Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:08:44 (395)


[13:08]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla að minna vin minn, hv. 15. þm. Reykv. á að hann eyddi upphafi ræðu sinnar í það fyrst og fremst að gera þingheimi grein fyrir því að það var hann sem beygði sjútvrh. fyrir einu ári síðan til þess að skapa þetta krókakerfi sem allir eru sammála um að nú þurfi að breyta. Og það var frambjóðandi Alþfl. í Norðurl. e. sem skrifaði krókakörlum bréf og sagði: Þið eigið að syngja Alþfl. lof og prís fyrir þann mikla sigur sem við unnum að skapa þessa paradís á jörðu sem krókakerfið er. Og svo á að koma núna og flytja hér ræður með frýjunarorðum í garð annarra þingmanna. Ég bið góða vini mína eins og hv. 15. þm. Reykv. að breyta svolítið um stíl í þessu efni jafnvel þó að honum líki vel veran í

stjórnarandstöðunni. Og ég ætla ekki að verða til þess að stytta það gleðitímabil fyrir hv. þm.