Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:00:55 (354)


[14:00]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Austurl. um spjallið í Evrópuráðinu minni ég á að þeir sáttmálar sem menn koma sér saman um og eru formlega undirritaðir binda auðvitað viðkomandi ríki að fylgja þeim. Við vorum m.a. viðstödd undirritun á nýjum sáttmála um réttindi minnihlutahópa í apríl sl. þar sem Ísland var í hópi þeirra þjóða sem undirrituðu hann. Mér kemur ekki annað til hugar en að meiningin sé að fylgja þeim sáttmála eftir eins og reyndar öðrum þó að það sé hlutverk okkar þingmanna að fylgjast með því að framkvæmdarvaldið geri það. Mér finnst því að við eigum að taka alla slíka sáttmála mjög alvarlega. Mikil vinna er lögð í þá og þarna koma að nánast allar þjóðir Evrópu þó að reyndar séu nokkrar þeirra enn þá utan Evrópuráðsins enn þá. Ég tel að sáttmáli af þessu tagi hafi mikla þýðingu og það eigi einmitt að hugleiða hvort ekki beri að lögbinda hann.