Sóttvarnalög

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 15:04:31 (364)


[15:04]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. sóttvarnalaga. Forsaga frv. er sú að í október 1988 skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd embættismanna og sérfræðinga sem fékk það verkefni að endurskoða sóttvarnalögin frá 1954, farsóttalögin frá 1958 og ýmis sérlög um varnir gegn tilteknum smitsjúkdómum, svo sem berklavarnarlög frá 1939, lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978, með síðari breytingum, og lög um varnir gegn holdsveiki frá síðutu aldamótum.
    Nefndin skilaði fullbúnu frv. til sóttvarnalaga ásamt fylgiskjölum í september 1989 og var frv. lagt fram óbreytt frá tillögum nefndarinnar á 112. löggjafarþingi. Frv. náði ekki fram að ganga. Haustið 1990 endurskoðaði farsóttanefnd frv. m.a. með hliðsjón af þeim umsögnum sem borist höfðu Alþingi. Meiri hluti nefndarinnar gerði tillögur um nokkrar breytingar á frv. og var það lagt fram í þeirri mynd sem meiri hluti nefndarinnar var sammála um á 113. löggjafarþingi frá 1991. Frv. náði ekki fram að ganga.
    Frv. var enn lagt fram á 115. löggjafarþingi, nánast óbreytt frá því sem það var lagt fram á 113. löggjafarþingi að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir í þessu frv. að kostnaður vegna sóttvarna verði greiddur eins og annar sjúkrakostnaður.
    Á 116. löggjafarþingi var frv. lagt fram í fjórða sinn óbreytt frá 115. löggjafarþingi að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir gildistöku 1. janúar 1994. Frv. náði ekki fram að ganga.
    Enn vill heilbr.- og trmrh. freista þess að leggja fram og fá samþykkt frv. til nýrra sóttvarnalaga. Tvær breytingar hafa verið gerðar á frv. frá 116. löggjafarþingi. Annars vegar er það sett í hendur ráðherra að ákveða hver sé skipaður formaður sóttvarnaráðs og er það í samræmi við 1. útgáfu frv. Hins vegar er betur tryggð réttarstaða smitaðs sem vill ekki gangast undir meðferð sem sóttvarnalæknir eða héraðslæknir metur nauðsynlega. Þessi síðarnefnda breyting á frv. er gerð að fengnum ábendingum dóms- og kirkjumrn. um annmarka þessa fyrirkomulags sem var á eldri frumvarpsgerðinni.
    Með frv. þessu er gerð tillaga um rammalöggjöf þar sem sameinuð eru í ein lög ákvæði um farsóttavarnir, sóttvarnir og varnir gegn tilteknum smitsjúkdómum. Hér er fylgt fordæmi annarra nágrannaþjóða okkar, svo sem Norðurlanda og Bretlands. Verði frv. að lögum mun það hafa í för með sér umtalsverða lagahreinsun þar sem gert er ráð fyrir að a.m.k. sjö lög falli úr gildi við setningu laganna. Tvenn lög um holdsveiki sem eldri frumvörp gerðu ráð fyrir að felld yrði úr gildi voru felld úr gildi með sérstökum lagahreinsunarlögum sem Alþingi samþykkti ekki alls fyrir löngu.
    Frv. til sóttvarnalaga skiptist í fimm kafla. Í I. kafla eru skilgreiningar. Í 2. gr. er skilgreint hvað er átt við með smitsjúkdómi en það er sjúkdómur eða smitun sem örverur, eiturefni (toxín) þeirra eða sníkjudýr valda. Í 1. gr. er fjallað um sóttvarnir sem annars vegar skiptist í almennar sóttvarnir, sem ávallt skal beita, og hins vegar opinberar sóttvarnir sem grípa skal til vegna hættulegra smitsjúkdóma. Samkvæmt frv. er nýjum sóttvarnalögum ætlað að ná til smitsjúkdóma sem valdið geta farsóttum og ógnað almannaheill og annarra almennra næmra sótta. Með reglugerð skal ákveða hvað smitsjúkdómar eru skráningarskyldir. Síðan er gert ráð fyrir að tilkynningarskyldir skuli þeir skráningarskyldu smitsjúkdómar sem geta ógnað almannaheill. Ráðherra ákveður að fengnum tillögum sóttvarnaráðs hvaða smitsjúkdómar eru tilkynningarskyldir.
    Með frv. er fskj. með flokkum smitsjúkdóma eftir meginsmitleiðum. Þar eru smitsjúkdómar flokkaðir annars vegar sem skráningarskyldir samkvæmt reglugerð og hins vegar sem tilkynningarskyldir. Fylgiskjalið gefur því vísbendingar um efni þeirrar reglugerðar sem ráðherra var heimilt að setja skv. 3. gr. frv. Skrá yfir skráningarskylda smitsjúkdóma verður með þeim hætti að persónueinkenna sjúklinga verður ekki getið en skrá yfir tilkynningarskylda smitsjúkdóma verður einstaklingsbundin.
    Í II. kafla frv. er fjallað um yfirstjórn sóttvarna. Gert er ráð fyrir að ábyrgð á sóttvörnum verði áfram hjá embætti landlæknis. Samkvæmt gildandi lögum eru héraðslæknar sóttvarnalæknar hver í sínu héraði og auk þess skulu sóttvarnanefndir starfa í öllum kaupstöðum og er tollstjóri á hverjum stað formaður. Í ljósi gerbreyttra samgangna þykir eðlilegt að leggja sóttvarnanefndir niður. Á hinn bóginn þykir nauðsynlegt að hjá embætti landlæknis verði ráðinn til starfa sérstakur læknir, sóttvarnalæknir, sem hefur sem aðalstarf að vinna að sóttvarnamálum. Þetta er talið nauðsynlegt til að tryggja eðlilegt samræmi í sóttvörnum um landið allt. En að sjálfsögðu bera héraðslæknar eftir sem áður ábyrgð á sóttvörnum hver í sínu héraði undir yfirstjórn sóttvarnalæknis og heilsugæslulæknar og aðrir læknar eftir því sem við á.
    Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að sérstakt sóttvarnaráð verði sett á laggirnar til að móta stefnu í málum sóttvarna og vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.
    Í III. kafla fjallað um almennar sóttvarnaráðstafanir og eru ákvæði þar að mestu í samræmi við gildandi löggjöf.
    Í IV. kafla er fjallað um opinberar sóttvarnaráðstafanir og viðbrögð við yfirvofandi farsóttum. Opinberar sóttvarnaráðstafanir eru t.d. ónæmisaðgerðir, einangrun smitaðra, sótthreinsun, afkvíun byggðarlaga eða landsins alls, lokun skóla eða samkomubann. Skal ráðherra ákveða til hvaða aðgerða er gripið að tillögum sóttvarnaráðs. Í 14. og 15. gr. frv. er nánar fjallað um aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits hjá einstaklingum og er þar einkum fjallað um aðgerðir þegar smitaðir samþykkja ekki að fylgja reglum um umgengni. Í þeim tilfellum er heimilt gegn vilja smitaðs að einangra hlutaðeiganda. Í þeim tilfellum skal bera ákvörðunina skriflega undir dómstólinn innan tveggja sólarhringa. Dómari kveður síðan upp úrskurð um hvort einangrun skuli haldast eða hún falli niður. Einangrun má ekki vara lengur en 15 sólarhringa í senn en ef sóttvarnalæknir telur nauðsynlegt að hún vari lengur skal hann að nýju bera kröfu um slíkt undir héraðsdóm. Með þessum ákvæðum er réttarstaða smitaðs tryggð mun betur en samkvæmt gildandi lagaákvæðum.
    Í V. kafla frv. er ákvæði um göngudeildir vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma, aðstöðu vegna einangrunar hugsanlegs smitbera og ábyrgð á greiningu örvera eða sníkjudýra, sbr. 16. gr. Er jafnframt í 17. gr. kveðið á um kostnað vegna sóttvarna og skal hann greiðast eins og annar sjúkra- og lækniskostnaður og greiðsluhluti sjúklinga fylgja almennum reglum um það efni. Heimilt er þó að undanskilja greiðsluhlutdeild sjúklinga sem boðaðir eru til skoðunar vegna leitar að smitberum.
    Vegna umsagnar fjárlagaskrifstofu fjmrn. tek ég fram að það er ekki tekið tillit til þess að vísir að göngudeildum eins og frv. gerir ráð fyrir er þegar fyrir hendi. Sömuleiðis munu ýmis sérgreind embætta lækna leggjast niður. Við kostnaðarmat er ekki tekið tillit til þess. Ég tel því mat fjárlagaskrifstofu fjmrn. vegna frv. sé allnokkuð of hátt.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú í nokkuð ítarlegu máli fjallað um frv. til sóttvarnalaga. Ég tel að hér hafi vel tiltekist um að endurskoða einfalda löggjöf um smitsjúkdóma og sóttvarnir og flestir eru sammála um að löngu er tímabært að gera breytingar á lagaákvæðum okkar í samræmi við breytta tíma. Nýleg reynsla í Afríku vegna svonefndrar ebóla-veiru hefur sýnt okkur að ætíð þarf að vera vel á verði vegna smitsjúkdóma og viðbragða við þeim. Það er von mín að þetta frv. fái jákvæðar undirtektir á Alþingi og að það fái afgreiðslu nægilega fljótt til þess að það geti gengið í gildi eins og gert er ráð fyrir í ársbyrjun 1996.
    Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði afgreitt til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.