Athugasemd um 54. gr. þingskapa

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 13:34:54 (453)


     Forseti (Ólafur G. Einarsson) :
    Áður en gengið er til dagskrár vill forseti taka þetta fram af marggefnu tilefni:
    Í 54. gr. þingskapa, 4. málslið, segir:
    ,,Ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann.``
    Svo mörg eru þau orð. Þeim er ekki aðeins beint til nýkjörinna alþingismanna, heldur ýmissa þeirra sem þetta mega vita af reynslu sinni sem of oft í seinni tíð beina máli sínu til einstakra þingmanna, t.d. með því að segja: ,,Þetta átt þú að vita, hv. þm.`` eða: ,,Ég vil segja við þig, hæstv. ráðherra,`` o.s.frv. svo að ég taki dæmi. Með orðalagi af þessu tagi er verið að brjóta þingsköp.
    Þetta ákvæði þingskapa er ævagamalt. Það var sett í því skyni að tryggja að gott svipmót væri á umræðum á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Forseti væntir þess að þingmenn hafi þetta í huga framvegis og fari að þingsköpum í þessu efni. Því er þetta rifjað upp hér og nú.