Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 18:41:59 (342)

[18:41]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Sú spurning sem hv. þm. vakti aftur í lok máls síns er allt of viðamikil til þess að ætla að svara henni í andsvari, en ég vil minna á það sem ég sagði áðan að ég óska eftir því að Alþingi afgreiði frv. til breytinga á búvörulögunum á þessu þingi. Þá verður aðstaða og réttur vettvangur til að ræða betur þau vandamál sem hv. þm. minnir á. Ég gat um það áðan í ræðu minni að sauðfjárræktin ætti við mikinn vanda að glíma sem öllum er ljós. Menn hafa fylgst með því og sjá hvað er að gerast, samdráttur í neyslu, minnkandi bú, versnandi afkoma. Viðbrögðin við því kjötmagni sem kann að vera á svokölluðum svörtum markaði er náttúrlega enn annað mál og kannski ekki hægt að ímynda sér að á því séu einhverjar patentlausnir en breyting á viðhorfi manna til þess gæti hugsanlega fylgt breytingum á búvörusamningum sem kunna að vera í farvatninu og hvernig tekið verður á málefnum sauðfjárræktarinnar almennt og þá auðvitað með þetta mál til hliðsjónar.
    Hv. þm. vitnaði ofurlítið í flokksþingsályktanir okkar framsóknarmanna frá 23. flokksþingi og ég held að þar sé ekkert að finna annað en það sem má sjá stað í því sem er að gerast hér og nú. Hann vitnaði til þess að flokkurinn væri hlynntur markmiðum GATT-samninganna og aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og það þyrfti að stórauka þátt utanríkisþjónustunnar, sendiráða og annarra í markaðsmálum. Ég tel að það þurfi mjög að leggja áherslu á markaðsmálin einmitt erlendis og við eigum auðvitað að nýta okkur utanríkisþjónustuna eins og hægt er í því efni og ég treysti núv. utanrrh. til þess að fylgja þessari ályktun Framsfl. eftir.