Frísvæði á Suðurnesjum

12. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 10:58:15 (377)


[10:58]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þessu starfi sé lokið og málið verði til lykta leitt. Þá hlýtur að vera grundvallaratriði sú nefnd sem hefur verið að fjalla um málið ljúki störfum.
    Ég vil að sjálfsögðu auka atvinnulíf á Suðurnesjum og styrkja það með öllum hætti. Hins vegar þýðir ekkert að byggja þar á einhverjum fölskum forsendum eða grunni sem fær ekki staðist eða ala á vonum um að koma á sérstöku svæði sem stenst e.t.v. ekki alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Engum er greiði gerður með því. Það má kannski segja að vandræðagangurinn í kringum það að ljúka störfum nefndarinnar byggist m.a. á því að menn hafa ekki fundið nægilega góða leið til að koma þessu af stað. En vonandi er hún til. Ég bendi líka á að jafnvel þótt boðið sé upp á betri skattameðferð á svæði sem þessu --- við getum tekið sem dæmi að boðið væri upp á 10% tekjuskatt --- þá er tekjuskattur í Bandaríkjunum 34% og bandarískt fyrirtæki sem myndi hugsanlega starfa á þessu svæði þyrfti þá að borga 24% skatt í sínu heimalandi eða í Bandaríkjunum. Margir hafa haldið því fram að sérstakar skattareglur á takmörkuðum svæðum erlendis hafi veikt tekjuöflunarsvæði viðkomandi ríkja vegna þess að til langframa sætti önnur fyrirtæki sig ekki við það í viðkomandi landi að greiða allt aðra skatta en gerist á þessu svæði. Þarna eru því miður margvísleg vandamál en ég tek undir það með fyrirspyrjanda að það er mikilvægt að leiða þetta mál til lykta og tala um það eins og það er en ala ekki langtímum saman á einhverjum vonum sem ekki fá staðist.