Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:12:30 (470)


[15:12]
     Svanfríður Jónasdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum, nr. 21/1992, um Lánasjóð ísl. námsmanna. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. voru í kosningabaráttunni gefin ýmis fyrirheit um breytingar á þessum lögum. Menn létu þar ýmsir stór orð falla og ég tek undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi hér áðan að fróðlegt væri að heyra frá hæstv. núv. iðnrh. hvernig hann hyggst standa við einhver af sínum stóru orðum sem fóru einna hæst í þeirri umræðu. En frambjóðendur Þjóðvaka lýstu í kosningabaráttunni þeirri skoðun sinni að endurskoða bæri lögin, sérstaklega með tilliti til eftirágreiðslna. Ljóst þótti að þær meginforsendur sem menn töldu sig hafa fyrir þessari breytingu á sínum tíma stóðust ekki.
    Eftirágreiðslukerfinu einu og sér hefur ekki tekist að koma í veg fyrir svokallaða ofgreiðslu lána eins og menn þó báru við sem rökum. Þar mundi því frekar vera um að kenna að reglur um skil á upplýsingum voru ekki nógu strangar og námsárangur mældur í meðalnámsframvindu hefur heldur ekki aukist að neinu marki frá því að eftirágreiðslukerfið kom til skjalanna. Þannig má fullyrða að hvorug þessara forsendna hafi staðist. Staða sjóðsins var auðvitað meginyfirvarp og ástæða þeirra ráðstafana og breytinga sem gripið var til. Þess vegna stóð sjóðurinn vel til höggsins eins og einhver hefði orðað það.
    Hér skal ekki dregið í efa að grípa þurfti til ráðstafana til að bæta stöðu sjóðsins, um það hafa eflaust allir verið sammála. Hitt greindi menn á um og greinir enn á hverjum þær ráðstafanir áttu fyrst og fremst að lenda. Áttu þær að fæla barnafólk frá námi og þá alveg sérstaklega einstæða foreldra? Áttu þær að fækka nemendum í háskólanámi erlendis? Er það ekki umhugsunarefni og áhyggjuefni að nemendum í raungreinanámi hefur fækkað mest allra? Erlendis í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við þykir það áhyggjuefni að ekki fjölgi nóg í slíku námi. Stóð til að fækka námsmönnum þvert á spá um fjölgun? Hvað með tengslin við atvinnulífið og þróun þess? Urðu þessar breytingar ekki til þess að auka enn frekar það atvinnuleysi sem farið hefur vaxandi frá þessum tíma og kemur sérlega illa við ungt fólk og það ungt fólk án fagmenntunar?
    Menn guma af betri fjárhag sjóðsins en augljóslega hefur sú staða kostað annað og meira en menn bjuggust við. Eða hvað? Framantalið eru grófar útlínur á meintum árangri þessara breytinga eins og þær hafa snúið að námsmönnum og fjölskyldum þeirra. Eftirágreiðslukerfið hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir námsmenn sem þurfa að fleyta sér á bankalánum á meðan beðið er eftir afgreiðslu námslána. Þær vaxtabætur sem greiddar eru nægja hvergi fyrir bankakostnaði hjá þeim hópum sem veikjast, falla á prófi eða skila ekki fullri námsframvindu af einni eða annarri ástæðu. Eftirágreiðslurnar valda því að ef lánþegi, námsmaður, lendir í vandræðum einu sinni getur hann átt í erfiðleikum með að taka upp þráðinn á nýjan leik vegna dýrra bankalána.
    Það er ljóst að í sumum tilvikum eru gerðar óraunhæfar kröfur til námsframvindu. Eftirágreiðslur hafa einnig sett mönnum óeðlilega þröngar skorður varðandi skipulag í námi. Þar þarf að auka svigrúm. Það hljóta menn að geta lesið út úr breytingunum á námsmannahópunum og vali á viðfangsefnum og greinum. Og það leiðir hugann að stöðu sjóðsins. Svo virðist sem öðrum hagsmunum hafi verið fórnað fyrir hugsanlega betri stöðu hans. Sú billega leið var valin að ýta vandanum með þeim hætti á undan sér. Námsmenn bera sjálfir bankakostnað, þar með talda vexti, sem sjóðurinn síðan lánar þeim fyrir í formi vaxtaábótar. Hversu háar upphæðir eru það sem LÍN hefur lánað námsmönnum vegna vaxta í bankakerfinu? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um. Þessi kostnaður, vaxtakostnaður í bankakerfinu safnast upp í löngu námi og eykur á skuldir og það með hertum endurgreiðslureglum þrengir vissulega möguleika viðkomandi í framtíðinni. Vilja menn horfa til þeirrar framtíðar að ungt fólk þurfi að velja á milli þess að mennta sig, að fá námsaðstoð, og þess að eignast húsnæði?
    Vel er hægt að hugsa sér að afnema eftirágreiðslukerfið í áföngum þannig að ekki þurfi að flytja alla upphæðina á milli fjárlagaára í einu. Aðalatriðið er að mörkuð verði sú stefna að tekið verði á þeim göllum kerfisins sem ég hef hér að framan farið yfir. Efnislega styðjum við frv. sem hér er til umfjöllunar en það þarf að taka á fleiru og hugsa suma hluti upp að nýju.
    Ég hef áður nefnt að auka þurfi svigrúm námsfólks varðandi námsframvindu og skipulag náms, sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa. Annars stendur kerfið engan veginn undir nafni sem námsaðstoðarkerfi. Það má líka hugsa sér annað fyrirkomulag á styrkjum við námsmenn en að þeir komi tilviljunarkennt í gegnum endurgreiðslur á námslánum því það er ljóst að miðað við núverandi kerfi, og raunar alltaf, hefur umtalsverður hluti lánanna endað sem styrkur. Og ef við erum með styrkjakerfi á annað borð er þá ekki rétt að endurskoða kerfið út frá þeirri staðreynd og e.t.v. hugsa upp á nýtt?
    Það spor sem hér er lagt til að stigið verði er vissulega í rétta átt en númer eitt er að viðurkenndir séu ágallar núverandi kerfis og hversu illa það hefur komið við þá hópa sem mest þurfa á námsaðstoð að halda. Sú endurskoðun sem ríkisstjórnin hyggst fara í tekur vonandi mið af því að þeirra hagsmunum verði ekki stefnt í voða en ekki aðeins því að sjóðnum verði ekki stefnt í svokallaðan voða.