Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:18:51 (441)


[18:18]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Af stakri virðingu fyrir forsetadæminu skal ég reyna að stytta mál mitt svo mjög að það takist að hafa hér atkvæðagreiðslu klukkan hálfsjö eins og forseti stefnir að.
    Herra forseti. Í dag taldi ég að mér hefði orðið á þegar ég fór með texta sem hafður var eftir hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég greindi frá því að ég teldi að hún hefði sagt það að þingmenn Framsfl. hefðu hótað henni. Hv. þm. kom hér upp og mótmælti þessu og að sjálfsögðu hef ég þann góða sið að trúa hv. þm. og ég tók þetta gott og gilt og bað hv. þm. þess vegna afsökunar. Nú vil ég lesa hér afrit af samtali við hv. þm. sem var birt í kosningahorni útvarpsins 21. mars 1995. Þar segir hv. þm.:
    ,,Við höfum nú þegar sent þessar tillögur á tvo efstu menn í hverju kjördæmi, framsóknarmenn, og þær hafa fengið svona misjafnar undirtektir.`` --- Síðar segir: ,,Ég get sagt ykkur það að sumir hafa verið afskaplega óánægðir, mjög óánægðir, aðrir minna óánægðir. Sumir hafa jafnvel verið svo óánægðir að þeir hafa hótað því að ég mundi ekki ná fram öðrum málum sem ég er að berjast fyrir.``
    Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi hér fram og síðan geta hv. þm. dæmt sjálfir hver hafði rétt fyrir sér í þessu máli.
    Hér hefur farið fram fróðleg umræða í dag og í tilefni af því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt sína ágætu jómfrúrræðu vil ég óska honum til hamingju með það. Hann reis einna hæst í sinni ræðu þegar hann sagði að hv. þm. ættu ekki að vera að blanda inn í þessa umræðu einhverju karpi frá því fyrir kosningar. Það þótti mér skörulega mælt. Hann sagði jafnframt að fyrrv. formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, hefði haft sérstaka stefnu í landbúnaðarmálum en hefði þó jafnan stutt ríkisstjórnina og þess vegna gæti hv. þm. haft aðra stefnu en hæstv. ráðherra Þorsteinn Pálsson en samt sem áður stutt ríkisstjórnina. Munurinn á hv. þm. og Gylfa Þ. Gíslasyni er sá að því var lýst yfir fyrir hans hönd af varaþingmanni flokksins að hann styddi ekki þessa stefnu. Munurinn er sá.
    Herra forseti. Ég vildi hér í nokkrum orðum lýsa skoðun minni á því frv. sem hér liggur fyrir af því að eftir því hefur sérstaklega verið óskað. Ég hef þegar fyrr í dag lýst skoðun minni á 1. gr. um úreldingarákvæði. Ég tel að það hafi verið allt of bratt. Ég er sammála því sjónarmiði hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að það sé nauðsynlegt að verja atvinnumennina. Hann telur að úreldingarákvæðið skapi þeim lífsrými. Herra forseti, þeir sem eru dauðir þurfa ekki rými til að lifa. Þetta ákvæði eins og það liggur fyrir í dag mun hægt og sígandi leiða til þess að krókabátaflotinn hverfur og eyðist og raunar er ég þeirrar skoðunar að mörgum þætti það betra. Ég tel t.d. að Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, yrði afskaplega glaður yfir því og mér finnst merki hans og fingraför vera allt of glögg í þessu frv.
    Aðalgrein þessa frv. er 2. gr. og þar vil ég segja fyrst áður en ég kem að meginefni hennar að ég tel að úr greininni eigi að falla setningin sem hljóðar svo: ,,Á banndögum eru allar veiðar óheimilar.`` --- Ég þarf ekki að skýra það frekar, ég gerði það hér í dag.
    Ég er alfarið ósammála þeirri meginhugsun sem er í 2. gr. frv. Ég tel að það gangi á svig, ekki bara við ummæli hv. þingmanna í kosningabaráttu og eftir kosningabaráttu, heldur sé það líka beinlínis í andstöðu við þá yfirlýsingu sem kemur fram í verkefnaskrá sem hæstv. sjútvrh. lagði fram til samþykktar í ríkisstjórninni. Ég tel að þar hafi verið gefin fyrirheit um að leita annarra leiða nú þegar heldur en þeirra að láta banndagakerfið koma óbreytt til aukningar banndaga eftir að nýtt fiskveiðiár hefur sína göngu.
    Herra forseti. Ég get fyllilega tekið á mig þá ábyrgð ásamt öðrum þeim sem studdu fyrri ríkisstjórn að hafa staðið að því að lögsetja þetta banndagakerfi. Ég segi eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson: Það hefur einfaldlega komið í ljós að þetta kerfi gengur ekki. Og það er auðvitað okkur að kenna sem stóðum að því að samþykkja það og ég lýsi því yfir að ég er hlynntur því að róðrardagakerfi verði tekið upp í staðinn. Hins vegar mun það kosta ákveðna aðlögun. Ég vil líka segja það, af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur lýst því yfir að enginn þingmaður hafi lagt það til að heildaraflamark í þorski verði aukið, að ég tel að á meðan á slíkri aðlögun stendur sé í lagi að auka aflamark í þorski. Ég er þeirrar skoðunar sem ég get kannski ekki rökstutt í stuttu máli núna en kýs að gera síðar að það séu engin fiskifræðileg rök sem mæla gegn því að það yrði aukin úthlutun þorskkvóta um 10--20 þús. tonn. Gegn því eru hins vegar pólitísk rök sem vissulega eru þung og þau hefur hæstv. sjútvrh. tínt til í fjölmiðlum. Hann vill hraðari uppbyggingu þorskstofnsins. Ég tel að ef við erum að flytja okkur úr banndagakerfi yfir í róðrardagakerfi þurfi það ákveðna aðlögun. Ef það kostar einhverja aukna hlutdeild í þorski þá er það í lagi. En ég ítreka, herra forseti, þá skoðun mína af hverju það eru ekki fiskifræðileg rök sem mæla gegn því ætla ég fremur að rökstyðja við 2. umr. um þetta frv.
    En ég segi að það er með engu móti hægt að styðja greinina eins og hún er núna vegna þess að þar er beinlínis verið að knýja krókabátana inn undir kvóta því ef þeir fara ekki undir kvóta þá verða þeir að sæta allt að tvöföldun banndaga. Þetta tel ég ekki hægt. Ég segi það líka að mér finnst það vera flótti og feluleikur hjá þeim hv. þm. sumum sem hér hafa talað í dag sem segja að auðvitað sé yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að fara inn í sóknardagakerfið. Ég spyr: Hvers vegna er þá verið að setja inn þetta hlægilega bráðabirgðaákvæði? Af hverju vinda menn ekki bráðan bug að þessu strax núna? Ég tel engar tæknilegar forsendur koma í veg fyrir það. Það þarf enga gervihnattatækni og kannski ekki heldur neinar landstöðvar til að koma þessu í kring. Það er hægt að gera þetta eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í dag, með handtækri aðferð. Þetta er skoðun mín á þessu, herra forseti.
    Varðandi 3. gr. er ég sammála henni. Ég tel rétt að tvöföldunarreglan falli niður. Ég gef ekkert fyrir 4. gr. eins og ég hef sagt. Mér finnst hún hlægileg.
    Að því er varðar síðan ákvæði til bráðabirgða I þá er ég sammála þeirri meginhugsun sem þar kemur fram. Hún samrýmist þeim skoðunum sem Alþfl. lagði fram í kosningabaráttunni. Við fljóta yfirferð sýnist mér sú aðferð sem þar er lögð til vera jákvæð vegna þess að hún hyglir þeim bátum sem minnstir eru. Mér sýnist það. Ég fellst á þær röksemdir.
    Hv. þm. Hjálmar Árnason var sérstaklega að verja það að ísfisktogararnir fengju þetta líka sem ég tel, eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson, ekki rétta aðferð. Hann nefndi sérstaklega að það væri mikill halli á ísfisktogurunum. Það er rétt. Því er spáð að það sé 4,5% tap sem hlutfall af tekjum, en hins vegar er það svo að á bátum sem eru 21--200 brúttólestir er tapið miklu meira, það er 8,5%. Þannig að auðvitað eiga menn að reyna að einhenda sér í það að hygla bátunum á kostnað stóru togaranna, sérstaklega frystitogaranna. Það er stefna Alþfl., hún hefur komið fram. Það er líka stefna Alþfl. að þegar að því kemur að viðbótarkvóta verði úthlutað, eins og hæstv. sjútvrh. hefur lýst yfir að verði gert innan tveggja til þriggja ára, þá er það stefna okkar að það eigi alfarið að fara á bátaflotann. Þess vegna munum við líka reyna að freista samstöðu um það hér við síðari meðferð málsins að a.m.k. þorskhluta þess jöfnunarsjóðs, sem svo er kallaður og felst í 9. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða og tekur yfir 12.000 þorskígildislestir, verði líka á næstu fiskveiðiárum úthlutað til bátaflotans mögulega með þeirri aðferð sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt til í bráðabirgðaákvæði I. Ég tel líka nauðsynlegt . . .  (Gripið fram í.) Öllum. ( Gripið fram í: Þingmaðurinn er bara sammála öllum.) Sammála ýmsu smálegu en meginhlutann er ég ekki mjög kátur með.
    Herra forseti. Ég vildi segja það líka að sú verkefnaskrá sem sjútvrh. fékk samþykkta í ríkisstjórninni felur það í sér að þar er lagt til atlögu við núv. stjórnkerfi fiskveiða. Þar er a.m.k. sagt svo --- ég hef því miður ekki textann við höndina --- en þar er sagt að það eigi að láta gera samanburð á mismunandi aðferðum til stjórnunar fiskveiða og í framhaldi af því eigi að móta fiskveiðistjórnun framtíðarinnar. Ég held að hæstv. sjútvrh. sé alvörugefinn maður. Hann er ekki að gabba eða narra hv. þm. Ég gef mér það að hann hafi ekki fyrir fram mótað sér afstöðu til þess hvaða niðurstaða verður úr þessum samanburði. Þess vegna er sá möguleiki opinn að þeir aðilar sem véla með þennan samanburð muni komast að þeirri niðurstöðu að aflamarkskerfið sem við búum við núna sé ekki hið besta eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur margítrekað hér í dag. Sá möguleiki er þess vegna opinn, herra forseti, að kerfinu verði sprett upp. Þetta skapar óvissu. Það væri hægt að taka til þrjú önnur atriði úr verkefnaskrá hæstv. sjútvrh. sem skapa líka óvissu fyrir kerfið. Og hvaða skoðun sem menn hafa á gildi kerfisins er það eigi að síður svo að það er nauðsynlegt að skapa sem mesta festu til þess að menn geti lagt sínar áætlanir til framtíðar. Þess vegna telur Alþfl. að það sé nauðsynlegt að setja inn í núgildandi lög um stjórn fiskveiða að heildarendurskoðun á lögunum verði lokið fyrir 1. jan. 1997.
    Annað vil ég líka nefna, herra forseti. Ég hef lýst því hérna að ég tel það ekki frágangssök að auka úthlutun þorskveiðiheimilda um eitthvert lítið brot af núverandi hámarksafla sem leyfður er. Það er hins vegar hæstv. sjútvrh. ómögulegt eins og lögin eru í dag. Í lögunum er tekið skýrt fram að þó að ráðherrann hafi heimild til þess að hreyfa til úthlutun heimilda í öllum tegundum þá gildir það ekki um þorsk. Hann verður að hafa lokið því fyrir 15. apríl. Þetta, herra forseti, er afskaplega umhendis, ekki síst með tilliti til þess að mat Hafrannsóknastofnunar liggur að jafnaði aldrei fyrir fyrr en í lok maí, þ.e. eftir að frestur hæstv. ráðherra er liðinn. Ég tel að það þurfi að samræma þetta tvennt. Ég bendi líka á að það eru dæmi um það úr textum og spám og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að þeir hafa misreiknað sig mjög gróflega til að mynda á þeim tímum þegar Grænlandsgöngur voru að koma hingað. Ég veit að vísu að það er ördeyða við Grænland núna og ekkert seiðarek héðan þangað og ekki líkur á því að göngur komi alveg í bráð

en við útilokum það eigi að síður ekki. 1990 spáði Hafrannsóknastofnun að það mundu ganga tugir milljóna þorska 7 og 8 ára gamlir frá Grænlandi á Íslandsmið árið á eftir, þ.e. 1991 og 1992. Þetta brást hrapallega. Þess í stað kom Grænlendingurinn 6 ára gamall inn á Íslandsmið 1990. Ef þetta gerðist aftur þá hefði hæstv. sjútvrh. ekki möguleika á því að aðlaga eða breyta veiðiheimildum til samræmis við þetta. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þetta ákvæði sé fellt út og líka ef það er fellt út á þessu þingi þá blasir það við að hæstv. sjútvrh. hefur lagalega stoð til þess að hnika til úthlutun þorskveiðiheimilda. Hann vill, ef það tekst sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur sagt hér, að við eigum að einhenda okkur að því að koma róðrardagakerfinu á þá kann að vera mögulegt, eins og ég sagði, að slíta út einhver 10.000 tonn af þorski til þess að fyrir þessa yfirgangsperíódu --- hæstv. ráðherra hefur ekki heimild til þess nema þessi málsgrein sé numin úr lögunum.
    Ég vil líka benda á það að hæstv. utanrrh. hefur sagt það í fjölmiðlum að hann telji svolítið svigrúm til þess að gera þetta og undir svolítið svigrúm mundi ég fella magn á borð við 10.000 tonn. Degi síðar en hæstv. utanrrh. nefndi þetta þá kom hæstv. sjútvrh. og sagði það alveg blákalt í fjölmiðlum og réttilega að hann gæti það ekki út af þessu ákvæði.
    Þetta, herra forseti, er í stórum dráttum það sem ég kýs að leyfa þingmönnum að heyra um afstöðu mína til þessara frv. og hvað í þau vantar.