Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:38:55 (446)


[18:38]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég mun ekki lengja umræðuna enda skilst mér að stjórnarliðar sem hafa nú ekki verið margir hér í dag hafi verið hringdir út til að ýta á hnappinn núna um hálfsjöleytið. En það verður að hafa það og vonandi fyrirgefa þeir okkur sem höfum á hinn bóginn verið í umræðunni að hún tefjist þá um nokkrar mínútur.
    Ég held að það hafi verið athyglisvert sem m.a. kom fram í lokin í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að það er ekki mikið búið að ræða um almenna stöðu sjávarútvegsins og þá hluti sem þar standa yfir í umræðunni í dag. Það má svo sem telja eðlilegt að menn hafi haldið sig við efni málsins þröngt en hitt er auðvitað alveg ljóst að þær almennu aðstæður, sem eru uppi í sjávarútveginum í dag, eru með þeim hætti að ekki væri óeðlilegt að rætt væri um þær áður en þingið fer heim. Þ.e. það stendur yfir verkfall, annað verkfallið á innan við einu og hálfu ári, vegna erfiðra deilna sem uppi eru og varða kjör sjómanna og tengjast þeirri tilhögun við stjórn fiskveiða og því kerfi sem þar er við lýði sem hér er m.a. til umræðu. Þessir hlutir eru auðvitað samhangandi. Auðvitað er bullandi óánægja með margt sem er uppi í greininni og það hefur verið rifjað upp að frambjóðendur margra flokka fundu svo fyrir þrýstingi af þessum aðstæðum þegar þeir voru á ferðalögum sínum út í sínum kjördæmum að heyja kosningabaráttu sína að þeir gripu til ýmissa ráða í því sambandi, smíðuðu sínar eigin sjávarútvegsstefnur, fóru með ýmiss konar yfirboðum og gylliboðum til þess að reyna að afla sér stuðnings og fylgis. Þó það sé verið að lenda þeim málum með einhverjum tilteknum hætti hér hverfa ekki hinar efnislegu aðstæður sem sköpuðu þetta ástand. Óánægjan er enn þá fyrir hendi og þær aðstæður sem kölluðu á umræðuna.
    Hér hefur verið minnt á framgöngu hv. þm. Framsfl., sem nú eru orðnir á Reykjanesi. Hér hefur verið rifjaður upp málflutningur hv. þm. Sjálfstfl. eða frambjóðenda þeirra á Vestfjörðum. Og þó seint væri var minnt á að Alþfl. hefur líka stundum talað með sérstökum hætti um sjávarútvegsmál þegar dregur að kosningum. Hér var minnst á málflutning frambjóðanda Alþfl. á Vestf. við síðustu kosningar, hæstv. þáv. ráðherra Sighvats Björgvinssonar. Ég hygg nú að málflutningur hans fyrir næstsíðustu kosningar hafi orðið enn frægari að endemum. Þá sagði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson að hann mundi aldrei styðja ríkisstjórn sem ætlaði að byggja á óbreyttu aflamarkskerfi og settist svo í eina slíka sjálfur. ( EKG: Á aflamarkskerfi.) Á aflamarkskerfi bara yfir höfuð. Settist svo í eina sjálfur og sat í henni í fjögur ár eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þannig hafa nú hlutirnir gengið fyrir sig þegar farið er yfir orð og efndir og samræmi þeirra hluta í málflutningi manna.
    Þess vegna spurði ég um það fyrr í umræðunni og ég vil ítreka þá spurningu áður en hæstv. sjútvrh. svarar hér hvað líði þeirri heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða og skipulag þessara mála sem þó er gefið í skyn að fara eigi í á kjörtímabilinu í stjórnarsáttmálanum. Einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, hv. 3. þm. Vestf., hefur boðað að það bíði haustsins. Ég vil þá gjarnan fá það staðfest frá hæstv. sjútvrh. að sett verði af stað í sumar eða með haustinu í síðasta lagi, hvernig sem það ber nú að skilja, einhvert ferli sem á að leiða til heildarendurskoðunar löggjafar um málefni sjávarútvegsins. Er það sem sagt það sem þetta orðalag þýðir? Þá vil ég gjarnan vita a.m.k. áður en þingið lýkur störfum hvernig núv. ríkisstjórn hyggst standa að slíkri vinnu. Er þess að vænta að sömu vinnubrögðum verði þá beitt og var á síðasta kjörtímabili? Það var eins og kunnugt er þannig að þá var stjórnarandstaðan útilokuð frá því að eiga aðild að þeim málum og hin fræga tvíhöfða nefnd var skipuð með fulltrúum stjórnarflokkanna einna. Ég spyr vegna þess að mér finnst það skipta máli þegar við erum að hefja vinnu á nýju kjörtímabili á þessu sviði og í þessum málaflokki. Ég tel að það hafi verið mikið ógæfuverk sem þá var framið þegar brotin var alllöng hefð sem fyrir því var að fulltrúar allra þingflokka höfðu á undangengnum kjörtímabilum átt aðild að vinnu af þessu tagi þegar. Þegar fiskveiðilöggjöfin var til meðferðar og endurskoðunar á fyrri kjörtímabilum, þ.e. öðrum en því síðasta, var það jafnan svo að tiltölulega stór og breið a.m.k. samráðsnefnd var fyrir hendi þar sem allir flokkar áttu aðild að málinu. Ég óska því eftir því að hæstv. sjútvrh. upplýsi okkur um það hvað er fyrirhugað í þessum efnum, annars vegar varðandi heildarendurskoðun og stefnumótun og hins vegar hvort um einhverja aðild stjórnarandstöðunnar verði að ræða að því starfi.
    Hér hafa menn farið dálítið í síðari hluta umræðunnar út í umræður um aflamarkskerfið yfirleitt og hvort það eigi rétt á sér eða eitthvað annað eigi að taka við. Ég hef ekki valið þetta tækifæri til að blanda mér í þá umræðu enda kannski heppilegra að nota tímann til að ræða efnisatriði þessa máls sérstaklega ef hitt bíður víðtækari endurskoðunar. Staðreyndin er sú að við erum búin að búa við þetta aflamarkskerfi í bráðum 12 ár og það er ekkert fararsnið á því. Öllum er held ég ljóst sem horfa á það mál af raunsæi að í öllu falli yrði því ekki kippt burtu í einu vetfangi. Þótt menn teldu sig hafa fundið hið eina rétta fyrirkomulag sem ætti að taka við þá yrði væntanlega ekki hægt að gera slíkar grundvallarbreytingar nema á einhverjum tilteknum alllöngum tíma og með ríflegri aðlögun að löggjöf og starfsgrundvelli heillar atvinnugreinar sem búin er að vera með tilteknum hætti í 12 ár.
    Hitt finnst mér áhugaverðara og skipta meira máli varðandi afgreiðslu þessa máls að það verði fyrir hendi vilji til að líta á þá þætti sem hér hafa sérstaklega verið gerðir að umtalsefni í dag. Ég tel að í umræðunni hafi kristallast að það eru nokkur atriði þessa máls, nokkur framkvæmdaatriði, ekki endilega efnisatriði, sem nauðsynlegt er að skoða betur. Ég nefni þar í fyrsta lagi þessar nýju og hertu reglur um úreldingarkröfur varðandi smábáta. Hér hefur berlega komið í ljós í umræðunni að það er mjög umdeilanlegt atriði hvort ganga eigi jafnlangt í þeim efnum og hér er lagt til. Ég nefni í öðru lagi útfærslu á róðrardagakerfinu. Það hefur komið fram hjá talsmönnum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu ríkur vilji til þess að reyna að ganga lengra í því efni og lögfesta slíkt fyrirkomulag og hafa þá frekar aðlögunartímann eða ákvæði til bráðabirgða á þann veginn að gildistöku þess megi fresta ef menn telji að ekki séu fullnægjandi forsendur fyrir hendi til að láta það taka gildi á komandi hausti.
    Ég nefni í þriðja lagi meðferð þeirra veiðiheimilda sem samkvæmt frv. eru 500 tonn sem settar verði til hliðar í sérstakan pott til byggðaaðgerða eða stuðnings byggðarlögum sem eru sérstaklega og algjörlega háð veiðum báta. Þessa þætti og nokkra fleiri tel ég miklu máli skipta að vilji verði fyrir hendi til að skoða. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. sé tilbúinn til þess að standa að slíku fyrir sitt leyti, að þetta sé ekki eitthvað sem menn verða að afgreiða óbreytt eða án þess að mega a.m.k. velta fyrir sér mögulegum öðrum útfærslum á einstökum þáttum sem betur mættu fara. Að hluta til hafa menn í umræðunni verið í tiltölulega jákvæðri gagnrýni eða umfjöllun um málið með því hugarfari að það megi þó í öllu falli bæta hvað sem mönnum sýnist um það að öðru leyti og mönnum sýnist svo sem sitt hvað eins og hér hefur komið fram. En hitt hlýtur að vera sameiginlegt keppikefli okkar og viðfangsefni að það verði þó eins vel úr garði gert og forsendur eru til að það geti orðið miðað við þær aðstæður sem við erum stödd í og þann skamma tíma sem er til stefnu til að vinna málið.