Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 14:32:55 (407)


[14:32]
     Hjálmar Árnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur fyrir um margt mjög ágæta ræðu og þau sjónarmið sem hún kynnti um krókabáta, um það erum við sammála eins og hún vék að. Hins vegar finnst mér það vera fullmikið ábyrgðarleysi og veldur mér vonbrigðum með jafnágæta konu og hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur hvernig hún hóf sína ræðu. Hún spyr: Hvað hefur orðið um verndun togsvæða? Hvað hefur orðið um togveiðar? Hvað hefur orðið um að efla rannsóknir? Og hún tíndi til fleiri slíka þætti úr áherslubreytingum eins og framsóknarframbjóðendur í Reykjanesi kynntu fyrir kosningar. Hvað hefur orðið um það að setja allan afla á markað?
    Hv. þm. veit að það eru ekki nema rétt um tvær vikur frá því að þing hófst og hv. þm. getur ekki meint það í fullri alvöru að niðurstöður rannsókna liggi fyrir á tveimur vikum. Hv. þm. getur ekki ætlast til þess að jafnmikilvæg ákvörðun og að setja allan afla á markað verði tekin hér í einhverri skyndingu á tveimur vikum þegar samtök sjómanna og samtök útgerðarmanna eru í hörðu verkefalli um það sama. Þannig má áfram telja.
    Ég nefndi það áðan og það hlýtur hv. þm. Kristín Halldórsdóttir að gera sér grein fyrir að svona mál verða ekki afgreidd á einni nóttu. Þetta þarf að gerast varlega. Að þessu er stefnt, hlýtur að vera.