Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:19:47 (404)


[13:19]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Fljúgast nú þeir á sem síst skyldi þegar hv. þm. Egill Jónsson krefur mig svara og hefur sína kesju á lofti. ( EgJ: Þetta eru bara spurningar.) Já, svarið við fyrri spurningunni er þetta: Spurt er hvort það eigi að flytja afla frá frystitogurunum yfir á bátaflotann. ( EgJ: Og tillögur ræðumanns?) Það er nú svo að stefna Alþfl. lá fyrir í aðdraganda kosninga. Þar sagði m.a. að allur viðbótarkvóti sem kynni að koma á næstu árum, og hæstv. sjútvrh. upplýsti að hann mundi koma innan þriggja ára, ætti að fara yfir á bátaflotann. Hitt er það líka að ég er sammála því stefnumiði sem kemur fram í einu bráðabirgðaákvæði í frv. hæstv. sjútvrh. að gera einmitt þetta því þar er það lagt til. Ég tel reyndar að þar sé ekki gengið nógu langt. En svarið almennt er það að ég tel að það sé fyllilega réttlætanlegt og það er það sem hæstv. sjútvrh. er að gera.
    Varðandi það síðan hvort hækka eigi aflamarkið eða viðmiðunarmarkið hjá krókabátunum ( EgJ: Og hvað mikið?) þá tel ég það koma fyllilega til greina. (Gripið fram í.) Ég vil ekki segja það á þessari stundu, ég hef skrifað um það greinar og ég hef lýst því að það sé í lagi að slaka svolitlu til. Það er ekki mjög mikið en það væri hægt að sannfæra hv. þm. Egil Jónsson um það að 17 þúsund tonna aukning felst

í rauninni í þeim forsendum sem Hafró hefur sjálft lagt upp. Það eru ekki fiskifræðileg rök til þess að mótmæla því að auka úthlutun um það. Ég er ekki að segja að það eigi allt að fara til krókabátanna. Ég tek það líka fram að það eru pólitísk rök sem mæla gegn því e.t.v. en ekki fiskifræðileg.