Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:44:22 (322)


[15:44]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka þessi svör. Ég tók einmitt eftir því að það var misræmi milli þess sem upplýst var af sérfræðingum í okkar þingflokki í morgun og því sem hæstv. forsrh. tekur hér fram og hæstv. forsrh. og hans skilningur ráða sem eðlilegt er. Það er upplýst að þessir 32% tollar muni ekki lækka. Ég skil það þá svo að sú tala standi óbreytt frá upphafsverðinu og upphafspunktinum. Þá verð ég að sjálfsögðu líka að draga til baka það sem ég sagði að verð þessa lágmarksmarkaðsaðgangs mundi sjálfkrafa af þessum sökum fara lækkandi. Það gæti þess vegna orðið óbreytt út samningstímann og þá er það upplýst og skýrt.
    Varðandi hitt atriðið þá er það hárrétt að ef til að mynda verðþróun yrði sú að verðbólga yrði meiri í okkar viðskiptalöndum að þessu leyti til en hér á Íslandi þá mundi tollverndin sem fólgin væri í magntollinum fara vaxandi. Ef hún verður sú sama þá verður þetta óbreytt og ef verðbólgan í viðskiptalöndunum verður minni þá fer aftur tollverndin lækkandi. Það er niðurstaðan að þessu sé ekki hægt að breyta nema með sjálfstæðri lagabreytingu hverju sinni. Ef þarna skapast misræmi verður að leiðrétta það með lögum og þá er það niðurstaða sem menn standa frammi fyrir.