Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 18:08:18 (340)


[18:08]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Herra forseti. Fyrst vil ég taka það fram að ég fæ ekki betur séð og heyrt en að þær tillögur og þær hugmyndir sem hv. þm. hér lýsti séu í einu og öllu hinar sömu og áður komu fram í mínu máli og einnig að því er varðar þær hugmyndir sem hann lýsti að brtt. á frv. og er það vel.
    Hv. þm. vék að samkomulagi sem gert hefði verið í tíð fyrrv. stjórnarflokka varðandi forræði mála. Tók það sjálfur fram að hann væri ekki sammála því og spurði fulltrúa hæstv. ríkisstjórnar hvort hún teldi sig bundna af samkomulagi milli fyrrv. stjórnarflokka.
    Það er nauðsynlegt að taka það fram að þetta samkomulag á sér eftirfarandi forsendur: Á sínum

tíma var í fullkominni óvissu og fullkominni hættu hvort það tækist að tryggja stofnaðild Íslands að GATT. Áhrifamiklir menn í samstarfsflokknum fyrrverandi höfðu lýst því yfir að það skipti ekki máli og mætti vel bíða. Niðurstaðan varð sú að það tókst en það kostaði þetta: Það kostaði það að fallast á til þess að tryggja hið meira mál að gera þessa forræðisbreytingu. Hún er auðvitað fúsk. Hún er brot á reglugerð um Stjórnarráðið og brot á auglýsingu um verkaskiptingu Stjórnarráðsins. Tollamál heyra undir fjmrh., eiga heima þar. Úthlutun á kvótum að því er varðar innanlandsviðskipti eiga heima í viðskrn. og þetta er auðvitað fúsk. Að sjálfsögðu á að breyta þessu.
    Nú spyr ég: Er nokkur ástæða til þess fyrir núv. stjórnarflokka að halda þessu samkomulagi til streitu? Þetta samkomulag var gert vegna þess að fyrrv. hæstv. landbrh. bar ekki traust til þáv. og núv. hæstv. fjmrh. Og af því að hæstv. fjmrh. er ljúfmenni og berst ekki fyrir meira að segja sínum eigin málstað þegar hann er réttur, þá var á þetta fallist. ( Gripið fram í: Hvað segirðu?) Nú er spurningin með núv. hæstv. landbrh. sem er líka ljúfmenni: Ber hann ekki fullt traust til ljúfmennisins sem er núv. hæstv. fjmrh.? ( Landbrh.: Þetta er ákvörðun Alþingis, hv. þm., ekki ríkisstjórnarinnar.)