Tilhögun þingfunda

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 13:33:51 (452)


     Forseti (Ólafur G. Einarsson) :
    Um þinghaldið í dag og næstu daga vill forseti taka það fram að hann átti fund með formönnum þingflokka nú í hádeginu. Á grundvelli umræðna þar mun forseti senda formönnum þingflokka nótu um framhald þinghaldsins og fyrirkomulag áður en þingflokksfundir hefjast kl. 4 í dag þar sem megindrættir í störfum þingsins fram að þingfrestun koma fram.
    Varðandi þinghald í dag og á morgun vill forseti geta þess að þingfundur í dag mun standa til kl. 4. Þó gæti komið til þess að fundinum yrði frestað kl. 4, á þingflokksfundatíma, til kl. 7, en þá aðeins til þess að útbýta þingskjölum.
    Reiknað er með að þingfundur á morgun hefjist ekki fyrr en kl. 13.30 sem er óvenjulegt á fimmtudegi, en það er gert til þess að gefa þingnefndum rýmri tíma til starfa. Þetta er í góðu samkomulagi við formenn þingflokka.