Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:45:54 (323)


[15:45]
     Ágúst Einarsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég vildi biðja hæstv. forseta um að upplýsa um venjur við svona umræðu. Hér er verið að fjalla um mál sem kynnt var af hálfu ríkisstjórnarinnar sem eitt aðalmál þingsins. Ég sé í fundarsal afskaplega fáa þingmenn og vek athygli á því að hér er verið að fjalla um verulegar breytingar á tollalöggjöf og fjmrh. er ekki hér til að hlusta á það. Má vera að hann hafi fjarvistarleyfi, ég greip það ekki í byrjun fundar. Ég sé ekki formann landbn., ég sé engan flokksmann hæstv. landbrh. Ég veit vel að það er engin mætingarskylda hér á fundum en ég bendi á að hér eru mættir tveir þingflokkar bæði Kvennalista og Þjóðvaka. Ég minni líka á það að þingflokkur Alþfl. óskaði eftir sérstökum ítarlegum tíma í þetta mál og lagði áherslu á mikilvægi þessarar umfjöllunar. Ég vildi gjarnan að hæstv. forseti upplýsti okkur, a.m.k. þá sem um langt skeið hafa ekki setið hér á fundum, hvort þetta sé sú umgjörð bæði af hálfu ríkisstjórnar og annarra sem við megum búast við þegar við erum að fjalla um mjög svo mikilvæg mál eins og þau voru kynnt.