Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:48:10 (325)


[15:48]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umræðu um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sem felur í sér breytingar á löggjöf um innflutning og vöruviðskipti í framhaldi af aðild okkar að GATT, mun hafa veruleg áhrif á íslenskan landbúnað og kjör og hagi bænda og neytenda. Þess vegna er mjög mikilvægt að vel sé til þess vandað og að Alþingi Íslendinga taki sér þann tíma sem þarf til að fara yfir frv. og áhrif þess á ýmsa þætti, ekki bara hag bænda og neytenda heldur einnig á afkomu ríkissjóðs og efnahagsmálin í heild.
    Það er mjög mikilvægt, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að landbúnaðinum verði gefið svigrúm til þess að aðlaga sig þessum breytingum og hér þarf auðvitað að fara hinn gullna meðalveg þannig að ávinningurinn af GATT-samningnum skili sér bæði til neytenda og bænda og þjóðarinnar sem heildar. En ég verð að segja að ég hef ákveðnar efasemdir í þessu máli um það að þær aðferðir sem hér eru lagðar til varðandi beitingu tollígildanna skili sér til neytenda.
    Það er vissulega ekki einfalt að sjá af lestri frv. hvaða áhrif það hefur á þessa þætti og það er nauðsynlegt að fá fram nánari útreikning og mat ýmissa aðila á mikilvæga þætti þessa máls. Tek ég undir það sem fram hefur komið að þetta hefði mátt vera skýrara í því frv. sem hér er til umræðu vegna þess að það er vissulega rétt að hér er um flókið og margslungið mál að ræða. Ég nefndi að það væri nauðsynlegt að fá fram ýmsa útreikninga á áhrifum þessara breytinga og þá miða ég við það hvaða áhrif það hefur ef um raunverulega samkeppni verður að ræða og ef um raunverulegan innflutning verður að ræða að því marki sem heimilað er en þar hef ég ákveðnar efasemdir uppi.
    Ég hef undir höndum skýrslu sem unnin var fyrir utanrrn. um íslenskan landbúnað og GATT frá mars 1995. Þar er reynt að meta nokkra þætti þessa máls og hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á íslenskan landbúnað til lengri og skemmri tíma litið. Í skýrslunni kemur m.a. fram að á sl. 14 árum hefur vinnuaflsnotkun í landbúnaði minnkað um sem svarar 4 þús. ársverkum og tekjur bænda hafa dregist umtalsvert saman ekki síst sauðfjárbænda, en nýjustu útreikningar sýna að margir bændur búa við mjög kröpp kjör og hafa sér til framfærslu varla meira en sem nemur hálfum atvinnuleysisbótum. Við hljótum því að spyrja líka í framhaldi af þeim breytingum sem verða með samþykkt frv. hver áhrifin verða á vinnuaflsnotkun í landbúnaði með þeirri breytingu sem við erum að innleiða hér og hvort landbúnaðurinn sé í stakk búinn til þess að mæta þeirri samkeppni sem innflutningur á landbúnaðarvörum kallar á. Síðan hljótum við einnig að spyrja hver verði aðstaða þeirra bænda og fjölskyldna þeirra sem neyðast til að hætta búskap í kjölfar aukins innflutnings.
    Síðan er það ávinningurinn fyrir neytendur. Hver verður hann? Það er mikilvæg spurning einnig sem við þurfum að kryfja til mergjar áður en frv. verður afgreitt frá þinginu. Það er áætlað að landbúnaðarvörur séu hér á 20--35% hærra verði en að meðaltali í OECD-löndunum og 15--25% dýrari en að meðaltali í ESB-löndunum. Í þeirri skýrslu sem utanrrn. hefur látið gera er mjög dreginn í efa ávinningur fyrir neytendur, en þar segir m.a. að vörur sem fluttar eru inn í landið á 32% af hámarkstollum GATT-samningsins séu dýrari en landbúnaðarvörur hér heima. Það þýðir að verðlag á þessum vörum mun ekkert lækka fyrir tilstuðlan samningsins. Mér finnst athyglisvert sem fram kemur í þessari skýrslu að því er haldið fram að vörur sem fluttar séu inn í landið á 32% hámarkstollum GATT-samningsins séu dýrari en landbúnaðarvörur hér heima, þýðir að verðlag á þessum vörum muni ekkert lækka fyrir tilstuðlan samningsins.
    Ég tel mjög brýnt að það sé skoðað hvort allt sé sem sýnist í þessu máli þegar því er haldið fram að ekki sé verið að leggja á neina ofurtolla, eins og sumir hafa kallað það, heldur eigi einungis að miða við að innflutningsvaran verði 30% dýrari en sú íslenska. Og maður spyr: Er ekki það rétta í málinu að við séum í raun og sanni að verðleggja vöruna út af markaðnum þegar málið er krufið til mergjar?
    Samkvæmt útreikningum sem fyrir liggja frá Neytendasamtökunum má nefna dæmi sem sýna fram á að innflutningur verður varla fýsilegur á ýmsum landbúnaðarvörum. Það kemur fram í útreikningum sem Neytendasamtökin hafa sett fram að t.d. er verð á innlendu smjöri 265 kr. en lágmarkstollur á heildsöluverði 673 kr. Ef um innflutning á þessu smjöri væri að ræða þá værum við að tala um 240% álagningu en ekki 30% álagningu ofan á innlent verð eins og haldið er að neytendum. Fleiri dæmi mætti nefna í þessum útreikningum Neytendasamtakanna og maður spyr hversu raunhæft það er sem hér er verið að setja fram.
    Það sem máli skiptir hér er það sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, við hvað er verið að miða? Er verið að miða við þetta svokallaða heimsmarkaðsverð sem hv. síðasti ræðumaður kallaði bjagað heimsmarkaðsverð, eða er hér verið að miða við heildsöluverð? Ef verið er að miða við heimsmarkaðsverð þá spyr maður hversu raunhæft það sé. Er það ekki raunhæft að innflutningur á flestum af þessum vörum verði ekki til staðar á heimsmarkaðsverði? Það finnst mér vera nokkur lykilspurning í þessu máli þegar við erum að meta hvað þetta skilar neytendum. Ef við tökum t.d. eina tegund matvöru eins og jógúrt þá var þegar við gerðum okkar tilboð á heimsmarkaðsverði miðað við 7 kr. Telur nokkur að við fáum innflutt jógúrt á því verði? Ég hygg að það sé miklu raunhæfara að miða við heildsöluverð eins og hér hefur verið gert af hálfu Neytendasamtakanna til þess að sýna okkur ávinninginn fyrir neytendur. Það væri fróðlegt að fá það t.d. fram hjá hæstv. fjmrh. og ég spyr hæstv. forseta hvort hann sé ekki til staðar til að hlýða á þessa umræðu.
    ( Forseti (ÓE) : Hæstv. fjmrh. þurfti að víkja frá en kemur aftur.)
    Þá væri ágætt að hæstv. forsrh., sem mælir fyrir þessu máli, sé til staðar til þess að svara spurningum sem fram eru bornar í þessu mikilvæga máli.
    ( Forseti (ÓE) : Hæstv. forsrh. er í húsinu. Forseti gerir ráðstafanir til að hann komi í salinn.)
    Því sem ég hef hug á að spyrja getur hæstv. landbrh. kannski svarað. Ég hef dregið í efa að um nokkurn ávinning sé að ræða fyrir neytendur miðað við þá viðmiðun sem hér er notuð en hvað áætlar landbrh. eða fjmrh. að þessir tollar á innflutningi skili í ríkissjóð í tekjum? Um hvaða upphæð er þar að ræða? Ef þeir búast við einhverjum innflutningi hvað er það mikill innflutningur sem þeir búast við miðað við þau tollígildi sem hér er beitt?
    Mér býður í grun að það verði ekki um neinn innflutning að ræða miðað við tollígildin eins og þeim á að beita og þær viðmiðanir sem hér eru notaðar vegna þess að það segir sig sjálft samkvæmt útreikningum Neytendasamtakanna að ef við erum að tala um smjör á 673 kr. og osta á 1.030 kr. kg þegar hið innlenda er 545 kr. þá getur varla orðið um mikinn innflutning eða samkeppni að ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt þó að við viljum sjá til þess að landbúnaðurinn geti aðlagað sig að þessum breytingum að þessi samningur skili sér líka til neytenda og það tel ég alls ekki að sé gert með þessum hætti. Það er reyndar athyglisverður þessi útreikningur Neytendasamtakanna vegna þess að hann sýnir líka m.a. að verð á brauðosti miðað við annars vegar lágmarkstoll og hins vegar innflutning með rauntollum, þ.e. það

sem flutt er inn fyrir utan lágmarksinnflutning, þá virðist sá síðarnefndi vera lægri, þ.e. innflutningur með rauntollunum, að því er varðar sérstakar tegundir. Mér virðist að þær upplýsingar sem fram koma hjá Neytendasamtökunum sem sýna raunverulegan toll allt frá um 30% upp í 240% kalli á það, sem hefur reyndar verið nefnt í þessum ræðustól við umræðuna, að það þurfi að liggja nákvæmir útreikningar og dæmi um það hvaða áhrif þetta hefur á einstakar matvörur.
    Ég held að allir séu sammála því að til þess sé ætlast að innflutningurinn sem á að leyfa skili sér að einhverju leyti til neytenda um leið og við hljótum líka að veita landbúnaðinum viðunandi svigrúm til þess að aðlagast þessum breytingum. Því held ég að það sé mikilvægt að það sé skoðað sérstaklega í nefnd hvaða áhrif þessi innflutningur mun hafa fyrir neytendur og tel, virðulegi forseti, að ekki sé allt sem sýnist í þessu máli.
    Annað sem ég tel ástæðu til að nefna og tengist meðferð tollígildanna eru þær viðmiðanir sem eru notaðar við útreikning og skýrðar eru á bls. 22 í frv. en þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:
    ,,Síðan á viðmiðunartímabilinu (1986--1988) hafa orðið gengisbreytingar auk verðbreytinga innan lands og utan þannig að væru tollígildin reiknuð á núgildandi verðlagi yrðu þau til muna lægri. Því var talið eðlilegt að við breytingu innflutningshafta í tolla yrði ekki miðað við að fullnýta tollabindingarnar heldur verði tollar í aðalatriðum miðaðir við endurskoðuð tollígildi er taki mið af verðlagi ársins 1995.``
    Í þessu sambandi vil ég aftur vitna til skýrslu Þjóðhagsstofnunar um GATT, landbúnaðinn og þjóðarbúið. Þar segir að því er þetta varðar, virðulegi forseti:
    ,,Við útreikninga á innanlandsstuðningi hefur verið ákveðið að miða við árið 1988 vegna þess að það ár var söluskattur á matvæli tekinn upp en niðurgreiðslur auknar á móti á ákveðnum afurðum. Þessi aðferð felur raunar í sér hættu á tvítalningu tollígilda og enn frekari yfirtollun ef tollígildin eru reiknuð á öðru tímabili en 1988.``
    Þetta vekur því spurningu um hvernig gengisbreytingar og verðbreytingar innan lands eftir 1988 koma inn í þessa útreikninga því að tollar eru í aðalatriðum miðaðir við endurskoðuð tollígildi er taki mið af verðlagi 1995. Þetta finnst mér nokkuð stangast á við það sem kemur fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar frá 1992. Tollígildin taka samkvæmt upplýsingum í greinargerðinni mið af af verðlagi ársins 1995 og ég spyr: Er hugsanlegt að það feli í sér tvítalningu tollígilda eins og Þjóðhagsstofnun bendir á eða hvaða samhengi er þarna á milli?
    Í því sambandi, af því að Þjóðhagsstofnun gerði mjög ítarlega úttekt á áhrifum af GATT-samningnum, bæði á landbúnaðinn og þjóðarbúið á sínum tíma, á árinu 1992, vil ég spyrja hvort Þjóðhagsstofnun hafi verið látin endurmeta það sem hún setti fram á árinu 1992 miðað við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um beitingu tollígildanna og fram kom í þessu frv.? Ég tel mjög mikilvægt að Þjóðhagsstofnun verði fengin til að endurmeta þá þætti sem hún lagði mat á árið 1992 vegna þess að þar kemur mjög margt fram og þar gaf Þjóðhagsstofnun sér ákveðnar forsendur þar sem ekki lá fyrir hvernig beitt yrði þessum tollígildum og því kalla ég eftir því hvort mat Þjóðhagsstofnunar liggur fyrir í þessum efnum. Ef ekki þá tel ég nauðsynlegt að nefndin, sem fær þetta mál til umfjöllunar, kalli eftir þessu mati frá Þjóðhagsstofnun.
    Í skýrslunni frá 1992 er verið að reyna að meta markaðshlutdeildina og í fjárhæðum svarar markaðshlutdeildin til 700--1.000 millj. kr. á ári framan af aðlögunartímanum og 1.200--1.400 millj. kr. undir lok hans. Hér er verið að gefa sér ákveðnar forsendur um markaðshlutdeildina og ég var, hæstv. forsrh., þegar ég var að ræða hér áðan um hvers vænta mætti varðandi innflutning og tekjur ríkissjóðs, einmitt að spyrjast fyrir um það hvaða mat fjmrn. hefur lagt á það hverju þetta muni skila í ríkissjóð og hvaða mat fjmrn. hefur lagt á það að þetta þýði í auknum innflutningi. Mér skilst að hæstv. fjmrh. sé ekki hér til svara, hafi fjarvistarleyfi, þannig að ég spyr hæstv. forsrh. um það mál, og þá ekki síst í ljósi þess sem Þjóðhagsstofnun setti fram á sínum tíma í þessu efni.
    Þjóðhagsstofnun segir líka að raunverð á búvöru til neytenda sé talið lækka að jafnaði um 1% á ári á aðlögunartímanum. Má ætla að þetta standist, að raunverð á búvöru til neytenda lækki að jafnaði um 1% á ári á aðlögunartímanum? Ég hef haldið því fram, skal reyndar ekki fullyrða um það fyrr en málið hefur verið krufið til mergjar, að það sé raunverulega verið að koma í veg fyrir að það verði nokkur innflutningur, að það sé verið að verðleggja vöruna út af markaðnum með tollunum eins og þeim er beitt. Komi eitthvað annað í ljós þá mun ég að sjálfsögðu draga það til baka. En á meðan ég hef ekki aðrar upplýsingar þá tel ég ástæðu til að halda þessu fram, að það sé verið að verðleggja innflutninginn alveg út af markaðnum.
    Þjóðhagsstofnun sagði á sínum tíma, með leyfi forseta: ,,Að öllu samanlögðu má búast við að verð til framleiðenda lækki um 7% á öllum aðlögunartímanum. Þá er gert ráð fyrir því að vinnslustöðvar í landbúnaði auki framleiðni sína ekki minna en bændur. Ef ekki kemur til útflutnings landbúnaðarvara, eins og miðað er við í þessum útreikningum, er óhjákvæmilegt að störfum fækki í landbúnaði á aðlögunartímanum; e.t.v. um 2% á ári.`` Ef til vill 2% á ári er hér haldið fram.
    Ef maður lítur til þess hvaða mat utanrrn. leggur á þetta eða sú skýrsla sem unnin var fyrir utanrrn. þá kemur allt annað mat í ljós. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ætla má að þessar breytingar verði til þess að um 950 bú hætti framleiðslu eða um 30% af heildarfjölda búa. Þetta gæti þýtt um 1.400 störf í landbúnaði.``

    Mér finnst því nauðsynlegt og ítreka það að Þjóðhagsstofnun endurmeti þetta í ljósi þessara ákvarðana sem nú liggja fyrir, það mat sem hún lagði á mikilvæga þætti þessa máls. En það sem Þjóðhagsstofnun lagði mat á var:
    Hvernig má ætla að markaðshlutdeild erlendra búvara í neyslu landbúnaðarvara þróist hér á landi á aðlögunartímanum?
    Hver verða áhrifin á verð búvara til neytenda?
    Hver verða áhrifin á innlenda framleiðslu og verð til bænda?
    Hvernig samræmist búvörusamningurinn drögum að GATT-samkomulagi?
    Og núna þegar svona mikilvægar ákvarðanir af hálfu ríkisstjórnarinnar liggja fyrir þá finnst mér eðlilegt að fá endurmat á þessu.
    Síðan eru það nokkrir aðrir þættir sem ég vil nefna og kemur fram í þessari skýrslu sem ég vitna aftur til frá 1992 og er túlkun GATT-samningsdraganna. Hér koma fram heildaráhrif GATT-samningsdraganna og að í GATT-drögunum felist í megindráttum eftirfarandi skilmálar: að breytingar verði í þrepum á aðlögunartíma frá 1993--1999. --- Og síðan kemur eitt mikilvægt ákvæði sem segir ,,að innflutningur komi inn á innanlandsmarkað í upphafi samningstímabilsins á svipuðu verði eða ívið hærra en innlendar vörur``. Þetta er túlkun þessarar nefndar sem var falið að skoða þetta mál af hálfu fyrrv. landbrh. og formaður í þeirri nefnd var Þórður Friðjónsson. Að túlkunin væri sú að innflutningur komi á innanlandsmarkað í upphafi samningstímabilsins ,,á svipuðu verði eða ívið hærri en innlendar vörur``.
    Ef þetta er rétt, sem Neytendasamtökin eru að setja fram, að það sé verulegur munur sem verði á innfluttum vörum þó miðað sé við lágmarkstolla og á innlendu verði, svo dæmi sé tekið varðandi smjörið, 265 kr. og það verði á þessum lágmarksinnflutningi 673 kr., þá er það auðvitað miklu hærra heldur en hér hefur verið lagt mat á varðandi innflutninginn. Þar er talað um að verð innfluttrar vöru verði ívið hærra heldur en verð innlendrar vöru.
    Síðan var það mjög mikilvægt sem mér fannst koma fram í andsvari forsrh. hér áðan að maður velti fyrir sér þegar maður var að lesa þetta frv. hvernig beita eigi tollígildum, hvort við séum þá af því að ekki er farið í hámarkstolla búin að ná þessari niðurþrepun sem á að fullu að vera komin til framkvæmda á samningstímanum, þ.e. að tollígildi lækki í þrepum um að meðatali 36% á samningstímanum en að lágmarki um 15% í hverjum flokki.
    Ef ég skil málið rétt þá erum við með beitingunni eins og hún er hér lögð fram búin að ná þessari niðurþrepun og er það mjög athyglisvert að það sem hér er sett fram varðandi beitingu á tollígildunum og hvernig þau skila sér til neytenda virðist þá að fullu vera komið fram með þessum ákvæðum eins og þau eru lögð til og eins og lagt er til að þessum tollígildum verði beitt.
    Það er ýmislegt sem fram kemur í skýrslunni sem ég vitnaði til frá 1992 sem ég held að sé mikilvægt að komi inn í þessa umræðu, t.d. það mat sem þessi nefnd lagði á svigrúmið fyrir yfirtollun. En í skýrslunni segir, virðulegi forseti:
    ,,Það er þó ekki allt sem sýnist í þessum efnum. Í fyrsta lagi er ljóst að verulegt svigrúm er fyrir ,,yfirtollun`` á innfluttu vörunum sem gerir þær að mestu ósamkeppnishæfar við þær innlendu, fyrir utan lágmarksinnflutning, verði tækifæri til þess nýtt til hins ýtrasta af stjórnvöldum. Ástæður fyrir þessu eru t.d. þær að stjórnvöld í hverju landi ákveða sjálf það viðmiðunarverð sem notað er við tollígildingu sem veitir svigrúm til að velja nánast hvaða verð sem einhver viðskipti hafa farið fram á á tímabilinu 1986--1988. Heimsmarkaðurinn fyrir flestar landbúnaðarvörur er ófullkominn og endurspeglar ekki eðlilegar markaðsaðstæður`` --- þetta er lykilatriði --- ,,þar sem samspil framboðs og eftirspurnar á breiðum markaði ákvarðar verð heldur einkennist hann af höftum, háum tollum og útflutningsbótum. Í flestum tilvikum verka þessar markaðstruflanir til lækkunar verðs og gerir það sveiflukenndara. Stjórnvöldum er því í lófa lagið að finna mjög lág viðmiðunarverð`` --- og það er einmitt það sem ég tel að ríkisstjórnin hafi gert --- ,,fyrir þær vörur sem þau vilja skýla fyrir innflutningi.``
    Virðulegi forseti. Ég tel að margt sé enn mjög óljóst í þessu máli sem þurfi að fást upplýst í þessari umræðu og ég treysti því að nefndin skoði þetta mál mjög nákvæmlega vegna þess að við erum, eins og allir þingmenn vita, að fjalla um mjög mikilvægt mál. Ekki einungis fyrir landbúnaðinn, heldur einnig hvernig þessi GATT-samningur skilar sér raunverulega til þess að bæta kjör neytenda. Ég held að það sé engum greiði gerður með því að setja á einhverja ímyndaða tolla sem munu ekki leiða til þess að við nýtum okkur lágmarksinnflutning að því er varðar landbúnaðarvörur.
    Í lokin, virðulegi forseti, ætla ég að fara nokkrum orðum um þá spurningu sem var sett fram af þessari nefnd sem Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, veitti forstöðu frá 1992, en þar er spurt: Hvernig samræmist búvörusamningurinn drögum að GATT-samkomulagi? Ég held að það sé mjög mikilvægt einmitt að við fjöllum töluvert um búvörusamninginn í ljósi þeirra breytinga sem við erum að innleiða sem eru mjög mikilvægar. Það er því mikilvægt að í tengslum við þessa umræðu verði rædd nauðsynleg endurskoðun á búvörusamningnum. Þar þarf sérstaklega að skoða í samráði við bændur og neytendur hvaða breytingar eru nauðsynlegar til að atvinnugreinin nái þeirri hagkvæmni að geta keppt við innfluttar búvörur með lágmarksstuðningi frá ríkissjóði. Ég tel að við þurfum að ná víðtæku samkomulagi milli bænda og neytenda um einfaldari, skilvirkari og hagkvæmari skipan í vinnslu og öðrum milliliðum.
    Það hlýtur líka að verða óhjákvæmilegt í tengslum við skuldbindingar okkar vegna GATT-samkomulagsins að skoða greiðslur til framleiðenda sem eru markaðstruflandi. Þannig þarf að endurskoða núverandi beingreiðslur til bænda með það að markmiði að ná sáttum um að afnema þær í áföngum og í staðinn komi greiðslur sem ekki tengjast framleiðslumagni. Ég tel að við þurfum að skoða það með mjög opnum huga. Samhliða því þarf að gera viðunandi verklokasamninga við bændur sem vilja hætta í landbúnaði. Á það er einmitt bent í skýrslu þessarar nefndar frá 1992 að gera þurfi ráð fyrir aðlögunarkostnaði við röskun á mannafla í landbúnaði. Og það má spyrja: Hvað hefur verið hugað að því máli, hæstv. landbrh.?
    Við þurfum líka að skoða með opnum huga og án fyrir fram fordóma hvort það sé ekki rétt og hagkvæmt fyrir bændurna sjálfa að kanna hvort ekki sé rétt að núverandi kvótakerfi verið afnumið í áföngum þannig að markaðurinn taki við því hlutverki að ákveða verð og magn framleiðslu. Auðvitað þarf ef í það verður ráðist að athuga sérstaklega meðferð núverandi birgða og sjálfsagt er að skoða ýmsar áfangalausnir sem mættu verða til samkomulags í þessu máli. Ég tel líka mikilvægt að tryggja að bændur og sölusamtök þeirra búi ekki við fákeppni eða einokun örfárra verslunarkeðja á búvörumarkaði og þannig verður að tryggja frjálsan og heilbrigðan markað með búvöru innan lands sem þjónar bæði --- og ég legg áherslu á það --- bæði hagsmunum bænda og neytenda. Vegna þess að auðvitað er það rétt, sem oft er haldið fram, að hagsmunir bænda og neytenda fara saman.
    Það þarf líka að gera allt til þess að aðstoða landbúnaðinn við að aðlagast þessum breytingum án þess þó að það komi niður á hagkvæmni fyrir þjóðarheildina og neytendur. Í því sambandi þarf að yfirfara álögur, skatta og tolla í landbúnaði með það að markmiði að jafna aðstöðu innan atvinnugreinarinnar og gera henni kleift að standa að þessu leyti jafnfætis landbúnaðinum í grannlöndum, svo og að fara yfir opinbera hlutdeild að stoðkerfi greinarinnar og samvinnu um markaðssókn fyrir útflutningsvörur. Þetta tel ég mikilvægt að verði skoðað samhliða og spyr: Hvað er farið að huga að þessu máli?
    Það hefur nokkuð verið rætt um innflutning á kjöti af heilbrigðisástæðum og þær skorður sem settar eru við honum. Ég held að það sé alveg ljóst að það er verið að opna þetta miklu meira heldur en gert hefur verið hér áður og vitna til þess, virðulegi forseti, sem stendur á bls. 24 í greinargerðinni. Þar stendur:
    ,,Jafnframt er í grundvallarréttindum og skyldum tekið fram að ráðstafanir um hollustuhætti verði að byggjast á vísindalegum meginreglum og megi ekki viðhalda án fullnægjandi sönnunargagna. Enn fremur verður ráðstöfunum um hollustuhætti eða heilbrigði ekki beitt á þann hátt að slíkt hafi í för með sér duldar hindranir á alþjóðaviðskiptum.``
    Og maður spyr: Hjá hverjum liggur sönnunarbyrðin í þessu máli? Er ekki hér um töluverðar breytingar að ræða, hæstv. landbrh., frá þeim reglum og hefðum og venjum sem við höfum búið við í þessu máli?
    Tvennt í lokin. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv. Ég held að varðandi tollakvótann sé skynsamlegri leið að fara eins og hann lagði til að leita tilboða og taka lægsta tilboði. Ég held að það sé skynsamlegri leið heldur en þetta hlutkesti sem hér er boðið upp á í þessu frv. En sjálfsagt reynir ekkert á þetta vegna þess að ég hef enga trú á því að miðað við þá aðferð sem hér á að beita verði nokkur ásókn í það að flytja inn landbúnaðarvörur.
    Í lokin þetta, virðulegi forseti. Á síðasta þingi varð mikil umræða um forræði þessa máls, hvort það lægi varðandi tollabeitinguna hjá hæstv. fjmrh. eða hæstv. landbrh. og niðurstaða þingsins var eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Landbrh. verði tryggt forræði um allar efnislegar ákvarðanir í því stjórnkerfi sem varðar landbúnað og innflutning landbúnaðarvara og komið verður á fót á grundvelli þessarar ályktunar.``
    Nú erum við að fjalla hér, virðulegi forseti, um bandorm, þ.e. annars vegar um breytingu á tollalögum sem eru einar 13 greinar og hins vegar um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Og þegar maður fer yfir þessar 13 greinar sem lúta að breytingu á tollalögum og það sem kveðið er á um ráðherravald eða ráðherrabeitingu í því máli, þá er alls staðar talað um ráðherra þannig að ég geri ráð fyrir að í þessu sambandi sé verið að vitna til fjmrh. en ekki landbrh. þar sem ekki er annað tekið fram. Mér finnst að fjmrh. hafi með þessu nokkurt vald og þá er spurning hvort það samræmist því sem Alþingi ætlaðist til á sínum tíma og þá er ég að taka hér fyrir skýringar við 4. gr. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt 8. og 9. gr. tollalaga skal tollverð vara vera viðskiptaverðið. Í samningnum um tollverð er viðskiptaverðið aðalareglan en jafnframt er kveðið á um að nota megi tilteknar aðferðir til að nálgast viðskiptaverðið þegar það liggur ekki fyrir. Í 10. gr. tollalaga er ráðherra veitt heimild til slíks. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda um tollverð í e-lið III. kafla.``
    Ég nefni hér aðeins eitt ákvæði en spyr hvort það sé þá alveg í samræmi við ályktun Alþingis á sínum tíma að hér virðist í öllum tilvikum þar sem ráðherra er nefndur að því er varðar breytingu á tollalögum um að ræða fjmrh.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál. En eins og fram hefur komið í mínu máli hef ég verulegar efasemdir um þá aðferð sem hér er notuð og hvernig henni er beitt í þessu frv. og tel að þegar grannt er skoðað og málið krufið til mergjar muni sú leið sem hér er lögð til hvorki þjóna hagsmunum bænda né neytenda eins og þó er til ætlast.