Afgreiðsla heilbrigðisnefndar á frumvörpum um áfengismál

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 13:42:54 (482)


[13:42]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég skildi niðurstöðu fundar þingflokksformanna með forseta þannig að við stefndum að því að taka áfengismálin til umræðu á morgun, enda eru menn að hamast í því að semja nefndarálit. En það vill svo til að það er mikið til sama fólkið sem situr í efh.- og viðskn. og sjútvn. og er að fást við þessi tvö stóru og reyndar margþættu mál sem hér eru til umfjöllunar.
    En ég vil taka undir það að eftir atburði gærdagsins og þær umræður sem urðu í efh.- og viðskn. í gærkvöldi, þá er í mínum huga alveg ljóst að það verða miklar umræður um þessi mál. Það eru að koma fram tillögur um breytingar á stjórnarformi Áfengisverslunar ríkisins án þess að það hafi verið gaumgæfilega rætt eða kannað og greinilega án vitundar núverandi forstjóra stofnunarinnar þannig að við skulum gera okkur grein fyrir því að við erum með mjög stór mál til meðferðar. En ég vil svo sannarlega leggja mitt af mörkum til þess að okkur takist að ná samkomulagi um þinglok og að það takist sem allra fyrst, enda vitum við að það eru margir þingmenn sem þurfa að fara að sinna öðrum störfum.