Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 18:45:39 (344)


[18:45]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er ekki tími í andsvari til þess að svara ítarlegum spurningum hv. þm. eða gera ítarlega grein fyrir því hvað sé fram undan í sambandi við aðgerðir varðandi vanda sauðfjárbænda. En ég nefni aftur að sú umræða er þegar í gangi. Það eru þegar viðræður í gangi við fulltrúa Bændasamtaka Íslands og aðild að því af hálfu stjórnvalda eiga auk landbrn. bæði fjmrn., Byggðastofnun og viðskrn. Það er því þegar verið að skoða þessi mál og hvernig aðkoma stjórnvalda getur verið að því í nýju formi eða öðru eða breyttu formi frá því sem verið hefur því eins og hv. þm. sagði í lokin þegar hann vitnaði til Ara Teitssonar, formanns Bændasamtakanna, þá blasir að öllu óbreyttu við veruleg skerðing á framleiðslurétti. Ég hef ekki séð þessa tölu um 30%, ég held að það sé kannski nokkuð mikið og ég held að það sé kannski ekki haft eftir formanninum heldur það að samdráttur í neyslu fyrstu þrjá mánuði þessa árs var 30%. Það segir ekki að það sé það sem blasir við í haust en skerðingin verður vafalaust mikil. Ef hún verður óbreytt, ef ekki verður nein breyting á lögum, það þarf að ákveða heildargreiðslumark að óbreyttum lögum og óbreyttum búvörusamningi 15. sept., þá blasir ekkert annað við en alvarlegur samdráttur, alvarleg skerðing. Ef hún á að koma eins og áður flöt á alla þá er það ekki góð lausn á málinu.