Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:15:56 (402)


[13:15]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú er upprunnin sú stund að hv. 15. þm. Reykv., minn gamli vopnabróðir í slagnum um fiskveiðistjórnarmálin, er mættur til þings með sitt dýrmæta úrklippusafn. En því miður, virðulegi forseti, voðalega fátt annað því að þó að hv. þm. hafi að vísu upplýst okkur um það að á 32 ára námsferli hafi sannarlega tekist að kenna sér að lesa, og ég, virðulegi forseti, get staðfest það hér með að hv. þm. les prýðilega þó að vísu hafi komið fram áðan að hann er ekki mjög vel læs á allt sem stendur í Dagblaðinu, þá var óskaplega fátt annað í ræðu hans. Ég átti satt að segja von á því að hv. þm. hefði einhverjar skoðanir í málinu. Ég tók eftir því fyrr á þinginu að aðrir þingmenn Alþfl. hafa nú tekið upp vörnina í sjávarútvegsmálum fyrir flokkinn en hv. 15. þm. Reykv. Þess vegna var ég að vona að hv. þm. mundi reyna að ná vopnum sínum í 40 mínútna ræðu sinni og sýna það að hann hefði einhverja skoðun í málinu. En því miður, virðulegi forseti, hefur komið á daginn að hv. þm. er vel læs, hv. þm. á úrklippusafn og ég óska honum til hamingju með hvort tveggja.