Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 16:30:39 (421)


[16:30]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sóknarstýring í sjálfu sér felur það vitaskuld í sér að það er ekki verið að dreifa aflahámarki á bát. Það er reynt að stýra sókninni með dögunum. Það er það sem þetta mál snýst um. Allar hugmyndir manna um það lúta að því að við séum að hverfa frá útdeilingu aflaheimilda á hvern bát og taka frekar upp kerfi sem gengur þá út á það að stýra hámarksaflanum með sókninni. Það þýðir ekki það, þó að menn hverfi frá því að vera með útdeilingu aflakvóta og hverfi að því að vera með sóknarstýringu, að síðan ætli menn ekki að hafa neinar áhyggjur af heildaraflanum á miðunum. Ég held að allir séu sammála um það í sjálfu sér að reyna að ganga um miðin af sem mestri skynsemi og þess vegna verður það þannig að hvort sem við notum sóknarstýringu eða flota- og sóknarstýringu sem væri auðvitað hið besta og ákjósanlegasta í stað aflamarks þá eru menn ekki að segja sem svo að menn geti fiskað ótakmarkað. Það er ekki það sem er verið að tala um. Menn eru að tala um það einfaldlega að reyna að hafa heildaraflaviðmiðun fyrir þann flota sem undir þessu kerfi starfar og síðan að stýra því að það sé í sem bestu samræmi við þessa viðmiðun með dagafjöldanum. Þetta er hugsunin í þessu kerfi. Ég veit að það eru margir hv. þm. sem eru ekki sammála því að það sé til staðar sóknarstýring í fiskveiðum. Ég veit t.d. að hv. þm. Stefán Guðmundsson er svarinn andstæðingur þeirra hugmynda. Hann er talsmaður aflamarks þannig að ég veit að honum geðst ekki að því sem ég er að segja. En þetta er samt sem áður einfaldlega sú skilgreining á hugmyndunum um sóknarstýringu gegn aflamarki.