Opinber fjölskyldustefna

12. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 10:37:11 (370)

[10:37]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort tillagan verði flutt óbreytt. Ég mun fara nákvæmlega yfir hana og hafa samráð við ýmsa aðila og m.a. nýtt Jafnréttisráð. Það kann að vera að eitthvað vanti og það kann líka að vera að einhverju sé ofaukið. En ég hef áhuga á því að flytja mál af þessu tagi og þá í því skyni að það verði að ályktun Alþingis, ekki bara leggja það fram rétt fyrir kosningar þegar vonlaust er að það nái afgreiðslu.

    Ég get upplýst að mér er sérstök ánægja að flytja mál af þessu tagi því að Framsfl. hefur fortíð í málefnum fjölskyldunnar. Fyrsta tillagan um málefni fjölskyldunnar, sem flutt var á Alþingi, var flutt árið 1980. Það var tillaga um fjölskylduvernd og flutningsmenn voru þáv. hv. þm. Haraldur Ólafsson og Alexander Stefánsson. Síðan fluttu þeir ásamt Níelsi Árna Lund á þinginu 1981--1982 tillögu um stefnumörkun í fjölskyldumálum. Hvorug þessi tillaga náði afgreiðslu. Þessir brautryðjendur hafa kannski verið á undan sinni samtíð og vonandi tekst mér að framkvæma ætlunarverk þeirra þó að það sé hálfum öðrum áratug síðar.
    Síðari liðurinn fjallar um fullgildingu alþjóðasamþykktar ILO nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Hvað eftir annað hefur komið til umræðu að fullgilda þessa samþykkt og nú síðast í síðustu ríkisstjórn. Þáv. hæstv. félmrh. vildi beita sér fyrir fullgildingu samþykktarinnar samkvæmt 50 ára venju en þau gögn sem ég hef í höndum sýna að þáv. hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, taldi það vera í verkahring utanrrn. að flytja málið. Mér hefur ekki unnist tími til að kanna hvort enn þá er ágreiningur við utanrrn. og fyrsta atriðið er að fá botn í það mál. Mismunandi sjónarmið hafa komið fram meðal aðila vinnumarkaðarins og ágreiningurinn er fyrst og fremst varðandi fullgildingu og framkvæmd á 8. gr. samþykktarinnar en samkvæmt henni skal aðildarríki tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar.
    Miðað við aðstæður hér á landi telst fullgild trygging að mati Alþjóðavinnumálastofnunarinnar annaðhvort ákvæði í kjarasamningum eða setning laga. Ráða má af afstöðu samtaka atvinnurekenda að stjórnvöld verði að setja lög til að hrinda í framkvæmd ákvæðum 8. gr. samþykktarinnar og í því sambandi getur tvennt komið til álita. Ein leið er að endurskoða lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, með það að markmiði að taka upp í þau lög ákvæði 8. gr. samþykktar nr. 156 um fjölskylduábyrgð, að hún geti ekki verið ástæða til uppsagnar starfs. Einnig er athugandi að sett verði lög sem almennt fjalli um uppsagnir starfsmanna. Ég er vanbúinn að taka afstöðu til þessa málefnis. Ýmislegt kemur til álita og er erfitt að taka það út úr og fjalla um það án tengsla við aðra þætti vinnumarkaðsmála. Ég vil í þessu sambandi geta þess að á vegum félmrn. er starfandi vinnuhópur sem hefur það hlutverk að fjalla í heild um samskiptareglur aðila vinnumarkaðarins. Hv. fyrirspyrjanda er kunnugt um þetta starf sem því miður lá niðri um skeið en ég hef ákveðið að taka þráðinn upp aftur og vinnuhópnum eru skapaðar þær aðstæður að hann geti sinnt viðfangsefni sínu af krafti og árangur sjáist strax í haust.
    Ég vil ekki útiloka að réttarstaða atvinnurekenda og launafólks hvorra gagnvart öðrum að því er varðar uppsagnir komi til umfjöllunar á vettvangi þessa vinnuhóps.