Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:02:04 (355)


[14:02]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það skal enginn skilja orð mín þannig að ég vilji gera lítið úr þeim sáttmálum sem Evrópuráðið samþykkir, síður en svo. Það er allt saman góðra gjalda vert. En hitt er rétt að hafa í huga, þ.e. hinn stóra mun á því sem þar er verið að samþykkja með almennum ákvæðum og hitt sem er spurningin um að lögtaka. Ef við lítum til Evrópusambandsins, sem er sá réttur sem við höfum innleitt hér í mjög ríkum mæli, þá er ansi veikur grunnurinn undir mörgu af því sem varðar þessi ekki alveg beinhörðu hagsmunalegu atriði, þ.e. framleiðslu, vöruframleiðslu og vörudreifingu. Menn þekkja hversu höllum fæti umhverfisvernd stendur í Evrópuréttinum, hvernig varan hefur forgang á flestum sviðum og hvernig dómar hafa fallið innan Evrópudómstólsins. Hið stóra áhyggjuefni í réttarþróun Vestur-Evrópu um þessar mundir er hvernig fjórfrelsið í Evrópurétti keyrir yfir önnur gildi.