Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 14:43:59 (463)


[14:43]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 12 flytjum við þingmenn Alþb. og óháðra frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem sett voru árið 1992. Það frv. sem hér er flutt hefur verið lagt fram áður og er flutt í beinu framhaldi af þeim umræðum sem hafa orðið um lánamál námsmanna á þingum allt frá vorinu 1992 að mjög umdeild lög voru sett um Lánasjóð ísl. námsmanna. Í frv. er ekki tekið á lánasjóðsmálunum í heild heldur aðeins einu atriði, þ.e. því sem hefur skipt langmestu máli varðandi þær breytingar sem hafa orðið á lánþegafjölda hjá Lánasjóði ísl. námsmanna á undanförnum árum, því atriði að við leggjum til að það verði tekin upp samtímalán í staðinn fyrir eftirágreiðslur námslána eins og ákveðið var með lögum frá 1992. Hér er um grundvallaratriði að ræða. Eins og þetta er núna hjá Lánasjóði ísl. námsmanna þá fá námsmenn ekki borguð lán fyrr en löngu eftir á. Í raun og veru er kerfið svipað eins og ef þingfararkaup alþingismanna væri greitt t.d. á vori eftir önnina eða eftir annirnar tvær og ráðherrar fengju t.d. ekki laun fyrr en í lok kjörtímabils og þá með hliðsjón af verkefnaframvindu á kjörtímabilinu, hver sem ætti svo sem að meta það.
    Hér eru námsmenn með öðrum orðum settir undir kerfi sem er algerlega ómennskt og tillitslaust andspænis þeim veruleika sem þeir og fjölskyldur þeirra þurfa að búa við og þess vegna hefur þetta frv.

verið flutt hér aftur og aftur og enn nú. Reyndar hefur þetta frv. verið stutt á undanförnum þingum þegar það hefur verið flutt af fulltrúum allra þáverandi stjórnarandstöðuflokka, bæði Framsfl. og Kvennalistans auk Alþb.
    Ástæðan til þess að þingflokkur Alþb. og óháðra ákvað að taka þetta mál núna út úr og flytja um það sérstakt frv. á þessu stutta vorþingi var reyndar sú að í kosningabaráttunni var því lofað af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem tóku þátt í kosningabaráttunni nema eins, þ.e. fulltrúa Sjálfstfl., að samtímagreiðslur námslána yrðu teknar upp á nýjan leik. Og fulltrúar Framsfl. undirstrikuðu þetta mjög ákveðið, t.d. núv. hæstv. iðn.- og viðskrh. Ég hafði satt að segja beðið um það, hæstv. forseti, þó að hann sé ekki aðili að málinu með venjulegum hætti þá er hann það með pólitískum hætti, að hann yrði kallaður í þingsal til þess að ég geti lagt fyrir hann nokkrar spurningar um það hvernig þeir framsóknarmenn ætla að fylgja eftir þessu mikla áhugamáli sínu úr kosningabaráttunni að tryggja samtímagreiðslur námslána á nýjan leik. Ég þakka hæstv. iðn.- og viðskrh. fyrir að koma hér og vera viðstaddur þá umræðu sem hér er að hefjast um Lánasjóð ísl. námsmanna því að ég vildi heyra sem gerst af því hvernig þeir framsóknarmenn hugsa sér að koma á framfæri og í framkvæmd þessu mikla kappsmáli sínu úr kosningabaráttunni, þ.e. koma á nýjan leik á samtímagreiðslum námslána.
    Ég ætla aðeins, áður en ég vík að málinu nánar, hæstv. forseti, að víkja að frétt sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem vitnað er til viðtals við fulltrúa stúdenta í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sigríður Gunnarsdóttir, fulltrúi stúdenta í stjórn LÍN sagði í samtali við Morgunblaðið að ágreiningur námsmanna og ríkisins standi einkum um atriði sem eru bundin í lög en búast mætti við frv. til breytinga á lögum LÍN á komandi haustþingi.``
    Fyrsta spurning mín til hæstv. menntmrh. er: Hvaða frv. er það sem námsmenn eru hér að tala um? Er þegar tilbúið eitthvert frv. eða er hafin bein vinna við undirbúning á því frv. sem Sigríður Gunnarsdóttir talar þarna um og hverjir eru í þeirri vinnu? Ég held að það sé nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hér.
    Síðan segir áfram í þessari fréttaklausu Morgunblaðsins, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Námsmenn vonist til að þar verði`` þ.e. í frv. ,,tekið á helstu baráttumálum sínum; að teknar verði upp samtímagreiðslur í stað eftirágreiðslna og að endurgreiðslubyrði verði létt. Einnig vinni stúdentar að því að í tilvikum hjóna --- og barnafólks verði skattalög og lög um LÍN samræmd.``
    Það er mjög nauðsynlegt að fá fréttir af því hjá hæstv. menntmrh. hvað er að frétta af þessum málum og einnig frá hæstv. iðn.- og viðskrh. með hvaða hætti hann hefur hugsað sér að stefnumál Framsfl. fái að njóta sín þegar kemur að því að semja þau frumvarpsdrög sem væntanlega eru komin á borð hæstv. ráðherra.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki núna, hæstv. forseti, að vitna í ummæli einstakra þingmanna Framsfl. úr kosningabaráttunni þó það gæti verið skemmtilegt. Hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. sagði t.d. í umræðum um málið strax á árinu 1992 um haustið, þ.e. 5--6 mánuðum eftir að lögin höfðu verið samþykkt, með leyfi forseta:
    ,,Reynslan af lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem sett var í vor er smátt og smátt að koma í ljós. Því miður er það svo að spár hinna svartsýnustu í þessum efnum virðast ætla að ganga eftir. Þessu til stuðnings ætla ég að nefna örfá dæmi``, sagði hv. þm. þá, nú hæstv. ráðherra, og rakti það svo mjög ítarlega í myndarlegum málflutningi sínum þegar hann mælti fyrir tillögu um endurskoðun á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna en hana fluttu ásamt hv. þm. sá sem hér stendur, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og hv. þm. Páll Pétursson. Núv. ráðherra taldi strax að hinar svartsýnustu spár hefðu ræst í þessum efnum aðeins örfáum mánuðum eftir að þessi svakalegu lög höfðu verið sett og í rauninni tókum við, aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar á þeim tíma, undir þau sjónarmið.
    Þegar málin voru til umræðu í þinginu þá notuðu menn mjög skörp orð sumir hverjir og einna best komst þá að orði eins og venjulega hv. þm. Páll Pétursson, núv. hæstv. félmrh., sem sagði að það væri verið að setja vond og óréttlát lög. Og þegar málið var borið upp til atkvæða þá stóð málið þannig af sér að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem var þá einn af stjórnarliðinu, sat hjá um 6. gr. Hann sat hjá við þetta atriði og sór síðan og sárt við lagði út um allt að hann ætlaði að breyta þessu. Hann gerði það nú reyndar aldrei. Og Samband ungra jafnaðarmanna, en svo heitir félag hér í bænum, lýsti því yfir að það mundi alveg óðara breyta þessu strax og reynsla væri komin í ljós. Það gerði nú reyndar ekkert í því frekar en öðru.
    Þetta er nefnt til marks um það að þegar þessi mál voru til meðferðar þá voru þar uppi gríðarlega miklar heitingar af hálfu ýmissa aðila vegna þess að menn sáu hvað þetta var alvarlegt.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði t.d. um frv. þegar umræður voru um það, með leyfi forseta, að einnig væri ljóst að með þessu frv. væri vegið að þeim sem verst hefðu kjörin. Og þáv. hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði ríkisstjórnina, með leyfi forseta: ,,vera að búa til framtíðarvanda.`` Nú er hv. þm. Finnur Ingólfsson einmitt orðinn hæstv. ráðherra og hefur þar með möguleika á því að taka á þessum framtíðarvanda sem hann sá fyrir á árinu 1992 og ber að fagna því að menn geta komist til þeirra verka sem þeir hafa heitið kjósendum að taka á.
    Ástæðan fyrir því að þetta mál er svo tekið út úr hjá okkar þingflokki er sú að við teljum að breytingarnar á lánasjóðnum og sérstaklega upptaka eftirágreiðslnanna hafi haft það í för með sér að það hafi þrengt hrottalega að námsmönnum og fjölskyldum þeirra sem m.a. kemur fram í opinberum tölum um fjölda lánþega. T.d. í tölum sem hafa birst varðandi fjölda lánþega og hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. notaði oft í þessum ræðustól fyrir fáeinum mánuðum. Það liggur t.d. fyrir að lánþegum af landsbyggð sérstaklega hafði fækkað um 40% frá 1992 til 1994. Lánþegar með börn á framfæri voru t.d. árið 1991 2.746, en voru á árinu 1994 1.823, hafði fækkað um 900 eða svo, einstæðum foreldrum sem voru í námi hafði fækkað úr 740 í 430 og hlutfall lánþega af námsmönnum í lánshæfu námi hafði lækkað. Áður var það þannig að 60% tóku námslán en að lokum var niðurstaðan sú undir lok síðasta kjörtímabils að aðeins 40% tóku lánin. Lánþegum fækkaði þannig í beinum tölum úr 8.100 manns í um það bil 6.000 manns.
    Þetta er kannski bara gott eða hvað, spara í ríkisrekstrinum? Þykir þetta ekki voðalega gott? Það er óskaplega gott að spara í ríkisrekstrinum. Gallinn er bara sá að þessi niðurskurður er niðurskurður á framtíðinni. Munurinn á niðurskurði til menntamála og niðurskurði á ýmsum öðrum sviðum er sá að niðurskurður til menntamála bitnar á þróun á lífskjörum í framtíðinni. Það er grundvallaratriðið. Ég hef stundum orðað það svo að það sé mjög erfitt að festa hönd á afleiðingunum almennt fyrir þjóðfélagið fyrr en eftir nokkur ár. En að þeim liðnum birtist það þannig að lífskjör á Íslandi munu dragast aftur úr lífskjörum í öðrum löndum þeim mun aftar sem við erum á merinni að því er varðar framlög til menntamála.
    Þetta sáu menn reyndar í kosningabaráttunni og þar sór hver sem betur gat. Eru menn kannski búnir að gleyma því núna hér í þessum sal hvað var sagt í kosningabaráttunni um menntamál? Ætli menn séu kannski búnir að gleyma því? Ætli menn séu búnir að gleyma því að það var lofað milljörðum í ný framlög til menntamála af í rauninni öllum flokkum nema það væri flokkur hæstv. menntmrh.? Og þó gaf hann í skyn að það þyrfti að auka við framlög til menntamála. Ég man eftir því hvernig t.d. frambjóðendur Þjóðvaka, Kennalistans, Alþfl., Alþb. og Framsfl. höguðu máli sínu að því er varðaði menntamál. Meira að segja Alþfl., það var alveg brandari út af fyrir sig að Alþfl. uppgötvaði menntamál mánuði fyrir kosningar. Það var alveg ótrúlegt. Hann hafði alltaf verið á móti menntamálum en hann uppgötvaði rétt fyrir kosningar að hann vildi bara smella í þetta milljörðum svona korter fyrir kosningar eða svo. En þannig var það. Og að lokum var það þannig að kjósendur, t.d. námsmenn á fundi sem við vorum á úti í Háskólabíói, sögðu: Allir flokkar lofa öllu fyrir kosningar og hvað verður svo? Hér er komið að ákveðinni grundvallarspurningu: Hvað verður svo og til hvers er lýðræðið?
    Við teljum með öðrum orðum með því að setja þetta mál á dagskrá rétt að gefa þeim framsóknarmönnum sérstaklega kost á því að afgreiða þetta mál núna á þessu þingi. Við teljum alveg ástæðulaust að ljúka þessu þingi núna sem hvort eð er hefur staðið í nokkrar vikur án þess að taka á málum Lánasjóðs ísl. námsmanna og íslenskra stúdenta. Við teljum að það væri að mörgu leyti eðlilegt og færi vel á því að þetta þing eftir hin miklu loforð um framlög til menntamála, þetta þing sem er kallað saman núna í vor vegna ákvæða stjórnarskrárinnar um að þing skuli koma saman eftir tiltekinn tíma að loknum kosningum, taki ákvörðun um þessi mál líka.
    Mér finnst að framsóknarmenn ættu alveg sérstaklega að þakka okkur fyrir að að vera svo rausnarlegir að gefa þeim kost á því að standa við þessi kosningaloforð núna einn, tveir og þrír eins og við erum með tillögur um að gera. Þeim mun auðveldara ætti það að vera fyrir ríkisstjórnina að taka undir okkar sjónarmið vegna þess að ríkisstjórnin er samkvæmt blaðafréttum í Morgunblaðinu í dag hvort eð er að vinna í málinu. Þess vegna væri alveg rakið að smella sér í það núna að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum og taka upp samtímagreiðslur námslána á ný eins og við leggjum til og eins og var í gömlu lögunum og þau voru framkvæmd á sínum tíma. Það erum við að leggja til og ekkert annað.
    Auðvitað höfðum við getað hugsað okkur að leggja ýmislegt annað til eins og það að létta endurgreiðslurnar. Við erum ekki með tillögu um það hér. Við hefðum getað hugsað okkur það breyta ákvæðum gildandi laga um vaxtagreiðslur af námslánum. Við erum ekki með tillögu um það hér. Við erum með tillögu um það sem allir flokkar nema íhaldið sögðu fyrir síðustu kosningar: Við viljum breyta þessu. Allir.
    Ég tók eftir því um daginn, hæstv. forseti, að ýmsir nýir þingmenn Framsfl. tóku til máls í umræðum um fiskveiðistjórn og þeir voru að reyna að gera hið ómögulega, þ.e. að samræma annars vegar niðurstöður ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum og hins vegar stefnu Framsfl. í hinum ýmsu kjördæmum í sjávarútvegsmálum. Þetta var erfitt hjá framsóknarmönnum á Reykjanesi en þó sérstaklega erfitt hjá sjálfstæðismönnum á Vestfjörðum sem er nú kapítuli út af fyrir sig. En sjálfstæðismenn á Vestfjörðum hafa alltaf verið á móti kvótakerfinu eins og kunnugt er fyrir hverjar einustu kosningar en breytt því fljótlega eftir þær.
    Af hverju er ég að nefna þetta, hæstv. forseti, hér? Hvað kemur þetta lánamálum námsmanna við? Jú, þarna er auðvitað komið að grundvallaratriði í lýðræðinu. Til hvers eru menn hérna? Taka menn mark á sjálfum sér? Gera menn eitthvað með það sem þeir eru að segja fyrir kosningar eða ekki? Eru menn bara í pólitík til þess að halda völdum, völdum sem eru bundin við þessa stóla og fara í þá hvað sem það kostar í málefnum? Eða eru menn í pólitík til þess að fylkja liði á bak við hugmyndir um að breyta þjóðfélaginu og einhverjum tilteknum atriðum sem þeir gera þjóðinni grein fyrir í kosningabaráttu á hverjum tíma. Eða hvað? Ég held að það sé algert grundvallaratriði að sérstaklega þeir framsóknarmenn sýni einmitt í þessu máli að þeir hafi meint þetta.

    Alveg sérstaklega hér á þéttbýlissvæðinu tóku menn eftir því að þeir framsóknarmenn beittu skörulegum málflutningi í lánamálum og réttindamálum námsmanna og ég er alveg sannfærður um að þeir fengu stuðning út á það. Ég segi alveg eins og er að mér fannst sá málflutningur sem uppi hafði verið hjá hæstv. núv. iðnrh. og viðskrh. vera góður. Ég virti hann fyrir þann málflutning vegna þess að ég tók eftir því og þekki fyrri sögu Framsfl. þegar námslánin voru skorin stórkostlega niður eða um 20% í kaupmætti í tíð Sverris Hermannssonar, þáv. hæstv. menntmrh. og Framsfl. studdi. Þrátt fyrir það gengu framsóknarmenn eins og hæstv. iðnrh. og viðskrh. fram í því að vera með tilteknar mjög stífar yfirlýsingar sem óhjákvæmilega hlutu að hafa í för með sér að þeir framsóknarmenn urðu að taka til hendinni í lánamálum námsmanna ef þeir kæmust til einhverrar forustu að loknum kosningunum. Þess vegna er það, hæstv. forseti, sem ég og við í þingflokki okkar teljum að það sé algerlega óhjákvæmilegt að umræða hefjist um þetta mál núna og að þinginu gefist kostur á því að taka ákvörðun um það á þessu vorþingi að hefja samtímagreiðslur námslána á ný.
    Nei, hæstv. forseti. Það var þrennt sem gerðist í menntamálum á síðasta kjörtímabili sem var sérstaklega gagnrýnivert. Það fyrsta var niðurskurðurinn til grunnskóla. En þó var það þannig að undir lok kjörtímabilsins beitti fyrrv. hæstv. menntmrh. sér fyrir því að leiðrétta að nokkru þann niðurskurð sem hafði verið ákveðinn í upphafi, ég hygg snemma ársins 1992. Engu að síður var um að ræða raunframlagaskerðingu til grunnskóla.
    Í öðru lagi birtist niðurskurðurinn í því að framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna voru skorin gífurlega niður, sennilega um 1,2 milljarða kr. ef við tökum það á grundvelli ríkisreiknings eins og hann birtist á hverjum tíma. Í þriðja lagi var svo það, og það var kannski einna mest umdeilt, að ákveðið var að taka upp skólagjöld, bæði í framhaldsskólum og í háskólum. Það var gríðarlega umdeilt. Þeir alþýðuflokksmenn sem voru þá aðilar að stjórnarsamstarfinu voru mjög gagnrýnir á það og m.a. gerði hv. þm. Össur Skarphéðinsson grein fyrir þeirri gagnrýni opinberlega. Þessi þrjú atriði, niðurskurðurinn, námslánin og skólagjöldin, var allt harðlega gagnrýnt og mjög rætt á síðasta kjörtímabili. Hér er tekið út úr eitt atriði, samtímagreiðslur námslána, og ég spyr í framhaldi af því: Er hafin vinna við frv. um að breyta þessum málum, samanber frétt í Morgunblaðinu í dag? Hverjir eru í þeirri vinnu? Hvernig hyggst Framsfl. standa við þau fyrirheit sín að samtímagreiðslur námslána verði teknar upp á ný, að endurgreiðslureglunum verði breytt og að vaxtareglunum verði breytt því að það voru líka gefin fyrirheit um það, hæstv. forseti.
    Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.