Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 15:58:25 (414)


[15:58]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem er til umræðu er ávöxtur samkomulags stjórnarflokkanna sem gekk út á það að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða og öðrum lögum sem tengjast stjórn fiskveiða eins og stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir. Það átti ekki að koma nokkrum manni á óvart að eitt af fyrstu verkum þessarar stjórnar væri að gera tilteknar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem ættu að leiða til þess að staða sjávarútvegsfyrirtækja og þá sérstaklega útgerðarfyrirtækja og þá einkum og sér í lagi útgerðar bátaflotans væri betri eftir en áður.
    Vissulega er það svo, virðulegi forseti, að umræður í þinginu í dag bera nokkurn keim af því að hv. alþingismenn eru að koma út úr kosningabaráttu þar sem umræður um sjávarútvegsmál voru mjög fyrirferðarmiklar. Þær voru mjög víða harðar og erfiðar vegna þess að eins og við vitum vel hefur staðan í mörgum sjávarbyggðum verið erfið vegna þess að það hefur dregið svo mjög úr veiðum og þeim aflaheimildum sem útgerðirnar hafa haft. Allt er þetta eðlilegt, ekki síst að hér er frv. til umræðu sem gerir ráð fyrir tilteknum breytingum.
    Þær breytingar sem frv. felur í sér má segja að séu í fimm meginliðum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að draga úr sóknarmætti flotans með því að breyta endurnýjunarskilyrðum. Ég tel að það sé eðlilegt og með tilvísun til þess sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, benti á þá er það vonum seinna að reynt sé að taka á því að flotinn haldi áfram að stækka, ekki síst sá floti sem veiðir úr krókaleyfispottinum svokallaða sem verður fastur og takmarkaður. Þar er nokkuð stór floti, þ.e. það eru margir bátar í þeim hópi og sóknin getur verið mjög mikil. Þess vegna tel ég í fyrsta máta eðlilegt að þarna sé nokkur rönd við reist og sóknargetan takmörkuð með því að breyta endurnýjunarreglunum og opna fyrir úreldingarstyrki.
    Í öðru lagi er hér um að ræða breytingar á hinu svokallaða banndagakerfi sem ég tek undir að er mjög gallað og getur ekki gengið. Ég vil vekja athygli á því að hæstv. sjútvrh. varaði á sínum tíma mjög við því hvaða afleiðingar gætu orðið af banndagakerfinu og þær hafa vissulega komið í ljós. Hins vegar tel ég og vona að þær tillögur sem hér eru til umfjöllunar séu bráðabirgðaráðstafanir vegna þess að ég held að farsælasta leiðin til þess að stjórna veiðum hinna svokölluðu krókabáta sé sóknardagakerfi og það sé algert neyðarúrræði að setja nokkurs konar kvóta á smábáta. Við þekkjum það að samkvæmt núgildandi lögum eru smábátar settir í tvo flokka, annars vegar aflamarksbátarnir sem hafa vissulega farið mjög illa út úr þessu kerfi öllu saman og svo hins vegar krókaleyfisbátarnir. Ég hefði talið að það væri eðlilegast að slá þessum tveimur flokkum í einn fremur en að búa til í rauninni þriðja flokk smábáta eins og hér er gerð tillaga um.

    Eins og fram hefur komið þá er um málamiðlun að ræða, samkomulag sem ég sætti mig við, en vil engu að síður vekja athygli hv. sjútvn. á því að skoða þetta ákvæði 2. gr. frv. alveg sérstaklega og vekja athygli hv. þm. á því og þá sérstaklega þeirra þingmanna sem eru í sjútvn. að skoða það hvort ekki sé hægt að ganga fyrr til þess að koma á sóknardagakerfi og falla frá því að setja aflahámark á hvern smábát undir 6 tonnum því að ég óttast það, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, að það sé fyrsta skrefið til þess að þessir bátar séu í raun settir á kvóta og næsta skrefið verði að krefjast þess að þessi kvóti verði framseljanlegur. Þá sjá allir hvaða réttlæti er á ferðinni þegar litið er til þess að krókaleyfisbátarnir hafa unnið samkvæmt gildandi lögum á allt öðrum forsendum en þeim að þeir gætu staðið frammi fyrir því að þeir væru að vinna sér inn rétt sem skapaði aflaheimildir sem síðan yrðu framseljanlegar.
    Þetta vildi ég, hæstv. forseti, að kæmi fram í umræðunni og hvet hv. sjútvn. eindregið til þess að skoða þetta mál.
    Í þriðja lagi gengur frv. út á það að deila 5 þús. tonnum yfir á aflamarksskipin önnur en vinnsluskipin. Með þeirri tillögu og með þeim þætti frv. tel ég að sé komið til móts við aflamarksflotann og þá sérstaklega bátaflotann, en tek undir það sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn. fyrr í umræðunni að vissulega er það svo að ísfisktogaraflotinn er ekkert of sæll af sinni stöðu, það er alveg ljóst. Og með því að setja 10 tonna hámark á útdeilingu þessa 5 þús. tonna potts þá er fyrst og fremst komið til móts við vertíðarbáta af minni gerðinni en eftir sem áður standa stærri bátar og togaraflotinn frammi fyrir því að þeir hafa mjög takmarkaðar aflaheimildir í þorski. Hins vegar hefur sá hluti flotans meiri möguleika á því að sækja í aðrar fisktegundir og á það verður að sjálfsögðu að líta. En ég fagna því mjög að það skyldi nást samkomulag um að deila 5 þús. tonnum út til aflamarksskipanna og tel það afar mikilvægt.
    Í fjórða lagi er í frv. í ákvæði til bráðabirgða II Byggðastofnun gert að úthlutað 500 lestum miðað við óslægðan fisk. Þar er um að ræða að setja í lögin um stjórn fiskveiða sérstakt viðfangsefni, verkefni á sviði byggðamála. Þetta er góðra gjalda vert og að sjálfsögðu mikilvægt að reyna að styrkja þær byggðir sem e.t.v. fara verst út úr þessu kerfi en ég hefði talið eðlilegra að staðið væri að byggðaverkefnum með öðrum hætti en þeim að setja þau inn í lög um stjórn fiskveiða. Ég geri hins vegar ekki athugasemd við þetta en hlýt að vekja athygli á því að það fer ekki beint vel á því að lögin um stjórn fiskveiða taki á því eins hér er gert.
    Virðulegi forseti. Í fimmta lagi er ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir því að sjútvrh. skuli flytja frv. um breytingar á 6. gr. laga þessara þar sem sóknardagar að eigin vali útgerða komi í stað fyrir fram ákveðinna banndaga. Þetta tel ég nauðsynlegt að hv. sjútvn. skoði mjög rækilega og kanni hvort ekki sé eðlilegast að þetta taki gildi strax og þar verði með einungis einn flokkur smábáta sem sækir úr flokki sem hefur verið nefndir krókaleyfisbátar.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Hún hefur svo vissulega farið fram a.m.k. rækilega innan míns flokks á fundum þingflokksins þannig að það er út af fyrir sig ekki miklu við að bæta þó að það væri að sjálfsögðu hægt að segja margt um lögin um stjórn fiskveiða og stöðuna í sjávarútvegsmálum almennt, en ég vil að þetta komi fram við 1. umr. og hvet hv. sjútvn. til þess að skoða þetta mál mjög vandlega vegna þess að það skiptir geysilega miklu að þær breytingar sem er verið að gera á lögunum um stjórn fiskveiða nái tilgangi sínum.