Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:02:41 (317)

[15:02]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi ræða hæstv. forsrh. var þrátt fyrir allt mun skýrari en framsöguræðan. Hann vék að fjórum atriðum: Í fyrsta lagi því að ef tollar, t.d. magntollar, fara umfram bindingar þá eigi bindingar að víkja. Það er rétt. Og spurningin er þess vegna einfaldlega sú: ( Forsrh.: Nei, það er öfugt.) Nei, hvor sem hærri er ef tollskráin þýðir það að farið er umfram bindingarnar, það má ekki fara umfram bindingarnar. ( Forsrh.: Þú sagðir það ekki.) Jú, jú, það er það sem ég er að segja. ( Forsrh.: Þú segir það núna.) Þetta liggur fyrir og hefur löngum legið fyrir og er alveg ljóst. En það er ósvarað einni spurningu: Hvers vegna er verið að stilla upp í frv. tollskrá með samsettum tollum, verðtolli og magntolli, þar sem það gerist? Til hvers?
    Í annan stað að því er varðar úthlutun á kvótum og hlutkesti ef fleiri sækja um en fá að því er varðar lágmarksmarkaðsaðgang. Við erum hér að tala um tvennt, lágmarksmarkaðsaðgang og óbreyttan markaðsaðgang. Úthlutunarvaldið er hjá landbrh. Það er rétt að það á að beita hlutkesti en það er ekki skynsamleg aðferð og ég gagnrýni hana vegna þess að skynsamlegri aðferð hefði verið sú að leita eftir því, ef það er verið að úthluta kvótum til innflytjenda hverjir koma með hagstæðast innkaupsverð og úthluta á þeim grundvelli samkvæmt útboðsreglum. Ef allt væri með felldu ættu neytendur að njóta ávinnings af hagstæðum innkaupum.
    Að því er varðar Evrópusambandið þá duga ekki skýringar hæstv. forsrh. vegna þess að samanburðurinn á því sem þeir gera og því sem við gerum er allur annar en hann sagði vegna þess að það er reginmunur á því hvernig þeir meta raunverulegt innflutningsverð og bæta við 20% álagi og aðferð okkar sem er ímyndað heimsmarkaðsverð, 30% verðtollur og hinn umræddi magntollur sem er felutollurinn í okkar máli. Ef menn bæru saman niðurstöðurnar þá sæju þeir það svart á hvítu hvílíkur reginmunur er á þessu.
    Að því er varðar forræði mála þá er einfalt mál að svara því. Það er alveg laukrétt að það var tilvinnandi af okkar hálfu í stjórnarsamstarfinu til að fá fram stofnaðild okkar að GATT að samþykkja það með fyrirvara um að við hefðum ráðgjafarnefnd í málinu. Hún hefur hins vegar verið svipt áhrifum. Hún átti þó að vera eins konar nauðvörn neytenda.