Lyfjalög

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 13:53:18 (457)


[13:53]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil halda því til haga við umræðuna að við sem skipuðum stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili gagnrýndum mjög harðlega þær breytingar sem þá voru gerðar á lyfjalögunum. Það er ekki rétt sem fram kom hér í máli hv. 15. þm. Reykv. að einhver sátt hefði náðst um málið. Það tókst sátt um að fresta gildistöku ákveðinna kafla en það þýddi ekki að við sem þá vorum í stjórnarandstöðu værum sátt við málið heldur var allt reynt til að fá þáv. stjórnarflokka til að sýna einhverja örlitla visku í málinu. Breytingarnar voru gagnrýndar mjög harðlega af lyfsölum og ekki síst vegna lyfjaverslunar úti á landi. Við verðum að gæta þess í þessu samhengi að lyf eru ekki eins og hver önnur vara þó auðvitað þurfi að reyna að ná niður verði á þeim og gera lyfjaverslun sem hagkvæmasta. Við samþykktum þessa frestun á síðasta kjörtímabili og ég get ekki annað en tekið undir það sjónarmið að nýr heilbrrh. fái að skoða málið betur. Hún var einn af helstu andstæðingum þessara breytinga á síðasta kjörtímabili og mér finnst mjög eðlilegt að hún fái tíma til að skoða málið og jafnframt nýtt Alþingi. Þess vegna lýsi ég yfir stuðningi við þetta frv.
    Það kom fram að menn hafa auðvitað ekki gert sér fulla grein fyrir hvaða afleiðingar þær breytingar, sem gerðar voru á lyfjalögunum, hafa þegar haft. Það þarf að skýrast. En við erum bundin af EES-samningnum og þurfum að gera ákveðnar breytingar en það er auðvitað skylda okkar að framkvæma þær eins mjúklega og hægt er þannig að þær komi t.d. ekki niður á lyfjaverslun úti á landsbyggðinni eins og menn óttuðust mjög og sáu reyndar ekki hvernig í ósköpunum ættu yfirleitt að standast þar til frambúðar með aukinni samkeppni og hugsanlega þeim möguleika að lyfjaverslun færðist inn í almennar verslanir.
    Hæstv. forseti. Ég er reiðubúin til að styðja það að hæstv. heilbrrh. fái tíma til að skoða málið nánar.