Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 16:28:17 (330)


[16:28]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða stórt og viðamikið mál og ég get ekki látið hjá líða að gagnrýna það í upphafi að við skulum einungis hafa fengið innan við sólarhring til þess að undirbúa okkur undir þær umræður sem hér standa yfir og munu væntanlega standa nokkuð fram eftir degi því að hér er um gríðarlega flókið mál að ræða. Eftir að hafa farið í gegnum frv. finnst mér harla margt óljóst, en kannski getur enginn svarað því hver áhrifin verða.
    En vegna fyrirspurnar hv. 13. þm. Reykv., sem var að ganga út úr salnum, þá spurði ég hæstv. fjmrh. að því fyrr í dag hvort reiknað væri með einhverjum tekjum í ríkissjóð af þessum breytingum og hann svaraði því til að það væri reiknað með því að þær yrðu harla litlar vegna þess að það yrði um svo lítinn innflutning að ræða en ég ætla að koma að því síðar í máli mínu.
    Ég nefndi fyrst það hvað við hefðum haft stuttan tíma til þess að vinna þetta og eftir því sem ég hef fylgst hér með umræðunni, þá verður mér æ ljósara hvað við erum með stórt mál í höndunum og ég hlýt að velta því fyrir mér hvað við verðum eiginlega lengi hér í þingsölum á þessu vori. Við erum að fjalla um áfengisfrumvörpin svokölluðu í mörgum nefndum þingsins og þar er allnokkur vinna eftir nema það sé meiningin að taka þau mál út úr nefndum með hraði sem auðvitað kallar þá á lengri umræður hér í þingsölum. Hér erum við með þetta stóra og viðamikla mál sem ég þykist vita að kalli á allmikla vinnu í hv. efh.- og viðskn. Og síðan eigum við eftir sjávarútvegsfrumvörpin sem mér skilst að séu tvö eða þrjú þannig að það er allljóst að við eigum töluvert mikla vinnu eftir. En það kemur í ljós.
    Umræðan um GATT-samninginn og stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur staðið á hinu háa Alþingi síðan í upphafi síðasta kjörtímabils eða jafnvel lengur, en í upphafi síðasta kjörtímabils fór að skýrast hvað þar væri á ferð. Hér í þingsölum hafa orðið umræður hvað eftir annað þó að mönnum hafi ekki verið ljóst hver niðurstaðan yrði í Úrúgvæ-lotunni.
    En í upphafi þessa árs gekk samningurinn í gildi og samkomulagið um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar --- og ég verð að benda á það í því samhengi að það eru töluverðar villur í upphafi athugasemdanna, vitlaus ártöl. Þar stendur: ,,Í framhaldi af samþykkt Alþingis þann 28. des. 1995 . . .   í Marokkó 15. apríl 1995 . . .  Samningurinn tók gildi 1. jan. 1995.`` Það er svolítið leiðinlegt að sjá þetta, en það skilja allir við hvað er átt.
    Hér í þingsölum urðu gríðarlegar deilur þegar tók að draga nærri niðurstöðunni og þar áttu í hlut ríkisstjórnarflokkarnir. Við sem þá vorum í stjórnarandstöðu stóðum agndofa og fylgdumst með þeirri umræðu og áttum jafnvel von á stjórnarslitum í beinni útsendingu hér í þingsölum. En þar fékkst ákveðin niðurstaða og ég vil minna á það að Alþfl. skrifaði undir þá niðurstöðu og féllst á það að forræði þessara mála yrði í landbrn. en sú sem hér stendur var í hópi þeirra sem gagnrýndu þá niðurstöðu og ég geri það enn. Mér finnst það mjög sérkennilegt hvernig verið er að blanda saman ólíkum málaflokkum og að koma þeim öllum yfir í landbrn., þ.e. ákvæðum um tolla, úthlutun á tollkvótum o.s.frv. Mér finnst þetta óeðlileg verkaskipting, en mér er það ljóst að þarna var um ákaflega viðkvæmt mál að ræða og mikinn ótta í landbúnaðargeiranum við niðurstöðuna og óttinn við Alþfl. auðvitað yfirþyrmandi á þeim bæ.
    Það varð niðurstaðan, eins og ég nefndi áðan, að forræði þessara mála yrði hjá landbrn. og hér liggur fyrir niðurstaðan varðandi tolla og breytingar á öðrum lögum. Mér hefur að sjálfsögðu ekki gefist kostur á frekar en öðrum að kanna hvað þetta þýðir í raun og veru, hvert verðlag á innfluttum landbúnaðarvörum mun verða. Eins og hér hefur komið fram fer það eftir því við hvað verður miðað, við hvað er miðað í verðlagningunni og við álagningu tolla. En það sem mun gerast, ef þetta gengur eftir, er að hér hefst innflutningur á landbúnaðarvörum og verður fyrst leyft að flytja inn magn sem nemur 3% af innanlandsneyslu og síðan fer það magn upp í 5% á næstu sex árum. En allt sem flutt er inn umfram það það fer í hærri toll.
    Það er tilgangur GATT-samningsins að draga úr viðskiptahindrunum. Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. rétt áðan er það bannreglan sem verið er að afnema með þessum samningi en það er líka verið að ýta undir viðskipti og að auðvelda viðskipti með ýmsar vörur og vöruflokka. Ég vil í því samhengi minna á það að sú niðurstaða sem náðist í Úrúgvæ snerist ekki eingöngu um landbúnaðarvörur heldur vefnaðarvörur t.d. en ég var upplýst um það í hliðarsölum, sem ég hafði reyndar ekki áttað mig á áður, að við Íslendingar erum algjörlega fyrir utan þessa samninga um vefnaðarvörur. Það á sér einhverjar sögulegar rætur sem ég þekki ekki og er ástæða til þess að kanna nánar því ef við hugum að stöðu landbúnaðarins og þeim möguleikum sem hann hefur þá megum við ekki gleyma því að við eigum mjög sérstaka ull og gætum eflaust og eigum að byggja aftur upp ullariðnaðinn og nýta okkur þá ull sem hér fellur til. Og þá kemur spurningin hvort þessi hluti samningsins gæti orðið okkur að einhverju gagni.
    Í þessum samningum var sérstaklega verið að huga að verslun þriðjaheimsríkja, m.a. með vefnaðarvörur, en þau áttu þar við miklar hindranir að stríða, t.d. hjá Evrópusambandinu.
    Þegar tillagan um samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar kom til atkvæðagreiðslu á hinu háa Alþingi í lok síðasta árs þá sátum við kvennalistakonur hjá og það var af þeirri meginástæðu að í þessum samningi og í þeirri hugsun sem felst í þessari stofnun hefur ekki verið tekið nægjanlegt tillit til umhverfismála. Við vildum koma þeim sjónarmiðum mjög skýrt til skila að það getur ekki verið tilgangur mannkynsins að stórauka verslun og viðskipti og umferð með allri þeirri mengun sem því fylgir. Ef við ætlum að vera ábyrgir þegnar og tryggja það að komandi kynslóðir eigi framtíð fyrir sér hér á jörðinni þá þarf að draga úr viðskiptum og það þarf að stuðla að sjálfbærri þróun samfélaga.
    Ég sé það mér til mikillar ánægju að í greinargerðinni er vikið sérstaklega að þessum þáttum því það gerðist undir lok Úrúgvæ-lotunnar að það tókst að vekja athygli samningamanna á umhverfisþættinum og umhverfismálum og inn í samninginn voru teknar setningar um umhverfismál og um það hvað þyrfti að gera í þeim efnum. Ég vil benda þingmönnum sérstaklega á þá umfjöllun á bls. 13 í frv. Þetta skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli. Sú gagnrýni á GATT-samninginn sem ég hef lesið í erlendum blöðum hefur annars vegar beinst að þessum þætti umhverfismálanna og þeim áhrifum sem vaxandi viðskipti hefðu ef menn ekki tækju þann pól í hæðina að reyna að draga úr öllum mengandi þáttum og hins vegar er það sá þáttur sem snýr að landbúnaðinum sem hefur verið gagnrýndur og ekki bara hér á Íslandi heldur t.d. í Bandaríkjunum og hjá Evrópusambandinu þar sem þeir sem notið hafa mikillar verndar hafa óttast um sinn hag.
    Ég vil halda því til haga líka í þessu samhengi að við kvennalistakonur höfum margoft bent á það í þeirri miklu umræðu sem hér hefur orðið um viðskiptamál á undanförnum árum og um þá alþjóðlegu viðskiptasamninga sem við höfum verið að gerast aðilar að að þessi leið, að gera alþjóðlega viðskiptasamninga sem allir eiga aðild að, er miklu betri heldur en þær blokkamyndanir sem nú eru því miður að verða hið algenga, þ.e. Evrópusambandið annars vegar, NAFTA í Vesturheimi og síðan eru ríkin í Suðaustur-Asíu að þjappa sér saman í blokkir. Við þekkjum það úr sögunni að slíkt getur reynst afdrifaríkt ef samkeppnin keyrir úr hófi fram.
    Áður en ég kem að einstökum efnisatriðum þá finnst mér skipta mjög miklu máli þegar við horfum á áhrif þessa samnings að horfa ekki bara inn á við og á áhrifin sem innflutningur mun hafa á íslenskt samfélag, á landbúnaðinn, á framleiðslu hér í landi, á störf o.s.frv., heldur líka að horfa út og reyna að átta sig á því hvaða möguleikar felast í GATT-samningnum varðandi útflutning á íslenskum landbúnaðarvörum. Ég vildi gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh., ef hann má heyra mál mitt, hann hefur vikið sér frá, hvað menn eru að hugsa í því efni. (Gripið fram í.) Ég beini þeirri spurningu til hans hvað menn eru að hugleiða varðandi átak í útflutningi á landbúnaðarvörum og þá erum við ekki bara að tala um lambakjöt heldur líka aðra íslenska framleiðslu sem við hljótum að hafa möguleika á að flytja út, ekki síst á grundvelli þeirra gæða sem við búum að hér á landi. En ef við beitum ofurtollum, ef við beitum innflutning annarra þjóða hæstu tollum þá er auðvitað ekki við öðru að búast en að þær beiti okkur hinu sama. Þannig að eins og sú leið sem verið er að fara hér lítur út, án nánari skoðunar, ég vil taka það skýrt fram, ef það er ekki rétt sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að hér séu duldir ofurtollar á ferð, þá finnst mér þetta skynsamlegri leið, að fara svona í málið eins og hér er gert heldur en að beita hæstu mögulegum tollum. En ég segi þetta með öllum fyrirvörum um það hvað þetta þýðir í raun og veru.
    Við hljótum að velta því fyrir okkur hvaða áhrif þessi samningur muni hafa á íslenskan landbúnað. Því er ekki að leyna að þessi opnun kemur á tímum þar sem íslenskur landbúnaður á við mikla erfiðleika að stríða, þ.e. hluti íslensks landbúnaðar, sérstaklega sauðfjárræktin. Ég hygg að í rauninni verði áhrifin ekki mjög mikil, sérstaklega ef menn beina sjónum að þeim möguleikum sem gefast. Ég tel að það verði ekki um mikinn innflutning að ræða, alla vega til að byrja með, það getur verið að menn geri tilraunir og reyni að koma inn alls konar varningi en ég held að það verði fyrst og fremst þær vörur sem eru sérstakar í framleiðslu ýmissa þjóða, t.d. ostar, ýmsir sérostar eða fínir ostar sem munu komast hér inn á markað og verða aukning við það framboð sem hér er. En mér finnst mjög ótrúlegt að fólk fari að kaupa innflutt soðið kjöt í einhverjum stórum stíl eða kalkúnalærin margnefndu sem voru svo yfirfull af rotvarnarefnum að þau hefði sennilega átt að banna af heilsufarsástæðum. (Gripið fram í.) Það hefur komið fram í umræðunni. Ég held að það sé mjög takmarkaður markaður fyrir vörur af þessu tagi, það verði fyrst og fremst ýmiss konar sérframleiðsla sem muni festa hér rætur. Þó er auðvitað erfitt um það að spá.
    En aðalatriðið í þessu máli er það að við höfum gerst aðilar að þessum samningi og við eigum að standa við þann samning og við eigum að framkvæma hann í þeim anda sem ætlast er til. Í því samhengi má benda á grein í Morgunblaðinu í dag þar sem vikið er að því að nánast hvert einasta ráðuneyti hér á landi hefur fengið athugasemdir frá eftirlitsstofnun EFTA vegna framkvæmdar á EES-samningnum. Það er ekki gott til eftirspurnar að við séum að gerast aðilar að ýmsum alþjóðasamningum og stöndum ekki betur við þá en þetta. En við hljótum að spyrja okkur hvort íslenskt stjórnkerfi hafi yfirleitt þann kraft og þann mannafla sem þarf til að fylgja þessum samningum eftir.
    Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að með þessum samningi og þeirri opnun sem í honum felst þarf mjög að herða eftirlit með innflutningi matvæla til landsins. Í því samhengi vil ég benda á þær breytingar sem verið er að gera á lögunum um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum í plöntum og breytingar á lögum um dýrasjúkdóma. Það er kveðið á um það í samningnum að sönnunarbyrðin er þeirra sem reyna að stöðva eða koma í veg fyrir hugsanlega óæskilegan innflutning eða innflutning á vörum sem óttast er að beri með sér einhverjar sóttkveikjur. Ég hlýt að beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh.: Hvaða hald er í þessum lögum varðandi innflutning sérstaklega á kjöti? Ég hlýt að minna á að það hafa borist hingað margir sjúkdómar með plöntum og jafnframt að við þekkjum það úr íslenskri sögu að innflutningur á lifandi dýrum, sem áttu að verða til að kynbæta íslenska dýrastofna, sérstaklega sauðfé, ollu hér alveg gífurlegu tjóni. Við skulum átta okkur á því að hér er ekki um neitt grín að ræða.
    Ég hitti þýskan dýralækni sem var hér í heimsókn á síðasta ári, hann var reyndar búsettur á landamærum Danmerkur og Þýskalands, talandi bæði á dönsku og þýsku, og var hér í hópi Dana. Hann sagði mér frá því að það væri mjög mikið vandamál í Slésvík-Holstein að eiga þar við reglur Evrópusambandsins vegna þess að samkvæmt þeim er heimilt að flytja hrátt kjöt á milli og í breskum nautgripum er sjúkdómur sem aldrei hefur komið upp í Þýskalandi og þeir óttast mjög að berist yfir til þeirra. En reglurnar eru þær að þetta er orðinn einn markaður og það er mjög erfitt að verjast þó að hægt sé að sanna það að innflutningur á hráu kjöti hefði mjög alvarlegar afleiðingar. Ég vil því ítreka þá spurningu: Hvaða hald er í þessum þætti laganna? Vegna þess að þetta skiptir mjög miklu máli og verður ekki aftur tekið eða getur kostað margra áratuga baráttu að kveða slíka sjúkdóma niður.
    Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom aðeins að því, sem ég vil taka undir, að í frv. er svolítið óljóst við hvaða ráðherra er átt en ég hygg að það sé rétt hjá henni að í tollalögunum sé átt við fjmrh. því að í öðrum þáttum frv. er alls staðar nefndur sérstaklega landbrh. En hvernig þessi samskipti verða og hvernig framkvæmdin á þessu verður þegar forræðið er allt hjá landbrh. en tollalögin heyra undir fjmrh. er ekki gott að sjá.
    Svo ég komi aftur að þessum vörnum gegn sjúkdómum bæði í plöntum og dýrum þá langar mig líka að forvitnast um það hvort hér sé um einhverjar nýjungar að ræða í þeirri upptalningu sem er á bls. 7 og 8 í frv. Þar eru taldar upp allmargrar vörur sem óheimilt er að flytja inn og talið er að geti flutt með sér einhverjar sóttkveikjur. Hér eru t.d. talin upp stráteppi og strákörfur, sem ég veit ekki betur en séu flutt inn núna, kannski með einhverju eftirliti eða prófunum. Ég spyr hæstv. landbrh.: Eru einhverjar nýjungar þarna á ferð? Er verið að bæta einhverju þarna inn sem ekki var áður háð einhverjum slíkum takmörkunum.
    Það mætti fara mörgum orðum um stöðu landbúnaðarins og búvörusamninginn sem þarf að taka hér upp á næstu mánuðum, ekki síst í kjölfar þessara breytinga. Ég minni á það að í stefnuskrá Kvennalistans segir að við viljum að landbúnaðurinn sé rekinn eins og hver önnur atvinnugrein og að menn þurfi að endurskoða stöðu hans, halda áfram því verki sem hafið var fyrir allmörgum árum þegar farið var í það að skoða annars vegar sauðfjárræktina og hins vegar mjólkuriðnaðinn en því verki er alls ekki lokið. Það þarf að taka á verðmyndunarkerfinu og vinnslu og dreifingu landbúnaðarvara og gera landbúnaðinn hagkvæmari í rekstri, ekki síst til þess að hann geti mætt þessum breytingum. Ég vil taka undir það sjónarmið sem komið hefur fram í umræðunni að kvótakerfi af því tagi sem hér hefur viðgengist í landbúnaði, og ég held reyndar í sjávarútvegi líka, eru afar erfið viðureignar og óheppileg þegar þróunin er í þá átt að skera sífellt niður, skera af öllum, sem leiðir til þess að fleiri og fleiri komast undir þau mörk sem skilja á milli lífs og dauða. Staðreyndin hefur verið sú að þó að bændur hefðu viljað hætta búskap þá hafa þeir einfaldlega ekki getað það vegna þess að það hefur ekki verið að neinu að snúa, en vonandi er betri tíð fram undan. Það verður að fara í það verk að skoða landbúnaðinn, stöðu hans og skipulag í heild í ljósi þeirra breytinga sem fylgja bæði EES-samningnum og þessum nýja GATT-samningi vegna þess að ég held að við séum flest þeirrar skoðunar að við viljum að sjálfsögðu hafa hér góðan og vel rekinn landbúnað þar sem fólk getur búið við góða afkomu en það kallar á mikla endurskipulagningu og þar verða bændur sjálfir að ráða för. Það er þeirra að stjórna sinni atvinnugrein, ekki ríkisvaldsins.
    En ég vil líka taka undir það sem hér hefur komið fram að landbúnaðurinn þarf að fá aðlögun að þessum breytingum. Ég hygg að hann hafi ekki búið sig nægilega vel undir það sem koma skyldi þó mönnum hafi verið ljóst að þessar breytingar væru fram undan og ég get enn einu sinni nefnt það dæmi sem mér fannst ansi sláandi þegar við vorum að fjalla um EES-samninginn og það var ljóst að hann tók til innflutnings á ákveðnum blóma- og grænmetistegundum. Við kölluðum til fulltrúa bænda til þess að spyrja hvað þeir héldu að þetta þýddi og þá höfðu þeir litlar áhyggjur af þessum innflutningi. En samningurinn var varla genginn í gildi fyrr en þeir voru mættir með langan lista yfir allar þær breytingar sem gera þyrfti til þess að þeir ættu sér lífsvon. Mér fannst þetta heldur sérkennileg vinnubrögð hjá þeim grænmetis- og blómaframleiðendum. (Gripið fram í.) Þetta gerðist bæði í hv. landbn. og efh.- og viðskn. og ætti núv. formaður landbn. að minnast þess því að hann sat þar sjálfur. Ég veit ekki hvort þeir höfðu ekki áttað sig á þessum breytingum eða hvort þeir höfðu ekki sett sig nógu vel inn í málið en þetta var alla vega staðreyndin.
    Hæstv. forseti. Eins og ég hef komið að í máli mínu er það enn þá mjög óljóst hvað þetta allt saman þýðir og hvernig þessum tollabreytingum verður framfylgt í raun og væri ástæða til þess að þeir ráðherrar sem hér eru til svara skýri það fyrir okkur sem hér erum hvernig þessum lögum verður framfylgt, hvað þetta þýðir í raun fyrir verðlag á innfluttum landbúnaðarvörum. Er það rétt sem hér hefur verið vitnað til, þau dæmi sem hér hafa verið tekin um býsna hátt verð á landbúnaðarvörum eða er það rétt sem fram hefur komið í fjölmiðlum og reyndar ber að skilja á máli ráðherra að þar verði um u.þ.b. 30% mun að ræða, 30% umfram verð? Þetta er algjörlega óljóst fyrir mér af því sem hér hefur komið fram og af því sem stendur í frv. En mergurinn málsins er og það sem auðvitað skiptir mestu að fyrst við erum orðnir aðilar að þessum samningi, sem ég reyndar tel að hafi verið rétt að gera, þá snýst málið annars vegar um það að standa við samninginn og í þeim anda sem til er ætlast af þeim sem unnu að samningnum og hins vegar að við einbeitum okkur að því að nýta þá möguleika sem þessi samningur gefur. Ég held því miður að menn hafi ekki nægilega velt þeirri hlið málsins fyrir sér.