Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:05:13 (318)

[15:05]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan að varðandi lágmarksaðganginn hefði hæstv. landbrh. geðþóttavald, með öðrum orðum spilling eins og hv. þm. sagði. Ég held að hann hafi viðurkennt með þögn sinni að þetta var rangt hjá honum, hann hafi lesið skakkt. Því að varðandi lágmarksaðganginn þá fá allir sem sækja um. Ef menn sækja um of mikið magn eða fleiri en prósentin segja fyrir um þá gildir hlutkesti þannig að hæstv. landbrh. hefur ekkert með það mál að gera. Það er ekkert val sem hann hefur í þeim efnum. Þarna var hv. þm. að gefa í skyn hluti sem alls ekki fá staðist.
    Hann hrósaði líka Noregi þrátt fyrir að hann segði að Noregur væri eitthvert versta verðjöfnunarland sem til þekktist en þeir sæju þó sóma í því að fara í tollabindingarnar og lækka þær, þ.e. gefa lækkunina strax. Sú lækkun nær nánast hvergi niður í það þar sem við byrjum. Það virðist líka hafa farið fram hjá hv. þm.
    Við hljótum því að ætlast til þess að þegar hv. þm. finnur að því að ekki sé gerð nægjanlega og skýr grein fyrir málinu og hann ætli að skýra málið þá hafi hann kynnt sér það að lágmarki til og komi

ekki með sleggjudóma af því tagi sem hann leyfði sér að gera hér.
    Við gáfum sjálfir, ríkisstjórnin sem þá var, þetta tilboð um þessa ofurtolla, þessa tollabindingu. Það var okkar eigin tilboð sem var samþykkt. Til hvers var það gert? Til að tryggja okkar samningsstöðu út á við eins og aðrar þjóðir hafa gert. Ætlast menn til þess að Ísland eitt landa komi þannig fram við sinn landbúnað að hann ráði ekki við þessa breytingu? Það ætlar ekkert annað land að gera. Og þegar hv. þm. sagði: Hvað gera aðrar þjóðir ef við ætlum að bjóða þeim þess háttar reglur? Þetta eru sambærilegar reglur og Evrópusambandið ætlar að bjóða, Evrópusambandið sem hv. þm. hefur gríðarlegt álit á. Ég ætla að gleðja hv. þm. með því að það kom fram í skýrslum frá sendiráði okkar í Svíþjóð um áhrif aðildarinnar að Evrópusambandinu að fyrstu áhrifin voru þau að það er búið að fjölga starfsmönnum landbrn. í Stokkhólmi um 100. Það eru nú aldeilis fréttir fyrir hv. þm. að heyra það.