Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:43:23 (503)


[16:43]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er eins og það komi hæstv. utanrrh. á óvart að ýmsar spurningar, efasemdir og gagnrýni eru uppi í umræðunum varðandi það hvernig haldið hefur verið í tíð núv. ríkisstjórnar á samningunum við Norðmenn. Ein af ástæðunum, hæstv. utanrrh., er t.d. sú að við fáum ekki hrein svör við málefnalegum spurningum sem bornar eru fram.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hóf umræðuna á eftir ráðherranum með því að víkja að því að ýmsir teldu að upphaflegu hugmyndir íslensku stjórnvaldanna í viðræðunum hefðu verið aðrar en þær sem urðu svo síðar hugmyndir íslensku stjórnvaldanna, með öðrum orðum lægri í upphafi. Ég hefði talið æskilegt, hæstv. ráðherra, og það er liður í því sem ég kalla að hreinsa málið, að slíkum fullyrðingum væri bara formlega neitað á Alþingi til þess að við sem heyrum slíkar fullyrðingar hvað eftir annað getum þá sagt að þær séu ekki réttar og ráðherrann hafi lýst því yfir á Alþingi. En þegar ráðherrann kemur hér hvað eftir annað og kemur sér hjá því að lýsa alveg hreint hvort þetta sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var hér að greina frá sé rétt eða ekki er það liður í því að málið er ekki hreint, hæstv. ráðherra. Það er m.a. ekki hreint vegna þess að við áttum engan á vettvangi né var ekkert samráð haft um þessar upphaflegu hugmyndir eða hvernig þær þróuðust í gangi viðræðnanna. Það er auðvitað einfaldasta aðferðin til þess að forða slíku og tryggja þar með samstöðuna hér heima ef hæstv. utanrrh. leggur á annað borð eitthvað upp úr því að hafa breiða samstöðu á bak við sig hér heima sem við erum í sjálfu sér alveg reiðubúin að mynda á efnislegum grundvelli að menn þurfi ekki að standa í svona eftirleit að því hvað sé rétt og hvað ekki í málinu.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék líka að því hér áðan að óeðlilegt væri að miða hlutdeild Norðmanna í núverandi og framtíðarveiðum á síldarstofninum við það sem þingmaðurinn kallaði rányrkju Norðmanna á sínum tíma á smásíld eða jafnvel seiðum eins og þingmaðurinn orðaði það. Ég tel mjög mikilvægt að afstaðan til slíkra efnisatriða komi alveg skýrt fram á þinginu og þegar fulltrúi Alþfl. í utanrmn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hefur lýst með jafnafgerandi hætti og hann hefur gert í dag og í grein í Morgunblaðinu þessu sjónarmiði er auðvitað mikilvægt að fá afstöðu ráðherrans til þess.
    Þegar ráðherrann segir svo hér áðan að ekki sé hægt að svara því hverjar séu kröfur Íslendinga um

hlutdeild í síldarstofnum vegna þess að það séu að fara fram vísindalegar rannsóknir á málinu verð ég að segja alveg eins og er að ég er eiginlega alveg hættur að skilja um hvað ráðherrann er þá að tala við norska utanríkisráðherrann á öllum þessum fundum. Deilan við Norðmenn stendur nákvæmlega um það hvað Íslendingar eiga að fá í sinn hlut. Það er kjarni málsins. Kjarni málsins er ekki sá, þ.e. deilan, að það eigi að byggja upp stofninn eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan og gerði sig mjög breiðan í ræðustólnum, að stefna Íslands væri fólgin í því að byggja upp stofninn. Ég vænti þess að enginn ágreiningur sé um að það sé forsenda málsins og væntanlega er ráðherrann ekki að saka Norðmenn um að þeir vilji ekki byggja upp stofninn. Það væri náttúrlega mjög alvarleg ásökun af hálfu Norðmanna.
    Vandinn stendur um það hvernig á að skipta stofninum þegar búið er að byggja hann upp og hvaða hugmyndir Íslendingar hafa um hlut sinn í síldarveiðunum. Nú segir hæstv. ráðherra að ekki sé hægt að svara því hverjar kröfur Íslendinga séu vegna þess að vísindalegum rannsóknum sé ekki lokið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af þessu tilefni: Hvenær lýkur þessum rannsóknum? Er þetta nokkurra mánaða vinna eða eru þetta margra ára rannsóknir og eru þær virkilega þannig að ráðherrann geti ekki gefið til kynna eitthvert tölulegt bil? Menn hafa upplýsingar um það hvað veiddist úr stofninum á sínum tíma meðan hann var í reynd sameiginlegur stofn Íslendinga og Norðmanna. Eru menn að tala um eitthvert afgerandi frávik frá þeim tölum?
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki alveg hvers vegna hæstv. ráðherra er svona tregur til þess að reifa málið á einhverjum þannig efnisgrundvelli að fast land sé undir fótum í umræðunni af hálfu okkar Íslendinga umfram það að segja bara: Við viljum byggja upp stofninn. Í raun og veru var það það eina sem hæstv. ráðherra sagði um kröfugerð Íslendinga í málinu.
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því a.m.k. í þeim þremur óformlegu viðræðulotum sem ráðherrann hefur átt með utanrrh. Norðmanna og ég skal taka alveg skýrt fram að ég styð ráðherrann eindregið í því að ræða við utanrrh. Norðmanna. En ég vil vita um hvað viðræðurnar snúast, hæstv. ráðherra. Ég vil vita hvaða sjónarmið íslenski ráðherrann lætur í ljós og ég vil vita hvaða sjónarmið norski utanríkisráðherrann lætur í ljós. Hver er kröfugerð norska utanríkisráðherrans í þessum viðræðum, hæstv. ráðherra? Hvað er það sem gerir það að verkum af hálfu Norðmanna að það er væntanlega mat norska utanríkisráðherrans að það taki því ekki að hefja nýjan samningafund? Málið er satt að segja í slíkri þoku varðandi framgöngu og viðhorf þeirra sem hafa komið að því að það er mjög erfitt að átta sig á því.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fullyrti það hér áðan að sú tala, sem er að finna í þeim samningum sem þingið er nú beðið um að staðfesta, þýddi það að hlutdeild Íslendinga í norsk-íslenska síldarstofninum þegar hann er kominn vel á veg verði 15%, til eða frá kannski 1--2%. Ég tók eftir því að hæstv. utanrrh. mótmælti ekki þeirri fullyrðingu. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gagnrýndi þessa tölu fyrir að hún væri allt of lág. En hæstv. ráðherra spurði mig að því hér áðan hvort ég væri ósammála samningnum. Ég get alveg sagt við ráðherrann að ég tel töluna, 250 þús. tonn, mjög hæpna. Ég tel að það þurfi alvarlegrar umhugsunar við með hvaða hætti þingið á að staðfesta samninginn með þeirri tölu inni. Ég geri ekki athugasemd við önnur ákvæði samningsins. En ég á eftir að velta því fyrir mér hvernig þingið getur staðfest þennan samning og gengið þannig frá því að talan 250 þús. tonn í samningnum verði ekki framtíðarfjötur í hagsmunasókn Íslendinga á þessu sviði. Vonandi tekst okkur í utanrmn. að leysa það í sameiningu að ganga þannig frá því að þessi samningsgerð verði ekki notuð af Norðmönnum síðar meir til þess að halda því að okkur að með staðfestingu sé Alþingi Íslendinga búið að sætta sig við 15% hlutdeild í stofninum.