Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 17:43:27 (338)


[17:43]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þótti nú miður að heyra þetta. Ég tapaði þarna aftur stuðningsmanni ef um glímu er að ræða en ég á svo sem ekki von á því að það verði mikil glíma um málið. Ég tek undir með hv. þm. að það er eðlilegt að skoða það betur og nánar hvað er verið að fjalla um í 10. gr. laganna, en ítreka það aftur, og við erum þá sammála, við hv. þm., um það að auðvitað er forræði tollalöggjafarinnar í höndum fjmrh., hlýtur að vera það. Það getur varla neinum blandast hugur um það. En hins vegar er jafnskýrt að það sem talað hefur verið um og samþykkt var hér á þinginu, þó að ég muni svo sem ekki hvernig hv. þm. greiddi atkvæði um þessa margumræddu þáltill. um áramótin, hver var afstaða hv. þm., enda skiptir það ekki höfuðmáli heldur það að þar er fyrst og fremst skýrt kveðið á um það að forræði er varðar innflutningsmál á landbúnaðarafurðum sé í höndum landbrh. en ekki að það sé verið að flytja tollalög frá fjmrh. yfir til landbrh. Það held ég að engum hafi dottið í hug.
    Ef þar að auki athugasemd við 4. gr. er lesin í viðbót við að hafa lesið 4. gr., þá segir hún lítið meira þannig að það þarf greinilega að fá tíma til þess að skoða þetta, enda nógur tími til þess að skoða

það nánar í nefnd.