Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:50:39 (433)


[17:50]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef þurft að gera það nokkrum sinnum og ætla að gera það áfram að leiðrétta hv. 5. þm. Vestf. því hann hefur óskaplega gaman af segja alltaf sömu hlutina upp aftur og aftur. Vegna þess að ég hef verið að basla í því í nokkuð mörg ár að reyna að gera verðmæti úr ákveðinni lindýraflóru við Vestfirði þá þykir honum það óskaplega merkilegt að mér skuli hafa verið afhent einhver sérréttindi sem ætti að vekja tortryggni. En það get ég sagt honum enn einu sinni og öllum að það er til á grundvelli laga nr. 12/1975, laganna um samræmingu veiða og vinnslu, heimildir til þess að láta menn hafa réttindi til þess að setja af stað vinnslu. Ég hef engin sérréttindi eða það félag sem ég er stjórnarformaður fyrir til þess að veiða. Það er rangt, það er bara hrein vitleysa. Það má hver og einn veiða kúfisk hér við land eins og hann vill. Það má hver og einn veiða hann í beitu, það má hver og einn veiða hann til útflutnings og þetta veit hv. þm. mjög vel. Það er bara á grundvelli þessara laga sem ákveðið landsvæði, af því að það er litið á það sem námugröft og tilraun, verður að landa í ákveðna stöð. Þetta var gert einmitt til þess að vernda rækjuiðnaðinn þegar hann var í bernsku. Því miður var því ekki framfylgt, en á grundvelli þessara laga eru þessi réttindi. Þannig eru þau tilkomin og þetta veit þingmaðurinn mjög vel.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég er sjálfstæðismaður og hef alla ævi verið og ég veit það og öll ævi mín hefur sannfært mig um að það er einmitt séreignarrétturinn sem er lykillinn að því að ein þjóð forðar sér frá fátækt. Þetta veit öll Vestur-Evrópa, nærri allur heimurinn þó að einstaka menn liggi hér eftir úti á þessu útnesi trúandi því sem einu sinni var sagt satt, að það ætti að sjá þetta allt í ljóma gullturna hinna eilífu Kremlar. ( SJS: Er ekki allt gott í hófi?) Allt í hófi þó. Ég skora á hv. þm. að finna því nokkurn stað í orðum mínum eða skrifum að ég hafi sagt að það ætti að halda þessu sóknarmarki áfram á krókaleyfum. Ég hef bent einmitt á að það væri aðalmálið að reyna að finna nýja leið því það stefndi í öngþveiti.