Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:56:33 (436)


[17:56]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. vék aðeins að orðaskiptum okkar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan þar sem hv. þm. innti mig eftir því hvernig sóknarstýringin ætti að tryggja það að hámarksleyfilegum veiðiafla yrði náð en ekki farið fram úr honum. Ég nefndi það áðan að við gerðum ráð fyrir því að það yrði að sjálfsögðu sett viðmið um hámarksveiðiafla en það var ekki verið að tala um það að þessum afla yrði síðan úthlutað á hvert skip. Í því felst grundvallarmunurinn annars vegar á sóknarstýringu og hins vegar aflamarkskerfi eða aflahlutdeildarkerfi.
    Nú geta menn auðvitað deilt um réttmæti þessara aðferða en þetta er reginmunurinn og grundvallarmunurinn á þessum kerfum.
    Það hefur aldrei verið gert ráð fyrir því af neinum þeim sem ég þekki til sem hafa haldið fram kostum sóknarstýringar að það ætti ekki að ganga af ábyrgð um fiskimiðin og það ætti að veiða bara eins og hver vildi. Því hefur aldrei verið haldið fram. Ég hef að vísu oft og tíðum gagnrýnt niðurstöður fiskifræðinga eins og mjög margir aðrir hafa gert. Ég man ekki hvort hv. 5. þm. Vestf. hefur gert það mig grunar það í einhverjum tilvikum. Aðalatriðið er þó það að við sem höfum verið að tala fyrir sóknarmarki í einhverri mynd teljum að það eigi að sjálfsögðu að hafa ákveðin aflaviðmið. Munurinn sé bara sá að það eigi ekki að dreifa þessu niður á einstök skip.
    Vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna varðandi þessa litlu krókaleyfisbáta er sá að afkastageta þeirra við þessi góðu aflabrögð og vaxandi fiskimið er þannig að þeir sprengja af sér þann 21 þús. tonna ramma sem þeim hafði verið settur í lögunum. Ég vakti athygli á því fyrr í dag að enginn hv. þm. sem ég hef hlýtt á í dag hefur lagt til að aflahámark þeirra yrði aukið eða að aflahámarkið yfirleitt væri aukið og hvað þá að sú aukning færi einvörðungu til krókaleyfisbátanna. Þess vegna standa menn frammi fyrir því að þurfa að velja leiðir til þess að takmarka sókn þessara báta í þessa takmörkuðu auðlind.