Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 17:33:16 (333)


[17:33]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það má byrja á því í beinu framhaldi af því sem voru lokaorð hv. 9. þm. Reykv. að segja að það yrði að gerast hægt. Ég er enginn byltingarmaður, ég viðurkenni það. En ég hef hins vegar sett nú þegar af stað endurskoðun á búvörusamningnum ef mönnum er það ekki ljóst. Ég hélt að það hefði komið fram víða í fjölmiðlum að sú vinna er í gangi. Það er reyndar kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum og það er líka talað um það þar að taka sérstaklega á vanda sauðfjárbænda. Sú vinna er hafin.
    Hvað út úr henni kemur, ég sagði það áðan að ég teldi að það væri ekki eðlilegt að við veltum því fyrir okkur nú strax í upphafi þeirrar vinnu, en þó kann að vera ástæða til þess að fjalla eitthvað um þau mál þegar og ef þetta frv. sem ég greindi frá áðan sem verður lagt hér fram, vonandi á morgun, og ég legg áherslu á að fá afgreitt, kemur til umræðu, þá ræðum við nánar um málefni landbúnaðar og þar með talið sauðfjárræktarinnar.
    En ég held að ég þurfi ekki að bæta við neinu sem ég sagði um innflutningsbannið vegna dýrasjúkdómanna. Ég vitnaði aðeins til þessa skjals og ég las orðrétt upp úr því og ég tel að einmitt það sem verið er að gera í frv. eins og það liggur fyrir, þeim texta sem er hér í 26. gr., þá sé það nokkurn veginn það sem hv. 9. þm. Reykv. lýsti eftir eða lýsti yfir, að það þyrfti að breyta formerkjum. Það þarf að breyta formerkjum frá því skilyrðislausa eða algjöra banni sem var áður.
    Varðandi það hvort hér sé um að ræða virk lagaákvæði sem þýði einhvern innflutning, þá árétta ég það aftur sem ég sagði bæði í upphafi og lok ræðu minnar áðan að ég hygg að þar verði reynslan að skera úr. Ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir því. Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi að hér væri reynt að ná ásættanlegri málamiðlum milli sjónarmiða. Það er ekki farið í hámarkstollana. Það mun verða meira vöruúrval og þá hafa neytendur val en ég get vel ímyndað mér að það verði í flestum tilfellum eins og hér er gert ráð fyrir umtalsvert dýrara heldur en innlenda varan.