Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:06:07 (393)


     [13:06]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Vinur minn, hv. 15. þm. Reykv., nýtur sín greininlega vel í nýju hlutverki. En mér finnst að hann ætti að spara frýjunarorðin í garð annarra þingmanna. Það er ekki nema ár síðan að hann hældi sjálfum sér um fyrir það að hafa skapað þetta banndagakerfi og frambjóðandi Alþfl. í Norðurl. e. skrifaði krókakörlum bréf og sagði: Það á að þakka Alþfl. fyrir að hafa skapað þetta banndagakerfi. Og það var hv. 15. þm. Reykv. sem samdi um þakið á afla krókabáta. Í þessu ljósi, hv. þm., finnst mér staðan vera sú að það fari hálfilla að koma hér og eyða öllum ræðutímanum í frýjunarorð í garð annarra þingmanna. Það er svo stutt síðan að þingmenn Alþfl., undir forustu hv. 15. þm. Reykv., höfðu forustu um þá niðurstöðu sem allir eru sammála um í dag, ári síðar, að þurfi að gera verulega bragarbót á og þingmenn núverandi stjórnarflokka eru að leggja hér fram tillögur um að bæta úr. Við þessar aðstæður ætti hv. þm. ekki að vera með stór frýjunarorð í garð annarra samþingsmanna.