Skipulag ferðamála

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:39:06 (361)


[14:39]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um skipan ferðamála. Aðdragandi málsins er sá að unnið hefur verið að loftferðasamningi milli Íslands og Bandaríkjanna og er hann raunar á lokastigi. Sams konar samningur hefur verið gerður við átta önnur ríki Evrópu, Sviss, Lúxemborg, Noreg, Svíþjóð, Austurríki, Belgíu, Finnland og Danmörku.
    Samningurinn felur í sér margar mikilvægar breytingar frá núverandi loftferðasamningi ríkjanna, t.d. aukin flugréttindi, frelsi til leiguflugs og frelsi í ákvörðun far- og farmgjalda. Samningurinn hefur auk þess að geyma ákvæði sem lúta að viðskiptum um viðskiptafrelsi. M.a. hafa flugfélög beggja samningsaðila rétt til að opna skrifstofur sem selja farmiða með viðkomandi flugfélögum. Til að svo megi verða hér á landi er nauðsynlegt að breyta lögum um skipulag ferðamála á þann hátt sem hér er lagt til.
    Samkvæmt 9. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, þarf að fá leyfi samgönguráðherra til hvers konar umboðssölu farmiða, þar á meðal með flugvélum. Samkvæmt sömu lögum, 12. gr., þarf leyfishafi að eiga lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. eitt ár. Ríkisborgarar annarra ríkja EES eru undanþegnir þessu skilyrði. Hér er lagt til að bandarísk flugfélög fái sömu undanþágu og geti stofnað hér ferðaskrifstofu án þess að hafa átt lögheimili hér á landi áður. Íslensk fyrirtæki munu hafa sama rétt í Bandaríkjunum. Í stuttu máli felur þessi samningur það í sér fyrir okkur, sem er mikilvægt, að um leið og hann tekur gildi yrði Flugleiðum heimilt að fljúga til hvaða borgar sem er í Bandaríkjunum svo oft sem þeir kysu við hvaða verði sem þeir kysu og gætu jafnframt millilent í Bandaríkjunum á leið til Mexíkó eða flutt farþega t.d. frá Halifax til Bandaríkjanna ef það þætti fremur henta.
    Þetta mál er einfalt í sniðum en nauðsynlegt til þess að loftferðasamningurinn geti tekið gildi eigi að síður.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn. og vil vænta þess að Alþingi treysti sér til að afgreiða þetta mál en samningurinn liggur nú fyrir þýddur á íslenska tungu.