Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 15:29:12 (492)

[15:29]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir þáltill. á þskj. 43 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1995 sem gerður var í Reykjavík 5. maí sl. Samningurinn sem er bæði á íslensku og færeysku er birtur sem fskj. með þessari þáltill.
    Samkvæmt 1. gr. samningsins skulu íslensk og færeysk skip ekki veiða meira en 250 þús. lestir samtals af norsk-íslenskri síld á árinu 1995. Það er mat fiskifræðinga að stofninn muni þola þessa veiði til viðbótar úr þeim kvótum sem Norðmenn og Rússar veiða. Samningurinn geymir ekki ákvæði um hver skuli vera hlutur hvors aðila en 3. gr. gerir ráð fyrir að þegar helmingur kvótans hefur verið veiddur geti annar hvor aðilinn óskað eftir viðræðum ef hann telji að skipting aflans sé ósanngjörn í því skyni að tryggja sanngjarna skiptingu hans.
    Aðilar náðu samkomulagi 2. júní sl. um að frá þeim degi til loka ársins skuli veiði íslenskra skipa ekki fara fram úr 49 þús. lestum og veiðar færeyskra skipa fari ekki fram úr 33 þús. lestum. Þar af leiðandi eiga íslensk skip eftir að veiða 49 þús. lestir þar sem ekkert hefur verið veitt undanfarið vegna yfirstandandi verkfalls á fiskiskipaflotanum.
    Íslendingar veita færeyskum skipum heimild til að veiða norsk-íslenska síld í íslenskri efnahagslögsögu og Færeyingar heimila á móti íslenskum skipum veiðar á norsk-íslenskri síld í færeyskri fiskveiðilögsögu eins og kveðið er á um í 4. gr. samningsins en veiðin hefur fyrst og fremst átt sér stað í færeyskri lögsögu. Skilyrði eru þó sett um að aðilar tilkynni hvor öðrum hvaða skip þeirra muni veiða en þau skip ein sem tilkynnt eru hafa heimild til veiða í lögsögu gagnaðilans. Samningurinn leggur aðilum ekki þá skyldu á herða að banna veiðar skipa sinna á úthafinu fyrr en aflatakmarki er náð skv. 1. gr. Þangað til er skipum beggja aðila heimil veiði á úthafinu sem og í íslenskri efnahagslögsögu og færeyskri fiskveiðilögsögu. En það skal tekið fram að þeim tilmælum hefur verið beint til íslenskra skipa og færeyskra skipa jafnframt að þau veiði ekki í úthafinu og eftir því sem ég best veit hefur verið farið eftir þeim tilmælum. Hins vegar hafa aðrar þjóðir, m.a. Norðmenn, veitt á þessu svæði.
    Samkvæmt 2. gr. samningsins skulu aðilar hafa samband þegar heildarafli hefur náð 80% af veiðikvótanum í því skyni að tryggja að veiðar verði stöðvaðar þegar 250 þús. lesta heildarkvóti skv. 1. gr. hefur veiðst.
    Í 2. gr. er enn fremur gert ráð fyrir að aðilar skiptist á tölfræðilegum upplýsingum um veiðarnar. Aðilarnir hafa þegar haft samband samkvæmt þessu og því magni sem eftir er af Íslands hálfu hefur verið skipt upp á milli þeirra skipa sem stundað hafa veiðarnar. Samningur þessi gildir aðeins á árinu 1995 og hann hefur ekkert fordæmisgildi varðandi framtíðarskipan stjórnunar á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum eins og skýrlega er kveðið á um í 5. gr. hans. Á næsta ári verður því að semja að nýju um stjórnun veiðanna.
    Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að gangi fiskstofn í efnahagslögsögu tveggja eða fleiri strandríkja ber þeim ríkjum að vinna saman að stjórnun stofnsins. Gangi fiskstofn úr efnahagslögsögu strandríkis á úthafið ber strandríkjum að vinna að stjórnun stofnsins með þeim ríkjum sem veiðar stunda úr þeim stofni á úthafinu. Í þessum efnum er réttur strandríkis óbreyttur þótt fiskstofn sem gengur í efnahagslögsögu þess verði fyrir hruni og hætti tímabundið að ganga í efnahagslögsögu þess. Strandríki ber því eftir sem áður að vinna að vexti og viðgangi stofnsins samkvæmt reglum þjóðaréttar.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um hrun norsk-íslenska síldarstofnsins í lok sjöunda áratugarins en þá hélt þessi stofn sig meiri hluta árs á hafsvæðum sem nú eru innan íslenskrar efnahagslögsögu. Það hefur líka sýnt sig undanfarið þegar stofninn er að stækka að hann hefur byrjað að taka upp fyrra göngumynstur eins og nú hefur gerst sl. tvö ár a.m.k. og það er afar mikilvægt að þessi stofn taki upp fyrri hætti og taki vetrarsetu í íslensku lögsögunni eins og hann gerði hér áður fyrr. Á grundvelli hafréttarsamningsins hafa Íslendingar því skýlausan rétt til stjórnunar á norsk-íslenska síldarstofninum eins og ákvæði hans kveða á um og áður hefur verið minnst á.
    Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að á árinu 1973 gerðum við samning við Norðmenn og Rússa um takmarkanir á veiði norsk-íslenskrar síldar. Með öðrum orðum viðurkenndu Norðmenn og Rússar fyrir daga hafréttarsamningsins og efnahagslögsögu að við höfum rétt til stjórnunar á veiðum úr fiskstofninum þótt ekki hafi farið mikið fyrir þeirri viðurkenningu á undanförnum árum. Nú um langt skeið höfum við ítrekað óskað eftir viðræðum við Norðmenn og Rússa um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Norðmenn hafa hafnað þeirri beiðni þar til sl. vor að þeir buðu til fjórhliða viðræðna með okkur, Færeyingum og Rússum, um stjórnun veiða úr þessum stofni. Það voru mikil vonbrigði hversu lágur kvóti

Norðmenn og Rússar töldu að ætti að koma í hlut okkar til bráðabirgða og reyndar átti það einnig við um Færeyinga. Það slitnaði því miður upp úr þessum fjórhliða viðræðum sem er mjög miður. Sama dag og slitnaði upp úr viðræðunum var talið rétt að hefja þá þegar viðræður við Færeyinga um stjórnun veiða úr stofninum og þær viðræður leiddu til þess að sá samningur sem hér er lagður fyrir og er til umræðu var gerður. Síðan hafa aðilar verið í sambandi en því miður hefur ekkert það gerst sem hefur orðið til þess að samkomulag hefur náðst í málinu en mikilvægt er að halda áfram að leita eftir samningum því hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir allar þessar þjóðir og ég vænti þess að slíkir samningar muni nást sem allra fyrst.
    Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni umræðunni verði máli þessu vísað til síðari umræðu og hæstv. utanrmn.