Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:10:27 (428)


[17:10]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Herra forseti. Til þess eru vítin að varast þau. Að því er varðar þessa úthlutun þá er það einfaldlega svo að framsóknarsjónarmiðin urðu ofan á í síðustu ríkisstjórn án þess að Framsfl. ætti þar sæti. Við urðum að una því. Það var hins vegar röng ákvörðun og það á ekki að endurtaka slíkt. Það er fúsk að fela slíkri stofnun slíka úthlutun og ég hélt að menn væru vaxnir upp úr því.
    Hvernig á að leysa vanda smábáta samkvæmt hugmyndum okkar alþýðuflokksmanna? Við viðurkennum vandamálið sem er það að þessir bátar við hliðina á aflamarkskerfi hafa aukið aflahlutdeild sína mjög verulega, úr rúmlega 20.000 tonnum í yfir 35.000 þorskígildistonn. Hvernig á að tryggja að það verði

ekki frekari vöxtur eða á kostnað annarra? Við segjum einfaldlega: Það er ekki nauðsynlegt að gera það með því að setja þá undir kvóta á hvert skip. Það er hægt að viðhalda sóknarkerfinu með róðrardagastýringu eins og hv. þm. eru sjálfir að leggja til. Og til þess að framkvæma það þarf aukið aðhald. Ég legg til t.d. að reynt verði að leggja áherslu á þann mun sem er annars vegar á atvinnumönnum í þessari grein og hins vegar svokölluðum hobbímönnum t.d. með því að beita ákvæðum um lögskráningu sjómanna og með því að fylgja stranglega fram tryggingarákvæðum. Ég efa að þeir sem stunda þetta eingöngu að sumri til mundu sæta slíkum ákvæðum en það er athyglisvert að mjög stór hluti af þeim afla sem þessir bátar bera á land er tekinn að sumrinu.
    Að öðru leyti skora ég á hv. þm. að fylgja fram sínum eigin hugmyndum um eftirlit frá landstöðvum sem þeir segja að sé vel framkvæmanlegt. Þá á þetta að vera gerlegt. Slíkar tillögur ættu að duga í bili. Þær eru náttúrlega aðeins örlítill partur af þeirri heildarendurskoðun sem þarf að fara fram á fiskveiðistjórnuninni.