Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 17:37:52 (335)


[17:37]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra lagði á það mikla áherslu áðan að landbrh. hefði forræði um allar efnislegar ákvarðanir í þessu máli og vitnaði til 20. gr. frv. í þessu sambandi. Reyndar voru á síðasta þingi margir hv. þm. Framsfl. sem lögðu á þetta mikla áherslu og reyndar þáv. formaður landbn., hv. þm. Egill Jónsson. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað 4. gr. frv. þýðir sem kveður á um breytingar á tollalögum, en þar er gert ráð fyrir að ráðherra --- og þá er verið að tala um hæstv. fjmrh. --- geti með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sett nánari reglur um ákvörðun tollverðs er taki mið af samningum um framkvæmd 7. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti. Reglurnar skulu m.a. tilgreina hvernig tollverð skal ákvarðað í þeim tilvikum sem ekki er hægt að ákvarða tollverð innflutningsvöru skv. 8. gr. og þar sem bæta skal við tollverð samkvæmt ákvæðum 9. gr. Hér er ákvörðunarvaldið í þessu tiltekna máli eftir því sem ég skil málið best og hæstv. landbrh. leiðréttir mig þá, ákvörðunarvaldið er í höndum hæstv. fjmrh. og ég spyr: Ef það kemur upp ágreiningur varðandi þetta tiltekna atriði, hver hefur þá forræði raunverulega í þessu máli? Hver er það sem hefur ákvörðunarvaldið?