan ljóst að við þyrftum að breyta í grundvallaratriðum búvörulöggjöfinni til að standast þessar skuldbindingar. Þær lagabreytingar sem hér eru kynntar varða fyrst og fremst tollalög og búvörulög en fleiri lög einnig, innflutningslög þar á meðal, lög um sjúkdómavarnir, heilbrigðismál og að lokum mun málið varða fleiri lög.
    Ég hyggst nú hafa þann háttinn á, af því að mér þótti við það að hlusta á hæstv. forsrh. að það hefði ekki vakað fyrir honum beinlínis að skýra aðalatriði málsins, að halda mig við aðalatriðin sem eru þessi:
    Úr því að við ætlum að aflétta banni á innflutningi og það er heimilt að umreikna þetta bann í tollígildi hvernig er það gert? Skuldbindingin er sú að við lögðum fram tilboð og það var miðað við viðmiðunarverð á árunum 1986--1988. Síðan er liðinn langur tími. Heimsmarkaðsverðið eins og það var árin 1986--1988 var afar lágt einfaldlega vegna þess að niðurgreiðslur og útflutningsbætur voru þá í hámarki erlendis. Þar að auki er ekkert til sem heitir heimsmarkaðsverð, það er algerlega tilbúið verð. Síðan hefur það gerst hér heima að sem betur fer hefur aðeins þokast í þá átt að heildsöluverð innan lands hefur heldur lækkað. Þannig að fyrsta hugmyndin sem var sú að lögbinda tollaheimildir, þessi svokölluðu tollígildi, var náttúrlega öllum sanngjörnum mönnum augljóslega algjörlega fráleit í upphafi. Ég sagði sanngjörnum mönnum því hvað hefði falist í því? Í því hefði það falist að setja inn í tolla prósentur frá 300% upp í 800%, sem gat ekki haft annan tilgang en þann að koma í veg fyrir allan innflutning. Í samanburði við það að rauntollar í íslensku tollskránni eru núna 3,7% að meðaltali og hæsti tollur sem fyrir finnst er 30%.
    Engu að síður er það svo að þetta mál dróst mjög í meðförum síðustu hæstv. ríkisstjórnar m.a. vegna þess að það var uppi ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál. Eftir nokkrar deilur um breytingar á búvörulögum 1993 var ákveðið að setja upp nefnd fimm ráðuneyta til að móta stefnuna í þessu máli. Sjónarmiðin voru þrjú. Sjónarmið Alþfl. í þessu starfi var að við ættum að tryggja í samræmi við skuldbindingar samningsins innlendum framleiðendum fullkomna verðjöfnun milli innflutningsverðs og innanlandsverðs. Síðan töldum við eðlilegt að við það bættist síðan fjarlægðarverndin, þ.e. flutningskostnaður, frakt og tryggingar, sem má meta jafnaðarlega á upp undir 30%. Hefði þá verið fulltryggt að bændur nytu fullkominnar innflutningsverndar og gott betur en hún síðan trappaðist niður á sex ára aðlögunartíma.
    Sjónarmið hæstv. landbrh. og fulltrúa hans, embættismanna hans í þessari nefnd, var þvert á móti að við ættum að lögbinda hámarkstollana, ofurtollana, þ.e. 100%. Sjónarmið fulltrúa fjmrn. var millispil, þ.e. að við færum þá leið sem Alþfl. lagði til, verðjöfnun plús fjarlægðarverndin með 20% álagi. Um þetta var tekist á og sú vinna stóð allan tímann 1993, 1994, til dagsins í dag og í raun og veru var málið lagt í salt fram yfir núverandi stjórnarmyndun. Ein af skuldbindingunum var síðan sú að frá því hvernig við ákvæðum tolla í upphafi skyldu þeir trappast niður að meðaltali um 36% á sex árum.

    Það er athyglisvert að í því frv. sem hér liggur fyrir er þó viðurkennt á bls. 22 að þau áform hæstv. fyrrv. landbrh. Halldórs Blöndals að lögfesta ofurtollana séu fjarstæðukennd vegna þess að þar er útskýrt að þær breytingar sem síðan hafa orðið eru miklar og því var talið eðlilegt eins og þar segir, með leyfi forseta: ,, . . .  að við breytingu innflutningshaftanna í tolla yrði ekki miðað við að fullnýta tollabindingar heldur verði tollar í aðalatriðum miðaðir við endurskoðuð tollígildi er taki mið af verðlagi ársins 1995.`` Gott og vel. Þessi athugasemd gaf nokkrar væntingar hjá almenningi í landinu um að hér ætti að reyna, hér vildu ríkisstjórnarflokkarnir raunverulega sýna sanngirni gagnvart sjónarmiðum hagsmunaaðila beggja, þ.e. annars vegar framleiðenda og vinnslustöðva og hins vegar neytenda. Þarna er sagt að grundvallarreglan skuli vera sú að verðlag á innfluttum afurðum skuli ekki vera nema 30% hærra en innanlandsverð. Þetta hafa margir misskilið og skilið á þann veg að tollarnir eigi ekki að vera nema 30% sem er svona nokkurn veginn hæstu tollar í tollskránni og langur vegur frá áformum fyrrv. hæstv. landbrh. um mörghundruð prósent tolla. Ég hafði jafnvel heyrt menn velta því fyrir sér hvort áhrif Framsfl. á framsóknararm Sjálfstfl. væru svona jákvæð að þeir féllu frá því að fara með þvílíkum hætti offari gegn eðlilegum hagsmunum neytenda. En auðvitað reyndist það ekki vera rétt skýring því það er fátt sem skilur að framsóknararma beggja flokka eins og bert er af frv. þegar það er skoðað og eins og við skulum taka skýr dæmi um.
    Til þess að skýra hvað í þessu felst því að málið virðist vera flókið af öllum þessum töflum og öllum þessum viðaukum ætla ég að taka einfalt dæmi. Ég ætla að taka eitt frægt kjúklingadæmi og bið hv. þm. að fletta upp á viðauka I, bls. 4, á tollnúmerið 0207 Alifuglar. Það liggur vel við vegna þess að vitað er að verðmunur á kjúklingum í nágrannalöndum okkar og á Íslandi er gríðarlega mikill, hann er allt að þrefaldur, fjórfaldur, kannski sexfaldur og þá er ég að tala um smásöluverð. Verðlag á þessari vöru á Íslandi er viðurkennt okurverð. Við skulum taka einfalt dæmi um hvernig þessi löggjöf og hvernig þessir tollar koma út. Innflutningsverð er 150 kr. sem láta mun nærri 1 kg af kjúklingi í heildsölu. Þá ber fyrst að leggja á 30% verðtoll samkvæmt þessu frv. sem fer með verðið upp í 135 kr. Því næst ber að leggja á magntoll, fasta krónutölu sem samkvæmt skránni í þessu tollnúmeri er 603 kr. Þá er verðið komið upp í tæpar 800 kr. Með öðrum orðum að álögðum tollinum er innflutninsverðið 150 kr. komið upp í 800 kr., þ.e. tæplega fimmfalt. Því næst er eftir að bæta við heildsöluálagningu og smásöluálagningu og virðisaukaskatti og þá er verðið á þessu eina kílói af kjúklingi komið upp í 1.365 kr.
    Spurst var fyrir um hvað samsvarandi vara kostaði í Hagkaupum. Hún kostar 667 kr. Þegar menn spyrja hvað er hæsta leyfilegt tollígildi samkvæmt GATT-tilboði Íslands þá mun það vera um 460 kr. Með öðrum orðum. Þetta er einfalt dæmi sem skýrir að flutningsmenn, stjórnarflokkarnir, þorðu ekki að sýna hvað fyrir þeim vekti með ofurtollunum og ákváðu því að fara leið til þess að fela þetta. Þeir eru annars vegar með 30% verðtoll og hins vegar með þennan magntoll, þ.e. samsetta tolla, sem dulbúa ofurtollana. Í þessu dæmi er gengið svo rösklega til verks að það er farið umfram tollabindingar og það er auðvitað farið langt umfram það smásöluverð sem í gildi er nú þegar. Með öðrum orðum mundi framkvæmdin á þessu frv. hækka verðið á umræddri vöru til neytenda verulega. Spurningin er hvort það mundi nokkuð reyna á innflutning. Kannski er það það sem fyrir hv. flm. vakir.
    En þá spyrja menn: Er þetta ekki eitthvað einstakt dæmi? Þá ætla ég að biðja hv. þm. einfaldlega að fletta í gegnum skjalið í góðu tómi og kynna sér þá helstu tollflokka, þ.e. kafla II, kafla IV, kafla VII og kafla XVI um annars vegar unnar kjötvörur, grænmeti og annað þess háttar. Taka nokkrar stikkprufur eins og ég hef reyndar gert og það vill svo til að að því er varðar t.d. innflutning á kjötvörum þá reyndust þær stikkprufur sem ég gerði í öllum tilvikum vera ofurtollar umfram tollabindingar.
    Það sem menn höfðu fyrst og fremst vænst að kæmi út úr þessu var það að neytendur mættu eiga von á innflutningi á grænmeti, kannski unnum mjólkurafurðum og unnum samsettum kjötvörum, þ.e. iðnaðarvörum, matvælum með landbúnaðarinnihaldi, á viðráðanlegu verði það sýnist mér hreinlega vera tekið fyrir.
    Ályktanir mínar af þessu dæmi eru einfaldlega þessar: Það eru maðkar í þessari mysu. Þetta eru dulbúnir yfirtollar og það eru farnar nokkuð langsóttar leiðir til þess að dylja þetta sem mest má verða. Öllum mátti ljóst vera sem til málsins þekkja að hið svokallaða heimsmarkaðsverð er algjörlega tilbúið. Fjarlægðarverndin er falin í tilbúnum magntollum sem eru langt umfram raunverulegan kostnað við innflutning, tryggingar og þess háttar. Það vekur athygli að í frv. eru engin ákvæði um skuldbindinguna um að lækka þessa tolla í áföngum á sex árum. Hins vegar eru að sjálfsögðu ákvæði um það að lækka tollabindingarnar í tilboðinu en ef rauntollarnir eru undir því þá er engin skuldbinding um að lækka þetta. Með öðrum orðum verið er að segja að ofurtollarnir eiga að gilda tímabilið út.
    Hætt er við því að margur maðurinn verði fyrir vonbrigðum. Ég tók eftir því að meira segja formaður Neytendasamtakanna virtist hafa hlaupið á sig, væntanlega að óséðu frv., vegna þess að hann taldi þetta vera áfangasigur. Hann á væntanlega eftir að skoða þetta frv. betur.
    Hvað þá með lágmarksaðganginn? Þessi 3% af markaðshlutdeildinni? Er ekki einhver sanngirni í því? Það á að vera þannig að heimilt er að flytja þetta inn. Hver er tilgangurinn? Tilgangurinn á að vera sá að tryggja neytendum einhvern smjörþef af viðráðanlegri verðmyndun en ekki síst að í upphafi tímabilsins þótt þetta hafi lítil áhrif að örva aðeins til samkeppni. Með öðrum orðum að aðlögunarferlið geti farið af stað. Bandaríkin og Kanada virða þetta og hafa lága tolla, svona innan við 10%. Við förum í hámarkið 32% af hámarkstollabindingum. Það getur þýtt það, og nú tala ég einfaldlega út frá þeim dæmum sem ég hef sjálfur tekið, að jafnvel verðið á þessum lágmarksinnflutningi fari umfram verðið í Hagkaupum núna. Í einu tilviki 13%, í öðru tilviki 35%. Hvert meðaltalið er þori ég ekki að fullyrða, málið verður væntanlega skoðað betur í nefnd.
    Þegar lágmarksinnflutningur er leyfður á eitthvað lægri tollum felst í því að verið er að úthluta kvótum. Það er auðvitað hið versta mál að taka upp skömmtunarkerfi í þessu efni --- en hvernig á að gera það? Jú, landbrh. á að úthluta þessum kvótum. Hann getur út af fyrir sig gert það að geðþótta. Það er auðvitað pólitískt spillingarkerfi í sjálfu sér. Að sjálfsögðu hefði hið skynsamlega verið að leita tilboða og taka lægsta tilboðinu til þess þó að reyna að skila verðávinningi ef einhver væri til neytenda. En það er ekki meiningin.
    Þá kemur að ríkjandi markaðsaðgangi. Á mannamáli þýðir það einfaldlega að það sem var frjálst að flytja inn áður eða ekki bannað á að vera á óbreyttum kjörum í innflutningi. Nei, nei. Hér er gripið til þess ráðs að reikna tollígildi fyrir þennan innflutning eins og hann hefði verið bannaður með þeim falsrökum að hann hefði að minnsta kosti verið leyfisbundinn. Hann var heimill og var þess vegna frjáls. Þetta er hvort tveggja á skjön við hæstaréttardóm sem kveðinn var upp fyrir ekki löngu þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að allar heimildir skorti fyrir innflutningsbanni í búvörulögunum og þótti hæstv. þáv. landbrh. illt við að búa. Síðan skuldbindur GATT- samningurinn sjálfur okkur til þess að breyta ekki markaðskjörum varðandi óbreyttan markaðsinnflutning. Þetta er brot á GATT-samningnum.
    Hvað gera aðrar þjóðir? Hæstv. forsrh. vék að því hvað Norðmenn gerðu. Norðmenn eru einhver versta verndarstefnuþjóð í heimi í landbúnaði samanber það að stuðningur þeirra við landbúnað í heild, hann er númer tvö í heiminum, við erum sennilega númer þrjú eða fjögur núna, Sviss, Noregur, Japan, Ísland á svipuðu róli með 70% af heildarframleiðsluverðmæti í landbúnaði sem kemur frá ríkinu. Norðmenn ganga þó ekki svona langt. Bæði eru tollígildi þeirra talsvert lægri en okkar. Í annan stað þá ákveða þeir að niðurtröppunin sem átti að taka sex ár skyldi taka gildi strax. Sýna þó aðeins viðleitni. Lítum á þjóðir sem fara að siðaðra manna hætti í þessu, t.d. Evrópusambandið sem kallar þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Þá tekur það einfaldlega innflutningsverðið plús 20% álag. Í samanburði við það sem við gerum, við tökum fulla verðjöfnun, við setjum 30% verðtoll, við setjum á mjög háan rauntoll í fastri krónutölu og förum upp fyrir tollabindingu.
    Ástæða er til að spyrja að einu. Er þetta gert til þess að vernda raunverulega hagsmuni bænda? Er þetta togstreita sem snýst um það að hérna séu þeir menn, vinir bænda, sem vilja tryggja sanngjarna og eðlilega hagsmuni þeirra og þetta sé nauðsynlegt að gera til þess að tryggja hag bænda? Því getur hver svarað fyrir sig. Halda menn virkilega eins og ástatt er í íslenskum landbúnaði að það sé framtíðartrygging eða í þágu íslensks landbúnaðar að reyra hann inn í svona kerfi og framlengja tollverndina algjörlega og gera það með þessum hætti? Var það einhver frágangssök að tryggja bændum fulla tollvernd, sem þeir áttu samningsbundinn rétt á, og svona 30% betur á aðlögunartíma en taka þó örlítið tillit til neytenda? Svarið við þessu er einfaldlega að sá sem hefur einhvern skilning á því að það sem þarf að gerast í íslenskum landbúnaði og íslenskum matvælaiðnaði er að byrja að stíga fyrstu skrefin í átt til afnáms einokunar og opna fyrir örlitla samkeppni til þess að stuðla að lækkun vöruverðs og lækkun kostnaðar. Auðvitað hefðu þeir sem hafa slíkan skilning og hugsa þannig um efnahags- og atvinnumál farið þessa leið. Leið A, þá leið sem Alþfl. lagði til. Jafnvel hugsanlega fallist á einhverja málamiðlun í átt við það sem hæstv. fyrrv. fjmrh. Friðrik Sophusson lagði til þótt hún hafi verið óþörf. En þessi leið staðfestir bara eitt. Hún staðfestir enn einu sinni að hér er engin sanngirni í boði. Hér er farið offari í að fylgja fram ímynduðum hagsmunum landbúnaðarkerfisins sem hv. þm., fyrrum formaður landbn., er holdi gerður fulltrúi fyrir. Og það eru algjörlega sniðgengnir eðlilegir og réttmætir hagsmunir neytenda. Það er meira að segja í smáatriðunum sem tilgangurinn og andinn er ljós. GATT-skuldbinding kveður á um að við höfðum undanþágu frá frjálsum innflutningi sem varðar dýrasjúkdóma eða smithættu. Það er hins vegar sú breyting á að það ber að gera það þannig að á grundvelli rannsókna og vísindalegra sannana verðum við að sanna málið. Nei, hérna er sagt að það sé bannað og undanþágan er bundin því að það sé síðan afsannað.
    Í fyrri deilum um þessi mál var það gert í nafni sanngirninnar að sett var upp ráðgjafarnefnd. Þá varðaði það verðjöfnunargjöld samkvæmt EES-samningnum og slíkra samninga. Sett var upp ráðgjafarnefnd þriggja ráðuneyta þannig að ef upp kæmu álitamál eða ágreiningsmál mætti vísa til ríkisstjórnarinnar. Það er fellt niður þannig að þessi veika trygging sem neytendur hefðu þó kannski haft ef einhverjir fulltrúar þeirra hefðu verið í ríkisstjórninni er farin. Að sjálfsögðu er síðan hamrað á því hér og það innsiglað að fúskað er með verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Undir hvern heyra tollalög? Hæstv. fjmrh. Tollalög eiga að heyra undir hann. (Gripið fram í.) Nei, nei. En tollar í þessu tilviki varðandi þennan viðamikla lagabálk fara til Framsfl., hins eiginlega landbrh. Úthlutun á kvótum sem á auðvitað að heyra undir viðskrn. samkvæmt reglugerð um Stjórnarráðið fer til landbrn. þannig að flest er á sömu bókina lært.
    Eitt er athyglisvert, sérstaklega fyrir fyrrum formann landbrn. og honum til lærdóms. Tekið er skilmerkilega fram á bls. 18 í greinargerð með frv. að bannað sé samkvæmt GATT að leggja á breytileg verðjöfnunargjöld en eins og kunnugt er stóð deila í heilan vetur vegna þess að hv. þm. vildi troða því ranga kerfi inn í löggjöf þannig að það yrði bindandi fyrir framkvæmd GATT-samningsins. Það er þó alla vega undirstrikað hér að slíkt hefði verið algert brot á GATT-skuldbindingum, svona fótnóta við þær deilur.

    Hvaða pólitískar ályktanir er hægt að draga af þessu? Fyrir kosningar voru þessi mál til umræðu og sett á oddinn af okkur alþýðuflokksmönnum. Við vöruðum við afleiðingum þess ef niðurstaðan yrði sú að farin yrði ofurtollaleiðin. Við birtum almenningi margar upplýsingar um það hver verðmunur væri á lífsnauðsynjum, landbúnaðarafurðum milli Íslands og annarra landa, studdumst þar bæði við heimildir frá hagfræðideild Háskólans, frá Samkeppnisstofnun og utanrrn. Neytendasamtökin birtu slíkar upplýsingar og þeim bar í stórum dráttum saman. Við vöruðum við því að tekið væri einhliða tillit til sjónarmiða framleiðenda og milliliða og töldum einsýnt að kjósendur ættu að hafa í huga að þeir yrðu að sjá til þess að sjónarmið neytenda hefðu þarna sanngjörn áhrif.
    Nú spyr ég þegar staðreyndirnar liggja á borðinu: Hver er afstaða Alþýðusambands Íslands í þessu máli? Hver er afstaða Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í þessu máli? Hver verður afstaða Neytendasamtakanna í þessu máli? Hver verður afstaða Þjóðvaka, Alþb., Kvennalista? Hver verður afstaða fulltrúa þingmanna Sjálfstfl. sem kosnir voru af frjálslyndum og umbótasinnuðum kjósendum þeirra, sem reyndar tryggðu Sjálfstfl. tvo þriðju hluta eða rúmlega það af atkvæðamagninu í Reykjavík og Reykjanesi? Ætla þeir rétt einu sinni enn að láta framsóknararmana í flokkum sínum svínbeygja sig til þess að gleypa þessa köku? Það verður merkilegt próf og mjög upplýsandi fyrir alla kjósendur í landinu.
    Pólitískt séð er þetta mál í því samhengi að víðtæk samstaða er um það á Íslandi, ekki síst eftir þann árangur sem fyrrv. hæstv. ríkisstjórn náði almennt í efnahagsmálum að mikilvægt sé að varðveita verðstöðugleikann á Íslandi. Jafnframt erum við sammála um að við höfum orðið fyrir miklum þrengingum. Kaupmáttur hefur versnað og nauðsynlegt er að tryggja kjarabætur án þess að fara út í kollsteypuleiðir. Ég spyr: Hvaða leið er betur fær til þess að taka sanngjarnt tillit til neytenda og almennings, launþega í landinu, en að tryggja þeim lækkandi verð á lífsnauðsynjum, á matvælum, ef unnt er? GATT-samningurinn var kjörið tækifæri til þess að byrja að feta sig inn á þá leið. Ég hef aldrei fullyrt að það væri hægt að tryggja það í upphafi. Ég segi: Okkar eigin tilögur hefðu falið í sér a.m.k. 30% tollvernd umfram innanlandsverð. En við hefðum getað valið leið sem tryggði a.m.k. að við færum fyrstu skrefin í þessa réttu átt. En því miður. Það er ekki svo.
    Nú er þetta mál í höndum þeirra fulltrúa meiri hluta Íslendinga sem eru kosnir á Alþingi til að gæta almannahagsmuna en ganga ekki erinda sérhagsmuna. Það verður fylgst vandlega með því hverjir standa uppi í því prófi og hvernig menn standa sig á því prófi.
    Setjum þetta síðan aðeins í samhengi við landbúnaðarstefnuna. Þingmenn af landsbyggðinni, þingmenn bænda vita vel að hagur bænda hefur farið versnandi. Hlutur landbúnaðar í þjóðarframleiðslunni hefur farið minnkandi, hann er kominn niður í 2,8% af vergri landsframleiðslu. Vinnuaflsnotkun í landinu hefur farið minnkandi. Það hefur fækkað um 4.000 störf í óbreyttu kerfi frá árinu 1980. Tekjur bænda hafa lækkað meira en nemur tekjusamdrættinum í landinu, sauðfjárbænda sérstaklega. Ríkisútgjöld til landbúnaðarins hafa sem betur fer aðeins lækkað, en ég verð að segja af því að það er staðreynd að það er aðallega fyrir tilverknað ekki síðustu ríkisstjórnar heldur þeirrar þar á undan fyrir þann búvörusamning sem ég og minn flokkur beittum okkur gegn. Gallinn á búvörusamningnum var að hann festi í sessi þetta einokunarkerfi sem hefur haldið áfram að skerða framleiðslumöguleika og lífsbjargarmöguleika bændastéttarinnar í heild.
    Þversögnin í núverandi landbúnaðarkerfi er þessi: Ríkið greiðir milli 5--6 milljarða kr. í beingreiðslur, framleiðslutengdar til bænda. Þessar beingreiðslur eru auðvitað framleiðsluhvetjandi. Það er verið að segja við bændur: Hérna fáið þið frá skattgreiðendum 5--6 milljarða til þess að þið framleiðið svolítið meira, því að verðið yrði hærra, framleiðslan yrði ella minni. Síðan kemur þetta sama ríkisvald bænda og segir: Nei, framleiðið þið minna og sett er upp greiðslumark, framleiðslustýring og kvóti, með þeim afleiðingum að það sem er að gerast í íslenskum landbúnaði er þetta: Bændur, sem sitja gróin bú með afskrifaðar fjárfestingar og gætu aukið framleiðslu sína og náð niður kostnaði, mega það ekki. Aðferðin sem beitt er er flatur niðurskurður sem þýðir það að framleiðnin fer minnkandi, tilkostnaðurinn vaxandi. Þetta er með öðrum orðum efnahagsstjórn sem er sovésk og búið að fullreyna þar á bæ í 70 ár og endaði þar með ósköpum og er að enda hér með ósköpum. Ekki þarf að taka fram að þeir sem bera ábyrgð á þessu ástandi, þessu kerfi, þessu dapurlega ástandi og þessu árangursleysi eru ekki stimplaðir óvinir bænda, alþýðuflokksmenn, þeir hafa aldrei stýrt þessum málaflokki. Nei, það eru einkavinir þeirra, fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl.
    Í kosningabaráttunni lögðum við alþýðuflokksmenn það til að í framhaldi af GATT yrði tækifærið notað og kvótakerfið afnumið. Beingreiðslur til bænda yrðu ekki lengur framleiðslutengdar heldur yrðu það grænar greiðslur í anda GATT. Hugsunin var að tryggja þeim afkomutryggingu. Bæði er það hugsunin um aðlögunartíma fyrir þá bændur sem þrátt fyrir allt kysu að bregða búi en vildu gera það a.m.k. með reisn og ganga ekki slyppir og snauðir frá eignum sínum. En hinir frjálsu framleiðendur gætu þá nýtt tækifærið til þess að stækka bú sín, ná niður framleiðslukostnaðinum. Jafnframt þyrfti að gera samvarandi breytingar á vinnslukerfinu því þetta hefur allt saman verið einokunarkerfi án kostnaðaraðhalds, án samkeppni. Niðurstaðan er sú að neytendur búa við eitthvert hæsta neysluvöruverð í heimi þrátt fyrir að bændur sjálfir eru með rýrnandi tekjur og versnandi afkomu og versti þriðjungurinn hörmungarafkomu undir fátæktarmörkum, hv. þm. Egill Jónsson, talsmaður þessa kerfis. GATT-samningurinn var þess vegna tækifæri til þess að byrja að feta okkur út úr vítahringnum.

    Ég beitti mér fyrir því við skoðun á þessum málum meðan ég var utanrrh. að gerð var hagfræðileg úttekt á því hvað það mundi þýða, hvaða áhrif mundi það hafa ef við færum þessa leið: Ef við afnæmum kvótakerfið, aftengdum beingreiðslurnar og litum síðan á hvaða áhrif þetta hefði á framleiðni í landbúnaði, samkeppnisstöðu landbúnaðarins að nokkrum árum liðnum, eftirspurnaráhrif þar af leiðandi eftir íslenskum afurðum þar sem eftirspurnin eftir sauðfjárafurðum er t.d. síhrapandi, hún hrapar vegna þess að verðið stenst ekki samanburð.
    Því næst var athugað hvaða áhrif þetta hefði á verð til neytenda, hvaða áhrif þetta hefði á ríkisútgjöld og hvaða áhrif þetta hefði á tekjur bænda. Það sem er athyglisverðast í þessu samhengi er að þessar lausnir, sem eru frambúðarlausnir byggðar á einhverri hugsun, einhverri framtíðarsýn í þessari mikilvægu atvinnugrein, leiddu til þess að rökstudd ástæða er til þess að ætla að afkoma bænda, bæði í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu, mundi batna við þessar breytingar og batna umtalsvert. Það styðst við þau rök að menn mættu þá framleiða meira, þeir væru ekki undir kvótastýringu, þeir gætu lækkað tilkostnað og þeir gætu í gegnum milliliðakerfi sitt stuðlað að sams konar breytingum þar. Örvun til þessarar samkeppni með örlitlum innflutningi í anda GATT hefði sett þennan feril af stað. Að sex árum liðnum hefði íslenskur landbúnaður verið í miklu betri sporum. Á því er ekki nokkur vafi.
    Virðulegi forseti. Þegar menn ræða með þessum hætti um vanda landbúnaðarins og tillögur til breytinga rennur hjörð framsóknarmanna beggja stjórnarflokkanna ævinlega í eina rétt. Og það eru ævinlega sömu rökin og sömu staðhæfingarnar sem eru endurteknar jafnt og þétt og þær eru þessar: Veit maðurinn ekki að landbúnaðurinn skapar störf í iðnaði? Veit maðurinn ekki að við búum við atvinnuleysi? Hefur maðurinn kannski engar áhyggjur af því að ef bændum fækkar yki það atvinnuleysið? Svar mitt er þetta: Sáuð þið sjónvarpsþátt í gær þar sem fulltrúi frá Nýfundnalandi var að ræða við fulltrúa í íslenskum sjávarútvegi, þar á meðal hv. þm. Einar K. Guðfinnsson frá Bolungarvík, og spurði: Hvað getum við lært af Íslendingum og íslenskum sjávarútvegi þar sem á Nýfundnalandi sitja tugir þúsunda manna við atvinnuleysi í óbreyttu kerfi, vonlausu kerfi, glötuðu kerfi og bíða? Það er landbúnaðarkerfið. Á því var gerður samanburður. Vita menn það að 4.000 störf hafa glatast í þessu óbreytta kerfi frá árinu 1980 og munu halda áfram að glatast í þessu óbreytta kerfi vegna þess að engin von er til þess að sá þriðjungur sauðfjárbænda svo að ég nefni dæmi --- það er varleg áætlun sem er undir hungurmörkum --- geti haldið þessu áfram jafnvel þótt hann hafi 30% tekjuauka af öðrum störfum? Það verður að breyta hér til. Lítið á skýrsluna sem kom út frá OECD í dag sem kemst að þessari niðurstöðu. Núverandi kerfi er vonlaust, það er komið á endapunkt, það gengur ekki. Það verður að afnema kvótakerfið, segja þeir eins og við og það er skynsamlegt að breyta framleiðslustýrðum beingreiðslum í grænar greiðslur, a.m.k. á sex ára aðlögunartímabili. Sama niðurstaðan.
    Virðulegi forseti. Ég hef haldið mig við aðalatriðin, reynt að skýra hvað felst í þessu, hvað það er sem stjórnarflokkarnir eru að gera, hvernig þeir eru að telja almenningi í landinu trú um að þeir séu að gera eitthvað allt annað. Ég hef fært rök fyrir því að engin hugsun er í þessu til frambúðar. Þetta mun ekki verða bændum að neinu haldi vegna þess að þetta mun innsigla óbreytt ástand og óbreytt ástand fyrir íslenska bændastétt er vonlaust ástand. Það er forakt í þessu máli gagnvart sjálfsögðum, eðlilegum og réttmætum hagsmunum launþega í landinu.
    GATT-samningurinn er tímamótasamningur og okkur Íslendingum væri nær að setja það í samhengi. Hver er ávinningur sem við höfum af honum þegar við horfum til útflutningsmarkaðar okkar? Hvað höfum við fengið á Bandaríkjamarkaði, Asíumörkuðum í gegnum GATT-samninginn? GATT-samningurinn er nauðvörn smáríkja sem byggja afkomu sína á milliríkjaverslun. En hvernig haldið þið að við munum bregðast við ef viðskiptalönd okkar settu á okkur reglur eins og þær sem við erum að bjóða þeim? Hvar er komin von landbúnaðarins um útflutning á vistvænum afurðum íslensks landbúnaðar ef viðskiptaþjóðir okkar beittu okkur sömu þröngsýninni, sömu afturhaldsseminni, sömu verndarstefnunni og við bjóðum þeim?
    Virðulegi forseti. Ég vona satt að segja að þegar málið kemur til hv. efh.- og viðskn. verði lögð mikil vinna í að upplýsa um það sem á vantar því vinnubrögðin við þetta frv. eru heldur ekki góð. Auðvitað áttu að fylgja því klár og kvitt dæmi um það hvernig þessum magntollum er beitt og dæmi um helstu afurðir, hvort það er rétt eða ekki rétt að þær fari upp fyrir tollabindindingar og hver verðlagsáhrifin eru í samanburði við smásöluverð í gildandi innflutningi. Það hefðu auðvitað verið sjálfsögð vinnubrögð í máli sem búið er að vera mörg ár í vinnslu. Það er ekki góð umsögn um þá sem að þessu hafa unnið að þeir skyldu ekki hafa gert það. En ég ætlast til þess að nefndin láti vinna starf sitt, hún fari rækilega ofan í saumana á málinu, almenningur verði rækilega upplýstur um hvað er rétt og hvað er rangt í málinu, hverjar eru staðreyndirnar vegna þess að þetta varðar ekki bara hagsmuni bænda sem er þó mikilvægt mál eins og fyrir þeim er komið, heldur hagsmuni allra neytenda og þar með allrar þjóðarinnar.