Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 18:11:05 (341)


[18:11]
     Gísli S. Einarsson :
    Herra forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um þetta frv. til laga um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni í ljósi þeirra umræðna sem ég tók þátt í þegar rætt var um búvörulagabreytingu fyrir nokkru síðan þegar í rauninni var verið að takast á um þennan GATT-samning sem við erum með hér til umfjöllunar.
    Mig langar að koma að þessu máli á örlítið annan hátt heldur en menn hafa verið að gera, ekki kannski beint út frá lögunum nákvæmlega heldur út frá viðhorfunum og þá til að velta upp viðhorfum fólksins, neytendanna í landinu. Það er kannski rétt að velta upp líka viðhorfum stjórnmálaflokkanna t.d. fyrir kosningar að einhverju leyti.
    Ég vil, með leyfi forseta, vitna hér í skoðanakönnun sem Dagblaðið gerði föstudaginn 18. mars 1994 þar sem kemur í ljós að 75% allra spurðra alþýðubandalagsmanna vilja aukið frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum. 71,8% alþýðuflokksmanna vildu aukið frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum. 51,8% framsóknarmanna vildu aukið frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum. 71% aðspurðra sjálfstæðismanna vildu aukið frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum. 59% fylgjenda Kvennalistans sem spurðir voru vildu aukið frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum. Síðan er hægt að vitna til þess hvað Þjóðvakamenn sögðu nú fyrir kosningar í þessum málum. En þegar var spurt um algjört frelsi kom í ljós að það voru 55% á höfuðborgarsvæðinu á móti og 75% á landsbyggðinni. Þetta gefur nokkra mynd af þeirri umræðu sem er í gangi í landinu og hefur verið. Og þá kemur þessi spurning náttúrlega upp: Hvers væntir fólk af þessum alþjóðsamningi eða þessari alþjóðaskrifstofu sem var verið að semja um? Hvaða væntingar ber fólk í brjósti við þetta samkomulag? Það væri kannski rétt að beina spurningu til hæstv. forsrh. ef hann er einhvers staðar nálægur í sambandi við þetta mál.
    ( Forseti (StB) : Forseti getur upplýst að hæstv. forsrh. verður hér innan stundar.)
    Herra forseti, er það innan klukkustundar eða eftir augnablik, eftir tíu mínútur eða hvað?
    ( Forseti (StB) : Forseti getur ekki upplýst það nákvæmlega en mun leita upplýsinga um þetta. Hæstv. forsrh. er ekki í húsinu en er skammt undan.)
    Herra forseti. Ég vil biðja forseta að gera ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. komi hér á meðan ég hef ræðutíma þannig að hann eigi kost á að svara spurningum mínum. Ég er alveg tilbúinn að halda örlítið áfram og gefa honum færi til að koma.
    En á meðan væri kannski rétt að fá, með leyfi forseta, að vitna í stefnumál Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Með aðild Íslands að nýjum GATT-samningi er innflutningsbann á landbúnaðarvörum fellt úr gildi nema heilbrigðisreglur leiði til annars. Ísland mun, eins og aðrar þjóðir, tryggja að neytendur njóti góðs af þessum breytingum og að íslenskur landbúnaður njóti sambærilegs aðlögunartíma og erlendur landbúnaður í samræmi við GATT-samninginn.``
    Þá velti ég fyrir mér í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram, þar sem menn hafa rætt um verð á sambærilegum vörum framleiddum á Íslandi fari aldrei nokkurn tíma niður, verð á framleiddri íslenskri vöru, hvort þetta sé orðið aflagt plagg eða hvort þetta hafi aðeins verið fyrir kosningar. Ég get spurt hæstv. forsrh. á eftir þegar hann má vera að því að koma hvort þetta hafi verið eitthvert mál fyrir kosningarnar eða hvort þetta verður áfram.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna aftur í stefnumál Sjálfstfl. fyrir kosningar þar sem segir:
    ,,Samkeppni í viðskiptum, neytendavernd. Mikil og heiðarleg samkeppni í viðskiptum tryggir best

vernd neytenda og fjölbreytni í atvinnulífi. Með innlendri löggjöf skal stuðla að gegnsæi í viðskiptalífinu og eðlilegri samkeppnisstöðu fyrirtækja. Þátttaka Íslands í alþjóðasamstarfi styrkir enn frekar samkeppni og þar með neytendavernd og að henni ber að vinna á öllum sviðum verslunar og viðskipta.``
    Ég velti fyrir mér, skyldi það vera það sem menn eru að vinna að í ljósi þess sem hæstv. forsrh. hefur hér sagt og aðrir þeir sem hafa lýst dæmum í krónum og tölum hvernig þetta getur litið út.
    Það er hægt að halda áfram að velta fyrir sér málunum. 29. mars 1995 var haldinn almennur fundur Neytendasamtakanna þar sem frambjóðendur ræddu áhrif GATT-samnings á verð matvæla. Með leyfi forseta vitna ég í það sem þar stendur. Það er frá formanni Neytendasamtakanna þar sem hann í sinni aðalræðu gerir ráð fyrir því að GATT-samningurinn færi Íslendingum raunverulegan ávinning í útflutningi í formi tollalækkana. ,,Sá hluti samningsins sem snýr að landbúnaðarvörum hefur valdið mestum taugatitringi,`` stendur hér. ,,Þingmenn virðast vilja að við eigum að fá allt án þess að gefa nokkuð til baka. Ef tollígildi verða nýtt að fullu verða tollar svo háir á innfluttum landbúnaðarvörum að því má líkja við múra, tollmúra sem reistir væru í kringum landið. Það er á skjön við grundvallarmarkmið GATT-samningsins sem miðar að því að örva viðskipti með landbúnaðarvörur. Þetta var efnislegt``, segir Morgunblaðið, ,,efnislegt inntak í framsöguræðu Jóhannesar Gunnarssonar, formanns Neytendasamtakanna, á fundi sem haldinn var um GATT-samninginn.``
    Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt finnst mér eðlilegt að fá svör frá hæstv. forsrh. og ég vona að það hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. komi hér í salinn og geti svarað þeim spurningum sem hljóta að leiða af þessum upprifjunum sem ég hef farið í í ljósi framsettra mála fyrir kosningar. --- Nú væri gott að heyra frá virðulegum forseta hvernig staða mála er í að nálgast hæstv. forsrh.
    ( Forseti (StB) : Það hefur verið komið boðum til hæstv. forsrh. en forseti hefur ekki upplýsingar um það hvenær hann getur komið í salinn.)
    Vil ég þá spyrja herra forseta hvort það sé rétt að gera hlé á fundi þar til hæstv. forsrh. getur komið í salinn til þess að svara þeim spurningum sem ég þarf að fá svör við. (Gripið fram í.)
    ( Forseti (StB) : Forseti hefur fengið upplýsingar um að hæstv. forsrh. verður hér eftir um það bil sjö mínútur. Ef hv. þm. getur ekki haldið áfram ræðu sinni er spurning um það að gera hlé á fundinum ef ekki er um það að ræða að aðrir hæstv. ráðherrar geti svarað spurningum þingmannsins.)
    Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að það var hæstv. forsrh. sem flutti frv. fyrir hönd ríkisstjórnar og mér þykir eðlilegast að hann svari þeim spurningum sem ég þarf að beina til hans um þau mál. Mér þykir óeðlilegt að beina spurningum til einhvers annars. Ég hef reyndar, herra forseti, ákveðnar spurningar sem ég óska eftir að hæstv. landbrh. svaraði og ég gæti kannski aðeins teygt mitt mál á einhvern hátt til þess að gefa hæstv. forsrh. örlítinn tíma. (Gripið fram í.)
    Með leyfi forseta væri rétt að vitna í 23. flokksþing framsóknarmanna þar sem Framsfl. lýsir því yfir að hann sé hlynntur markmiðum GATT-samningsins og aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Flokksþing þeirra framsóknarmanna leggur mikla áherslu á að tryggja starfsskilyrði þeirra atvinnugreina sem lenda í aukinni samkeppni í kjölfar meira frelsis í alþjóðaviðskiptum. Eðlilegt er auðvitað að setja þetta fram og þá er spurning hvort Framsfl. stendur við þessi málefni þegar hann er kominn í ríkisstjórn.
    Það er líka athyglisvert sem kemur fram í yfirlýsingu sem Framsfl. setti fram á flokksþingi sínu, með leyfi forseta vitna ég í hana. Þar telur Framsfl. að stórauka eigi þátttöku utanríkisþjónustunnar í viðskiptamálum og að sendiráðum verði beitt af fullum krafti í þágu íslenskrar útflutningsframleiðslu. Þetta líkaði mér ágætlega að sjá, en það vakti athygli mína að nýir starfshættir ættu að verða teknir upp í utanrrn. þar sem menn ætla sér að leggja sérstök próf fyrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar til að kanna hvort þeir geti leyst af hendi þau mál sem þeim eru falin.
    Það er kannski rétt að vitna í auglýsingar sem birtust fyrir kosningarnar og skömmu áður en núv. ríkisstjórnarflokkar náðu saman. Auglýsing Sjálfstfl. var svona, með leyfi forseta:
    ,,Það vill enginn annan framsóknaráratug.`` Þetta var frá Sjálfstfl. Ég velti því fyrir mér hvort lagt er af stað og auðvitað er lagt af stað um leið og fyrstu mánuðirnar eru liðnir, þá er lagt af stað eitthvað áleiðis þó að kannski sé bara rétt verið að þokast áfram.
    Það er rétt að vitna í þessa auglýsingu sem átti að höfða til kjósenda. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Á framsóknaráratugnum urðu gullin tækifæri að fortíðarvanda. Samt var þorskaflinn helmingi meiri en í dag og fiskverð hátt.``
    Þetta eru samstarfsaðilar Sjálfstfl. sem auglýstu svona fyrir kosningar og höfðuðu til kjósenda á þennan máta.
    Ég ætla, herra forseti, að beina spurningum til hæstv. landbrh. úr því að enn bólar ekki á hæstv. forsrh. Ég vil þá segja við hæstv. landbrh. að það er engin spurning í mínum huga að ég er fullur vilja til að verja íslenskan landbúnað af öllum mætti. Í mínu kjördæmi eru áhyggjur mestar af sauðfjárræktarbúum. Bændur eru með tekjur neðan við sultarmörk og í Dalabyggð eiga bændur ekki möguleika á annarri vinnu til að afla sér tekna til framfæris. Það er rétt að geta þeirrar staðreyndar að um það bil 12 bú hafa verið lögð niður á mánuði undanfarin ár það eru um það bil 140--150 bú sem hafa verið aflögð á ári undanfarin ár. Þetta eru hörmulegar staðreyndir sem ég vil vekja athygli á.
    Ég hef trú á því að það sé möguleiki með tíð og tíma og mikilli vinnu að vinna íslenskum búvörum sess á erlendum mörkuðum. En ég vil segja það hér að ef varan heitir umframframleiðsla þá mun alltaf ganga illa hjá okkur að selja vöru á erlendum mörkuðum. Það eru ýmis hugtök sem menn þurfa að tileinka sér og þeir þurfa að taka á. En mér finnst rétt að nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. landbrh. hvað hann hyggst gera varðandi sauðfjárræktina, varðandi það að í haust verður lambakjötsfjall upp á 1.700 tonn. Um það bil 600--800 tonnum er slátrað fram hjá kerfinu af lambakjöti og alls í öllum kjöttegundum fara um það bil 1.500 tonn fram hjá sláturhúsum og inn á íslenskan markað. Hafa menn gert sér grein fyrir því hvað þeir ætla að gera í þessum málum? Er hægt að svör við því hvernig menn ætla að nálgast þetta?
    Ég fagna því að hæstv. forsrh. er kominn í salinn. Mig langar þá að rifja upp á nýtt og spyrja út í það að Sjálfstfl. auglýsti sína stefnu fyrir kosningar, með leyfi forseta:
    ,,Með aðild að nýjum GATT-samningi er innflutningsbann á landbúnaðarvörum fellt úr gildi nema heilbrigðisreglur leiði til annars. Ísland mun, eins og aðrar þjóðir, tryggja að neytendur njóti góðs af þessum breytingum og íslenskur landbúnaður njóti sambærilegs aðlögunartíma og erlendur landbúnaður í samræmi við GATT-samninginn.``
    Ég vil sýna hæstv. forsrh. þessa auglýsingu sem ég gerði að umtali áðan þar sem Sjálfstfl. auglýsir að enginn vilji enginn annan framsóknaráratug. Og ég vil þá spyrja: Er það þá leiðin að velja sér framsóknarmenn sem samstarfsaðila? Eða felast í þessu fyrirheit að það verði aðeins fjögurra ára tímabil sem hæstv. forsrh. hugsar sér að starfa með Framsfl.?
    Mig langar að beina spurningu til hæstv. forsrh.: Hefur verið skoðað að einhverjar vörur í 3--5% heimiluðum innflutningi, mjólkur- eða kjötvörur, verði á sama eða lægra verði en vörur framleiddar á Íslandi þegar samningurinn gengur í gildi? Og þá vil ég spyrja í framhaldi af því: Ef ekki, verða einhverjar slíkar vörur á lægra eða sambærilegu verði og landbúnaðarvörur framleiddar á Íslandi að sex árum liðnum miðað við núverandi verðlag?
    Þetta vil ég spyrja hæstv. forsrh. í framhaldi af því að ég sýndi fram á vilja íslensku þjóðarinnar í skoðanakönnun frá DV til þess að auka frelsi í innflutningi landbúnaðarvara. Ég reikna með því að íslenskir neytendur vænti þess að þær vörur séu á sambærilegu verði og þær vörur sem boðið er upp á á íslenskum markaði, af íslenskum framleiðendum. Í því ljósi hygg ég að fólk hafi svarað á þennan veg.
    Mig langar að koma örlítið meira inn á landbúnaðarmálin og GATT-samninginn.
    Landbúnaðurinn stendur á þeim tímamótum að við sjáum fram á aukna samkeppni erlendis frá. Það er alveg ljóst. Og okkur er gert skylt samkvæmt þessum alþjóðasamningi að minnka umtalsvert stuðning við landbúnað, hvort sem það er beinn stuðningur eða markaðsstuðningur. Í því alþjóðlega umhverfi sem við nú lifum í verður ekki komist hjá því að krafa neytenda er að landbúnaðarafurðir hér á landi verði á sambærilegu verði og annars staðar í heiminum. Það er þetta sem ég var að reyna að koma að og þess vegna beindi ég mínum spurningum til hæstv. forsrh.
    Það er líka, herra forseti, rétt að fara nokkrum orðum um hvað GATT-samningurinn raunverulega er. Með samþykkt um fullgildingu samnings um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar höfum við Íslendingar gengist við því að það er bannað að banna. Það er ekki lengur hægt að banna innflutning á landbúnaðarafurðum nema vísindalega sé sannað að innflutningur geti valdið smit- eða sjúkdómahættu. Í stað innflutningsbanns á landbúnaðarafurðir verða settir á tollar sem samsvara mismun á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði á viðmiðunartímabilinu sem voru árin 1986 og 1988. Megininntak GATT-samningsins hvað varðar landbúnaðarmál er að öll afskipti hins opinbera af landbúnaði skuli ekki tengjast framleiðslumagni. Afskipti sem tengjast framleiðslumagni eru markaðstruflandi og hamla þannig gegn eðlilegum viðskiptaháttum.
    Það eru þrjú atriði í samningunum sem hafa mest áhrif á íslenskan landbúnað. Það er í fyrsta lagi markaðsstuðningur, í öðru lagi innanlandsstuðningur og í þriðja lagi útflutningsstyrkir. Samkvæmt GATT-samningnum skal sá markaðsaðgangur tryggður sem var fyrir hendi á viðmiðunartímabilinu 1986--1988 og tollar settir á innflutta vöru sem nemur mismun á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði á viðmiðunartímabilinu. Þessir tollar skulu lækka á sex árum að meðaltali um 36%, en þó aldrei minna en 15% í hverjum vöruflokki. Ísland hefur þegar náð þessu marki og þarf því ekki að lækka tolla á landbúnaðarafurðum meira en orðið er frá viðmiðunartímabilinu. Lágmarksaðgangur á lægri tollum sem verður 32% að hámarki verður á 3% af magni af innanlandsneyslu á viðmiðunartímabilinu sem mun aukast um 5% á næstu sex árum. Það er þetta sem við höfum verið að ræða hér í dag.
    Þetta eru einmitt þau vandamál sem við erum að takast á við og það er þess vegna sem ég er að spyrja þeirrar spurningar sem ég setti fram fyrir hæstv. forsrh. og fyrir hæstv. landbrh. því að þessi mál eru svo nátengd.
    Ég vil gera að umræðuefni grundvallarbreytingar á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar sem hljóta að fylgja í kjölfar GATT-samningsins. Nýi GATT-samningurinn mun hvetja íslensk stjórnvöld sem og önnur til að draga úr aðstoð og öllum markaðstruflandi aðgerðum sem hindrað hafa eðlilega viðskiptahætti með landbúnaðarvörur. Ástæðan fyrir því að stjórnvöld margra landa styrkja landbúnað er af sömu hvötum og annan iðnað, þ.e. til að hindra verulega fækkun í greininni sem þýða mundi aukið atvinnuleysi.
    Ég vil vekja athygli hv. þm. á þeirri staðreynd sem ég setti fram áðan að það hefur fækkað um það bil 140--150 búum á landinu á undanförnum árum. Við því þurfum við að bregðast á einhvern hátt og

það er þess vegna sem ég er að ræða um þetta starfsumhverfi. Það getur verið réttlætanlegt að styrkja ungar greinar tímabundið til að þær geti fest sig í sessi og náð fótfestu á viðkomandi markaði en sé greinin styrkt til lengri tíma með markaðstruflandi aðgerðum þá verður styrkjakerfið smátt og smátt hluti af kerfinu eins og því miður hefur gerst með íslenskan landbúnað. Það er best að landbúnaðarvörur sem og aðrar vörur lúti sem mest markaðslögmálum og að markaðurinn sé notaður á réttan hátt til þess að miðla upplýsingum milli neytenda og framleiðenda í formi verðs. Uppbygging landbúnaðarkerfisins er með þeim hætti að stuðningurinn verkar í rauninni sem fleygur á milli neytendaverðs og framleiðsluverðs.
    Það er hægt að fara mörgum orðum um hvaða áhrif GATT-samningurinn hefur frekar á íslenskan landbúnað og á íslenska neytendur. En ef það er staðreyndin, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson lagði hér fram, að engar innfluttar landbúnaðarvörur verði á sambærilegu verði og íslenskar vörur þá verður enginn innflutningur. Það er alger og hrein staðreynd og ég tek undir það og ég hygg að neytendur hafi reiknað með þegar þeir voru spurðir að varan yrði a.m.k. sambærileg.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í það beint að ræða þetta mjög mikið en það væri kannski rétt að velta fyrir sér hver áhrif yrðu af því að afnema framleiðslutengdar beingreiðslur og framleiðslutakmarkanir í nokkrum orðum. Þetta mundi þýða grundvallarbreytingar í íslenskum landbúnaði og á rekstrarumhverfi hans. Með þessu færðumst við nær því að láta markaðsöflin ráða með því að taka burtu þann fleyg, sem stafar af beingreiðslum, sem áður var rekinn milli verðs til framleiðenda og verðs neytenda. Það þarf að leiðrétta ójafnvægi sem stafar af framleiðslutengdum beingreiðslum til bænda og sem skekkt hafa verð á markaði. Ef ekki nyti við styrkja væri verðlag eitthvað hærra að sjálfsögðu og framleiðslan minni ef gefin væri sú forsenda að markaður fyrir innflutning á flestum landbúnaðarvörum væri lokaður eins og í dag.
    Stefnumál Alþfl. fyrir kosningarnar. Ég tel rétt að vekja athygli á því að Alþfl. vill, og hefur sett fram í ítarlegu máli, taka upp nýja stefnu í málefnum landbúnaðarins. Kjarni þeirrar stefnu er að auka frjálsræðið við framleiðslu landbúnaðarvara, auka samkeppni vinnslustöðva og lækka verðlag til neytenda. Stuðningur stjórnvalda við landbúnaðinn má ekki leiða til miðstýringar og markaðsstýringar. Hin mikla miðstýring í landbúnaðarmálum er bændum fjötur um fót í samkeppni um hylli neytenda. Hún kemur í veg fyrir hagræðingu og hún skerðir kjör bænda til lengdar og leiðir til of hás verðlags.
    Það er rétt að minna á mjög athyglisverða grein sem birtist laugardaginn 11. febrúar sl. þar sem Gunnar Einarsson og Guðrún Kristjánsdóttir, bændur á Daðastöðum, skrifuðu um skipulagða fátækt. Gagnrýni þeirra beindist einkum harðlega gegn því stjórnkerfi sem stuðst er við í hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu, svo sem framleiðslu og sölu á mjólk og kindakjöti. Þau sögðu, með leyfi forseta, í þessari grein:
    ,,Ef við horfum til baka er enginn vafi á að við sauðfjárbændur stæðum betur í dag ef meginreglur verslunar og viðskipta hefðu ráðið skipulagi og sölu. Ef við horfum til framtíðar með innflutning og harðnandi samkeppni í huga getur það fyrirkomulag sem nú viðgengst alls ekki gengið.``
    Sjónarmið sem þessi eiga vaxandi fylgi að fagna meðal bænda og við alþýðuflokksmenn fögnum því og við viljum samvinnu við bændur til þess að stuðla að nauðsynlegum úrbótum í þessum efnum.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega í gegnum einstaka liði eða einstakar greinar frv. sem hér um ræðir, en mér þætti vænt um að fá svör við þeim spurningum sem ég beindi til hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. vegna þess að svör þeirra gilda miklu, svar hæstv. forsrh. við því hvort það hafi raunverulega verið athugað hvort einhver vara verður í upphafi tímabilsins á sama verði eða lægra en íslensk framleiðsla og ef ekki, hvort nokkur vara að liðnum sex árum, íslenskt framleidd, verði á sama verði eða lægri miðað við núverandi verðlag á íslenskum vörum. Enn fremur vil ég ítreka spurningu til hæstv. landbrh. varðandi þau vandamál sem eru um 600--800 tonna framhjáslátrun í lambakjöti og alls 1.500 tonn í öllu kjöti í landinu. Þetta eru staðreyndir sem blasa við á sama tíma og við verðum væntanlega með 1.700 tonna birgðasöfnun á lambakjöti í haust.