Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:53:20 (434)


[17:53]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur staðfest orð mín með því að upplýsa að hann hefur einkaleyfi sem aðrir hafa ekki á að nytja ákveðnar dýrategundir sem eru í sjónum. Það eru hlunnindi sem öðrum hlotnast ekki, það eru hlunnindi sem eru einkaveitt, þ.e. einn maður veitir öðrum. Það er ekki markaðurinn sem ræður því.
    Það má nefna annað sambærilegt dæmi sem hefur haft sínar afleiðingar fyrir byggðarlag á Vestfjörðum sem við þekkjum báðir, þingmaðurinn Einar Oddur og ég, sem er varðandi Flóka á Barðaströnd sem er vinnslufyrirtæki sem m.a. vinnur úr skel, skel sem er í Breiðafirði og er mönnum veitt veiðileyfi

gegn því skilyrði að þeir landi hjá þessari stöð. Nú hefur því miður atvikast þannig að helmingurinn af þessum kvóta er kominn í eigu lögfræðings í Reykjavík og hann neitar að leyfa mönnum að veiða hann nema þeir borgi auðlindaskatt, veiðileyfagjald. Þetta ágæta fyrirtæki, sem er ekki stórt á landsvísu en er nokkuð stórt í þessari sveit, verður að bera þungan auðlindaskatt til þessa ágæta manns í Reykjavík vegna þess að flokksbróðir þingmannsins, hæstv. sjútvrh., vill hafa kerfið svona. Hann vill einkavæða þessa auðlind en ekki nytja hana byggðarlaginu einvörðungu til heilla heldur þurfa menn að borga skatt til einstaklings til þess að fá að nytja þessa auðlind fyrir utan landsteinana hjá sér.