Afgreiðsla heilbrigðisnefndar á frumvörpum um áfengismál

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 13:38:53 (480)

     Forseti (Ólafur G. Einarsson) :
    Vegna þessara orða hv. 17. þm. Reykv. vill forseti taka það fram að góð samstaða er milli forseta og formanna þingflokka og ríkisstjórnar um að ljúka þingstörfum fyrri hluta næstu viku. Það þýðir að sjálfsögðu að nokkru meiri hraði verður á afgreiðslu mála en til þessa hefur verið þegar málin koma nú frá nefndum til 2. umr. Forseti mun reyna að haga umræðum og niðurröðun dagskrármála þannig að hv. þm. gefist tími til að kynna sér mál, nefndarálit og önnur þingskjöl svo þeir geti tekið þátt í umræðum.
    Um þetta tiltekna mál er það að segja að umræða kann að hefjast um það síðar á fundinum og um það hefur verið rætt við þingflokksformenn á fundi fyrr í dag, en ég held að það sé alveg ljóst að þeirri umræðu mun ekki ljúka í dag og henni verður fram haldið á morgun. Um þetta hefur sem sagt verið rætt á fundi með forseta og þingflokksformönnum og forseti væntir áframhaldandi góðrar samvinnu við hv. þm. um þinghaldið næstu daga.