Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:52:31 (504)


[16:52]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla aðeins að svara hv. þm. og ég vænti þess að síðan þurfum við ekki að eiga frekari orðaskipti hér.
    Í sambandi við veiðireynslu sem liggur alveg fyrir í gegnum tíðina eru ekki uppi hugmyndir af okkar hálfu að byggja eingöngu á þessari veiðireynslu á sínum tíma. Það er svo langt um liðið og svo allt aðrar aðstæður að það væri rangt að einblína eingöngu á það. Það sem skiptir meginmáli með sama hætti og að því er varðaði loðnuna á sínum tíma er dreifing stofnsins í lögsögum þjóðanna og því er svo mikilvægt að stofninn taki upp fyrra mynstur. Fyrir liggur ákveðið líkan í þessu sambandi sem ég gerði grein fyrir eða nefndi sem allir geta haft aðgang að en það er mjög mikilvægt að styrkja það líka og rannsaka útbreiðsluna núna og ekki bara núna heldur einnig á næstu árum. Ég bendi á þá staðreynd að því miður hefur síldin enn sem komið er aðeins að litlu leyti komið inn í íslensku lögsöguna en hefur þó komið inn í hana nú á þessu sumri sem er mjög mikilvægt. Það eru mjög sérstakar aðstæður í hafinu austur af landinu vegna kulda sem er aðalástæðan fyrir því að síldin hefur ekki komið hérna inn. Við verðum því að ganga út frá því að þarna sé um mjög óvenjulegar aðstæður að ræða. Það er útbreiðslan, sem skiptir miklu máli, og sú staðreynd að uppeldisstöðvarnar eru við Noreg og Rússland. Þar heldur smásíldin sig sem gerir það svo mikilvægt að halda þessum rannsóknum áfram. Ég get að sjálfsögðu ekki fullyrt um það hvenær þeim verður lokið því að vonandi verður ávallt haldið áfram að styrkja þessar upplýsingar og leita nýrra.