Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 13:57:20 (352)


[13:57]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil einungis nota þetta tækifæri til að upplýsa það að á vegum Evrópuráðsins hefur um nokkurt skeið verið unnið að sáttmála um það sem ég held að sé kallað á íslensku lífsiðfræði og eftir því sem ég best veit er sá sáttmáli tilbúinn. Ísland hefur átt fulltrúa í nefndinni. Hann kemur frá heilbrrn. og heitir Örn Bjarnason læknir. Eftir því sem ég best veit þá er búið að leggja blessun yfir þennan sáttmála af Evrópuráðsþinginu en mér er ekki kunnugt um hvort ráðherranefnd Evrópuráðsins hefur gengið frá málinu endanlega eða hvort búið er að undirrita sáttmálann. Kannski getur hæstv. umhvrh. upplýst okkur um það.
    Það er því verið að vinna að þessu mjög svo mikilvæga máli og auðvitað brýnt að það sé tekið á því. Ég hef ekki kynnt mér þennan sáttmála nægilega vel. Ég hef aðeins fylgst með umræðum um sáttmálann og hann snýr að rannsóknum og meðferð hvers kyns bæði erfðaefna og fósturvísa og slíkra hluta. Þannig að það er verið að vinna að þessu og ég vil beina því til nefndarinnar að hún kynni sér hvernig þau mál standa og hvernig hægt er að nýta þennan sáttmála í tengslum við þetta mál.