Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 16:25:42 (328)


[16:25]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég veit að umræðan hefur dálítið ruglast í þjóðfélaginu vegna þess hvernig menn töluðu fyrir kosningar, svolítið fjarri sannleikanum, sumir hverjir, eða staðreyndunum. Það kom alls staðar fram í veröldinni að þessi breyting með Úrúgvæ-umræðunni var ekki til þess fallin að koma neinni stökkbreytingu á varðandi viðskipti með landbúnaðarmál í veröldinni og reyndar er talað um það einmitt í þessari sömu grein í Financial Times að það þurfi nýjan ,,round`` eins og það er kallað, nýja lotu í landbúnaðarumræðum um GATT til þess að þar verði einhver breyting á. Hins vegar eru menn að falla frá ákveðnum þætti, þ.e. bannregluþættinum. En það stóð hvergi til, hvergi í veröldinni til, en því miður var það rangfært, til að henda ryki í augu kjósendum með frekar ómerkilegum hætti satt best að segja, að einhvers staðar í veröldinni væri þetta að gerast og þess vegna ætti það að gerast hér. Það er hvergi að gerast. Til að mynda ætlar Evrópusambandið, eins og ég sagði, að hafa þessa tilteknu vernd upp á 20% til þess að vernda sinn landbúnað og er hún eins og kemur fram í fréttum að fara í kringum reglur um að draga úr styrkjum og útflutningsuppbótum og öðrum slíkum þáttum. Þannig eru menn, eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, ekki að fara neitt í felur með það af því að það hefur alltaf staðið til, það er engin kollsteypa sem er að verða í þessum efnum. Það er hins vegar að verða ákveðin breyting. Menn eru að hverfa frá bannreglum. Menn geta hér flutt inn vöru sem þeir gátu ekki flutt inn áður, en menn borga meira fyrir það heldur en innlendu vöruna. Það er enginn feluleikur með það. Menn geta fengið osta, sem þeir hafa verið að kvarta yfir að hafa ekki getað fengið, en þeir borga aðeins meira fyrir það. Þannig er þetta og þannig átti þetta alltaf að vera og þannig stóð það alltaf til og þannig voru bindingarnar, þannig voru leikreglurnar og þetta vissu allir, líka þeir sem sögðu svolítið annað í kosningunum.