Opinber fjölskyldustefna

12. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 10:34:36 (369)

[10:34]
     Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af ári fjölskyldunnar árið 1994 var starfandi hér á landi landsnefnd um ár fjölskyldunnar. Nefndin var skipuð árið 1991 og setti hún sér m.a. það markmið að vinna að gerð opinberrar fjölskyldustefnu. Nefndin var skipuð fulltrúum 30 félagasamtaka og skilaði hún lokaskýrslu og tillögum til félmrh. í upphafi árs 1995. Í kjölfar tillagna nefndarinnar lagði fyrrv. félmrh., Rannveig Guðmundsdóttir, fram þáltill. á Alþingi skömmu fyrir kosningar en hún fékkst ekki rædd í þinginu sökum þess hve seint hún var lögð fram. Í lokaskýrslu landsnefndarinnar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að í þáltill. felist viðurkenning á fjölskyldunni sem grunneiningu íslensks samfélags og því beri stjórnvöldum á hverjum tíma að marka sér opninbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Opinber fjölskyldustefna hafi það markmið að styrkja og styðja fjölskylduna til að sinna hlutverki sínu í nútímasamfélagi og spannar innihald fjölskyldustefnu nánast öll viðfangsefni opinberrar stjórnsýslu.``
    Þá lagði landsnefndin til að ráðherra beitti sér fyrir fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 um jafna möguleika og jafnrétti til handa konum og körlum í atvinnu, starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Samþykktin tekur til vinnandi karla og kvenna sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum og öðrum nánum vandamönnum þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama atvinnulífinu. Samþykktin tekur til allra greina atvinnulífsins og er megininntak hennar að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð að sinna atvinnu sinni án þess að verða fyrir mismunun að svo miklu leyti sem því er mögulegt án árekstra milli atvinnu þess og fjölskylduábyrgðar. Yfir 20 lönd hafa fullgilt samþykktina, þar á meðal alls staðar á Norðurlöndum fyrir utan Ísland og Danmörk.
    Tillaga um þetta efni var ekki lögð fyrir Alþingi í vor og því spyr ég hæstv. félmrh.:
  ,,1. Hyggst ráðherra fylgja eftir tillögum landsnefndar um ár fjölskyldunnar 1994 um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar ?
    2. Hyggst ráðherra fylgja eftir tillögum sömu nefndar um að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð?``