Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 15:25:38 (412)


[15:25]
     Árni M. Mathiesen :
    Herra forseti. Enn einu sinni erum við að fjalla um fiskveiðilöggjöfina og það aðeins ári eftir að við samþykktum í fyrsta skipti löggjöf þar sem ekki var um endurskoðunarákvæði að ræða eða um fyrir fram ákveðnar tímasetningar á gildistíma laganna. Því hefði mátt ætla að þessi löggjöf ætti að geta staðið um einhvern tíma. Hins vegar er það aldrei svo að löggjöfin sé fullkomin og ekki þurfi einhverju í henni að breyta en það hefði mátt ætla að grundvallaratriði löggjafar sem við samþykktum fyrir rúmi ári síðan hefði staðið og gilt enn þann dag í dag.
    Ég hef verið fylgjandi því kvótakerfi sem við höfum að undanförnu byggt á. Ég hef ekki verið fylgjandi því vegna þess að ég telji kvótakerfi í sjálfu sér æskileg heldur vegna þess að ég tel að kvótakerfi sé það eina kerfi sem við getum nýtt okkur til þess að ráða nokkurn veginn við þá stjórnun á fiskveiðum sem við þurfum að ráðast í.
    Ég tel jafnframt að kvótakerfi með eins frjálsu framsali og mögulegt er skapi okkur mest hagræði og ef við stýrum því á þann hátt þá þurfum við enga flotastýringu, þá sé hún ónauðsynleg. Ég, eins og fleiri, hef líka gert mér grein fyrir því að það eru annmarkar á kvótakerfinu og þeir annmarkar verða

mestir hjá þeim sem hafa minnstan kvótann og afla minnst og verða þar af leiðandi fyrir mestri skerðingunni þegar skerða þarf afla. Ég hef þess vegna verið sammála þeim undantekningum sem við höfum gert frá þessu kvótakerfi, annars vegar hvað varðar tvöföldun á afla línubáta yfir háveturinn og hins vegar því krókabátakerfi sem við höfum viðhaft og m.a. gerðum samþykktir um fyrir ári síðan.
    En það hefur reynst erfitt að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem við tókum þá og þá sérstaklega um heildarafla krókabátanna. Það er auðvitað hluti af þeim grundvallarákvörðunum sem við tókum fyrir ári síðan að viðhalda krókakerfinu og viðhalda línutvöfölduninni og þá jafnframt það aflamark sem við settum báðum þessum hópum. Það er vegna þess að þeirri löggjöf sem við samþykktum þá tókst ekki að halda krókabátunum innan þeirra aflamarka sem þá voru sett sem við erum að fjalla um þann flokk sérstaklega að þessu sinni. Við erum hins vegar að fjalla um fleiri atriði þó að krókabátaumræðan sé fyrirferðarmest. Þess vegna vil ég áður en ég fer út í hina neikvæðari hlið þessa frv. nefna þá hluti sem ég tel vera jákvæða og horfa til bóta á því kerfi sem við nú búum við. Þá vil ég fyrst nefna 3. gr. frv. en hún gerir ráð fyrir því að hin svokallaða tvöföldunarregla eða 100% regla, sem taka átti gildi um næstu áramót, falli út og taki ekki gildi á þeim tíma en á þeim tíma fellur líka út bráðabirgðaákvæði, hin svokallaða 15% regla. Ég tel að brottfall þessara tveggja reglna muni auka möguleikana á frjálsu framsali og þar af leiðandi auka möguleikana til hagræðingar og hagkvæmni innan þessa kerfis.
    Ég fagna líka bráðabirgðaákvæði I sem fjallar um 5.000 lesta þorskafla til jöfnunar til þeirra útgerða, báta og skipa sem verst hafa orðið úti vegna kvótaskerðingarinnar en það eru annars vegar smábátar á aflamarki og hins vegar vertíðarbátar á aflamarki og eins ísfisktogarar. Þeir hafa ekki getað nýtt sér þá möguleika að fara út fyrir landhelgina á djúpsjávarmið til þess að nýta skipin og auka afla sinn á þann hátt. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er ekki um mikinn tonnafjölda að ræða sem hægt er að úthluta á hvert skip en þó það sé smátt þá held ég að það skipti samt sem áður máli. En smæðin ræðst af því svigrúmi sem við stöndum frammi fyrir hvað heildaraflamarkið varðar.
    Sú grein sem mest hefur verið fjallað um er 2. gr. Það er sú grein sem fjallar um krókabátana. Eins og fram hefur komið fjallar hún um að veita þeim sem þessar veiðar stunda val um það hvort þeir fara undir sóknarkerfi og heildaraflamark eða halda áfram á banndagakerfinu. Það er orðin mikil umræða um þetta í þjóðfélaginu og innan stjórnarflokkanna og það hefur náðst um þetta málamiðlun eins og sést í frv. Ég verð hins vegar að segja að ég hef miklar áhyggjur af þessu því mér sýnist að það sé verið að umbuna þeim sem hvað harðast hafa sótt og hafa raunverulega komið af stað þenslu í þessum bátaflokki og þenslu í þeirra veiðum. Það eru þeir sem harðast hafa sótt á línu á undanförnum árum. Af þeim tölum sem ég hef þá fæ ég ekki betur séð heldur en að hundrað aflahæstu bátarnir muni taka u.þ.b. einn þriðja af pottinum til sín. Þá eru eftir 1.000 bátar til að skipta hinum tveimur þriðju hlutunum milli sín. Það má auðvitað deila um hvort allir þessir 1.000 bátar séu virkir í veiðunum en ég held að það sé alla vega ljóst að það séu 400--500 bátar sem eru virkir og þeir eiga þá að skipta á milli sín tveimur þriðju hlutum á móti einum þriðja sem aflahæstu 100 bátarnir fá.
    En rökin á móti eru þau að þessir bátar hafa verið að afla nákvæmlega sama aflans á undanförnum árum, þannig að þeir eru ekki fá meira en þeir höfðu áður af heildarhlutnum. En það var bara ekki svo þegar þetta kerfi var sett á fót að það væri ætlunin að úthluta þeim aflamarki. Það áttu allir að fá að sækja í þennan pott og það áttu allir að hafa jafna möguleika. Hvert tonn sem tekið er úr þessum potti og sett undir hámarksaflamarkið rýrir þannig möguleika þeirra sem eftir eru. Það er grundvallarbreyting á því kerfi sem hér er um að ræða.
    Hvað gerist svo í framhaldinu? Hvað munu þeir gera sem sækja í það sem eftir verður? Munu þeir verða hógværir áfram og halda áfram að róa með tvær til fjórar handfærarúllur eða munu þeir fara út í línuveiðarnar eins og hinir sem hafa valið aflamarkið? Hvað gerist síðan? Stöndum við þá ekki frammi fyrir sama vandanum eftir nokkur ár að hópurinn sem eftir er hefur þá skipst aftur upp í tvo hópa eins og við horfum á í dag, þ.e. þeir sem hafa sótt af miklum krafti á línu en hafa ýtt út hinum hógværu sem hafa verið í hinni raunverulegu einstaklings- og einyrkjaútgerð? Þá munum við aftur standa frammi fyrir þessu vandamáli. Þá munum við væntanlega leita til fortíðarinnar og finna fyrirmyndarlausnina í þeirri lausn sem hér liggur frammi hjá okkur. Hvað verður síðan um þetta aflamark sem nú stendur til að úthluta? Það á ekki að verða framseljanlegt en hver verður þrýstingurinn á það í framtíðinni af þeim sem þetta aflamark fá að þeir fái að framselja það alveg eins og aflamarkssmábátarnir og alveg eins og vertíðarbátarnir og ísfisktogararnir og allir hinir?
    Þetta er auðvitað hugarflug inn í framtíðina en ég held að það saki ekki að við veltum þessu fyrir okkur þegar við erum að taka slíkar ákvarðanir. Eitt af því sem hefur komið upp í kollinn á mér til að forða því að við stöndum frammi fyrir þessu aftur er það hvort ekki sé rétt að þeir sem áfram fá að róa í þann pott sem eftir verður einskorði sig við það að róa bara á handfæri, að þannig verði ekki um að ræða aðra línusókn í þeinnan sameiginlega pott. Ég vildi biðja hv. sjútvn. að íhuga þann möguleika.
    Annarri greininni fylgja tvö bráðabirgðaákvæði. Annað er III. bráðabirgðaákvæðið þar sem gert er ráð fyrir að sjútvrh. geti sett á róðrardagakerfi í staðinn fyrir banndagakerfi. Ég held að ef það er eitthvað jákvætt í því sem tengist 2. gr. þá sé það þetta bráðabirgðaákvæði og ég vil leggja ríka áherslu á það við hæstv. sjútvrh. að hann flýti þeirri athugun sem hann á að gera á því hvernig hægt er að koma á sjálfvirku eftirliti með róðrardögum þannig að jafnvel fyrir haustið, áður en nýtt fiskveiðiár tekur gildi, verði

hægt að koma róðrardagakerfi á. Ég held að í öllu falli sé það jákvæðara og hagkvæmara fyrir þá útgerð sem á að sækja áfram í þennan sameiginlega pott.
    Bráðabirgðaákvæði II tengist líka 2. gr. og er ætlað til að aðstoða þær byggðir sem koma illa út úr þeim samdrætti sem óhjákvæmilega mun verða á afla krókabátanna. Það er mjög vandmeðfarið með ákvæði sem þessi. Ég ætla ekki að gera lítið úr því eða neita því að það sé ekki ástæða til að aðstoða einhverjar byggðir á þennan hátt en ég vil beina því til hv. nefndar að hún athugi það gaumgæfilega hvort hún eigi rétt á sér. Og ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að hún eigi það þá vil ég beina því til þeirra sem um málið eiga að fjalla í Byggðastofnun að þeir fari með aflaheimildirnar á réttan og eðlilegan hátt því það er ekkert sem er umdeildara í þjóðfélaginu í dag en það að útdeila aflaheimildum. Þetta eru orð sem falla í fullri vinsemd.
    1. gr. frv. fjallar um úreldingu, bæði á krókabátum og öðrum hluta skipaflotans. Eins og ég sagði í upphafi tel ég úreldingarákvæði eins og þessi óþörf í kvótakerfi sem byggir á frjálsu framsali, en það þarf flotastýringu þegar um er að ræða sóknarkerfi og sóknarmark. En það þarf að gæta hófs í því líka jafnvel þótt um sóknarmark væri að ræða þannig að það kerfi sem við setjum upp útrými ekki heilum útgerðarflokki á tiltölulega stuttum tíma. Það þarf líka að gæta þess að það sé ekki óréttlátt og leiði ekki til þess að þeir sem verða fyrir óhöppum geti ekki endurnýjað sín skip á eðlilegan hátt. Ég vil því beina því til hv. nefndar að hún athugi það hvað krókabátana varðar hvað mundi verða um sjómann sem missti bát sinn, hann annað hvort sykki eða færist í bruna. Hvernig á hann að endurnýja sinn bát? Þarf hann að koma með bát sem hefur einungis 50% afkastagetu á móti þeim báti sem hann tapaði? Mun sjómaðurinn geta tryggt sig fyrir þeim skaða sem hann verður fyrir vegna úreldingarákvæðisins eins og þeim skaða sem hann verður fyrir ef henn missir bátinn, annaðhvort niður eða hann brennur? Þetta eru raunveruleg dæmi sem við horfum á gerast og hafa valdið ýmsum vandræðum í úreldingarkerfinu eins og það er núna.
    Hvað varðar annan hluta flotans, sérstaklega nótaskipin, þá get ég vel séð fyrir mér að þessar nýju úreldingarreglur valdi þar vandkvæðum því að veiðar nótaskipanna sérstaklega á bræðslufiski hafa ekki verið þannig undanfarin ár að þar hafi getað átt sér stað eðlileg endurnýjun og því stendur þessi floti frammi fyrir verulegri endurnýjun á næstu missirum og næstu árum. Ég veit til þess að nú þegar hafa verið gerðir samningar um endurnýjun, breytingar og stækkanir á þessum skipum, byggðar á lögunum eins og þau eru í gildi í dag. Því vildi ég biðja hv. nefnd að skoða það ítarlega hvort gildistökuákvæðin taka nægilegt tillit til þeirra sem þegar hafa tekið ákvarðanir hvað varðar endurnýjun byggðar á þeim lögum sem eru í gildi í dag.
    Ég hef aðeins stiklað á stóru og nefnt hér einstök atriði í frv. sem ég tel vera íhugunarverð. Sum tel ég jákvæð og sum vægast sagt umdeilanleg. En þetta mál fer til hv. sjútvn. til umfjöllunar. Ég treysti því að sú umfjöllun verði vönduð og að út úr þeirri nefnd komi niðurstaða sem við getum eins vel við unað og mögulegt er miðað við þær aflaaðstæður sem við búum við í dag.